Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Posts Tagged ‘Basilios Basil Great Saint’

Basilios mikli

Βασίλειος fœddist í borginni Caesarea Mazaca í hér­að­inu Cappa­dociae í Litlu-Asíu (nú Kayseri í miðri Ana­toliu í Tyrk­landi). For­eldr­ar hans hétu Basil­íus og Emme­lia, og bæði voru þau tek­in í heil­agra manna tölu ásamt fimm börn­­um sín­um og móð­ur hans, en fað­ir Emmeliu varð písl­ar­vott­ur. Basil­íus yngri naut ágætr­ar skóla­göngu, bæði í Kon­stantín­ópel og Aþenu. Síð­an hélt hann til heima­borg­ar sinn­ar og lét skír­ast 356. Hann ferð­að­ist næst um Sýr­land, Egypta­land, Palest­ínu og Mesó­pót­amíu, til að kynna sér ein­setu, klaust­ur og kristni­hald. Hann stofn­aði 358 til munk­líf­is í Annesi á bökk­um ár­inn­ar Iris (nú Niks­ar í Norð­ur-Tyrk­landi). Þetta var fyrsta klaust­ur í Litlu-Asíu, þótti strangt, og ekki mun Basil­ius hafa dreg­ið af sér við mein­læti. Þang­að réð­ist með hon­um vin­ur hans, Gregor­ius Nazi­anzus (330-389), sem einn­ig átti eft­ir að verða heil­ag­ur kirkju­frœð­ari. Þeir rann­sök­uðu með­al ann­ars Biblí­una og rit kirkju­feðr­­anna, og sam­an rit­uðu þeir ár­ið 360 bók­ina Philo­kalia, með ágripi af verk­um Origen­es­ar. Sömu­leið­is samdi Basil­íus Regulae fusius tractatae, með leið­bein­ing­um um munk­lífi, og áttu regl­ur þess­ar síð­ar eft­ir að verða grund­völl­ur að klaust­ur­haldi víð­ast í aust­ur­kirkj­­unni (að sumu leyti byggð­ar á hug­mynd­um eft­ir heil­ag­an Pachom­ius [d. 348] en tals­vert breytt­ar). Hann gerði með­al ann­ars ráð fyrir hjálp við sjúka og fá­tœka og jafn­vel að­stoð við mennt­un fólks. Nú ágerð­ust deil­ur um Aríus­ar­vill­una, og Basil­íus reyndi í fyrstu að leita mála­miðl­un­ar, sem ekki bar árang­ur, og fyllti hann síð­an flokk þeirra, sem ein­dreg­ið héldu sig við Níkeu­játn­ing­una, sem hafði ver­ið sam­þykkt 325. Það átti eft­ir að verða hlut­skipti hans að berj­ast lengi gegn Arí­us­ar­villu, sem oft naut stuðn­ings við hirð keis­ar­anna og var á þeim tíma bor­in fram með tals­verð­um yf­ir­gangi. Basil­íus var vígð­ur til prests um 363, og flutt­ist 365 al­fari til Caes­area, til að að­stoða Eusebius erki­bisk­up, sem dó 370, og var hann þá kjör­inn í hans stað og vígð­ur 14. júní. Á með­al bóka eft­ir þenn­an kirkju­frœð­ara er Hexaë­meron, um sköp­un heims­ins, ann­að rit um Jes­aja spá­mann, enn ann­að með 13 prédik­un­um um Davíðs­sálma, einn­ig Regulae brevius tractatae, ný fram­setn­ing á regl­un­um um munk­lífi. Hann samdi enn­frem­ur þrjár bœk­ur á móti Eunom­iusi, sem varði Arí­us­ar­­villu. Basil­ius rit­aði ár­ið 375 hið stór­merka verk De Spiritu Sancto. Loks má nefna sí­gild Heil­ræði til ungra manna, um var­fœrni við lest­ur á heið­ing­leg­um bók­um. All­mik­ið bréfa­safn eft­ir Basil­ius er varð­veitt. Um­hverf­is bisk­ups­set­ur hans varð smám sam­an til dá­lít­ið sam­fé­lag, sem kall­að var Basilia, með kirkju, spítala og af­drepi fyr­ir ferða­fólk. Hann pré­dik­aði kvölds og morgna, oft fyr­ir mikl­um mann­fjölda, skipu­lagði tíða­bœn­ir átta sinn­um á dag og samdi texta fyr­ir messu­hald. Hann lét sér mjög annt um fá­tœka og hjálp­aði eft­ir megni synd­ur­um til aft­ur­hvarfs. Þeg­ar hann dó, fylgdi mik­ill og grát­andi mann­fjöldi hon­­um til graf­­ar, einn­ig heið­ingj­ar og út­lend­ing­ar, en lík­ræð­una flutti bróð­ir hans, Gregor­ius Nyss­en­us bisk­up og seinna heil­ag­ur kirkju­fað­ir (d. eft­ir 394). Rösk­um tveim­ur ár­um eft­ir and­lát Basil­ius­ar tókst loks að yf­ir­stíga Arí­us­ar­villu á al­mennu kirkju­þingi í Kon­stantín­ópel 381.

Basilíus dó 1. janúar, sem er messu­dag­ur hans víða í orþó­dox­um kirkj­um, en hans er í róm­versk-kaþólsku kirkj­unni og sum­um kirkju­deild­um mót­mæl­enda nú minnzt 2. janúar, og fleiri messu­daga má finna. Einn þeirra er vígslu­dag­ur hans til bisk­ups. Ann­ar er 30. jan­úar, og ber saga til: Á ell­eftu öld urðu flokka­drætt­ir í Kon­stantín­ópel, svo að borg­ar­bú­ar skipt­ust í þrjár fylk­ing­ar. Sum­ir álitu heil­ag­an Basil­íus mest­an af hin­um þrem­ur miklu grísku­mæl­andi kirkju­feðr­um, aðr­ir sögðu heil­ag­an Gregor­ius Nazi­anzus vera hon­um meiri, og enn aðr­ir töldu heil­ag­an Jó­hann­es Krysostom­os (d. 407) miklu mest­an. En þetta leyst­ist á ár­inu 1084, því að kirkju­feð­urn­ir þrír birt­ust Jó­hann­esi bisk­upi frá Euchaita í sýn og sögð­ust vera jafn­ir fyr­ir Guði. “Á milli okk­ar er eng­inn ríg­ur eða sund­ur­lyndi,” sögðu þeir og mæltu fyr­ir um að láta lok­ið allri þrætu en halda þeim í sam­ein­ingu há­tíð á sama degi. Jó­hann­es bisk­up valdi 30. jan­úar, og á það sætt­ist öll al­þýða, þótt eft­ir sem áð­ur hefðu kirkju­feð­urn­ir einn­ig hin­ar fyrri há­tíð­ir sín­ar. Í róm­versk-kaþólsku kirkj­unni er heil­ög­um Aþanas­íusi í Alex­andríu (d. 373) venju­lega bœtt við, þeg­ar rætt er um hina miklu grísku kirkju­feð­ur, og í sam­ein­ingu voru þeir fjór­ir út­nefnd­ir kirkju­frœð­ar­ar á ár­inu 1568. Þeir lögðu all­ir um­tals­vert af mörk­um til að skýra og verja kenn­ingu heil­agr­ar kirkju um Guð­dóm­inn. Í Martyro­logium Rom­an­um stend­ur þetta um Basil­ius: “Cæsareæ, in Cappa­docia, de­positio sancti Basilii, cogno­mento Magni, Episcopi, Con­fessoris et Ecclesiæ Doctoris; qui, tempore Valentis Imperator­is, doctrina et sapientia insignitus omnibus­que virtutibus exornatus, mirabiliter effulsit, et Ecclesiam ad­versus Arianos et Mace­donianos in­expugnabili con­stantia defendit. Eius autem festivitas potissimum agitur decimo octavo Kalendas Iulii, quo die Episcopus ordinatus est.”

Helgur dómur Basiliusar fór víða, en höf­uð hans er varð­veitt í klaustr­inu Megiste Lavra á Aþos­skaga. Sig­urð­ur A. Magn­ús­son lýsti þessu klaustri í bók­inni Garð­ur Guðs­móð­ur (Reykja­vík 2006, bls. 25-32), en ekki er höf­uð­ið nefnt hjá honum. Hins veg­ar er stutt­ur og góð­ur kafli um Basil­ius (bls. 102-104), auk marg­vís­legra upp­lýs­inga um munk­lífi í orþó­dox­um sið.

Verk eftir heilagan Basilius má meðal ann­ars lesa hér: 1) Bibliothek der Kirchenväter (hér og hér), 2) Christian Classics Ethereal Library, 3) Docu­menta Catholica Omnia, 4) Ellopos.­net 5) Eternal Word Tele­vision Net­work (nr. 532-533, 538-539, 550-555, 560-561, 706-709) og 6) JesusMarie.com.

Á mörgum grískum heimilum er siður að bera fram eft­ir mið­nœtti um ára­mót Basil­íus­ar­köku, en í henni er fal­inn gull- eða silf­ur­pen­ing­ur, og boð­ar gæfu á nýja ár­inu að fá pen­ing­inn. Fyrst er skor­in sneið handa heil­ög­um Basil­íusi, þá sneið­ar fyr­ir alla á heim­il­inu, jafn­vel líka fyr­ir hund­inn og kött­inn, en síð­ast stór sneið fyr­ir hina fá­tœku. Þetta mun vera til minn­ing­ar um ótíð í Kappa­dokíu ná­lægt ár­inu 368, en Basil­íusi tókst að skipta svo mat­föng­um, að hung­ur­dauða varð af­stýrt. Með kök­unni má til dœm­is drekka Basil­íus­ar­kaffi. Síð­an fœr­ir Basil­íus börn­un­um gjaf­ir á þess­um messu­degi sín­um og hleyp­ur þann­ig und­ir herð­ar með heil­ög­um Niku­lási, sem víða um lönd fer eins að um jólaleytið.

Meðfylgjandi mynd er eft­ir spænska mál­ar­ann Francisco de Herrera eldri, gerð um 1639, og sýn­ir heil­ag­an Basil­íus lesa kenn­ing­ar sín­ar fyr­ir. Heil­ag­ur Andi í líki dúfu flýg­ur yf­ir höfði hans. Bisk­up­inn dó um fimmt­ugt (fœdd­ur 329 eða 330) og mætti vera lít­ið eitt ung­legri á mynd­inni, þótt mœdd­ur hafi ver­ið af erf­iði, mein­læt­um og veik­indum.

   

    

Benedictus PP. XVI (ávarp 4. júlí 2007)

Benedictus PP. XVI (ávarp 1. ágúst 2007)

Catholic Information Network

Catholic Online

Clarke, William Kemp Lowther (1913)

Columbia Encyclopedia

Coptic Orthodox Church Network

Eglise Catholique en France

Gregorius Nazianzus (minningarræða)

Heiligen-3s

Hieronymus kirkjufrœðari (sjá 116. kafla)

Kathpedia

Klose, Carl Rudolph Wilhelm (1835)

Maier, Johannes (1915)

McSorley, Joseph @ The Catholic Encyclopedia (1907)

Odden, Per Einar @ Den Katolske Kirke i Norge

Orthodox Wiki

Padelford, Frederick Morgan (1902) @ Tertullian.org

Santi, beati e testimoni

Santopedia

Scholl, Eug. (1881)

Siervas de los Corazones Traspasados de Jesús y María

Smith, Richard Travers (1879)

Stadlers Vollständiges Heiligenlexikon

St. Nicholas Ukrainian Catholic Church @ Manitoba

Store norske leksikon

Weiss, Karl (1908)

Wikipedia (enska)

Wikipédia (franska)

Wikipedia (ítalska)

Wikipédia (portúgalska)

Wikipedia (spænska)

Wikipedia (þýzka)

Ökumenisches Heiligenlexikon

     

    

Read Full Post »