Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for the ‘Reglufólk’ Category

 

Marie-Élisabeth Catez fæddist í Avord í héraðinu Cher í Mið-Frakklandi en ólst upp í Dijon í héraðinu Côte-d’Or í Austur-Frakklandi. Hún gekk 1901 í reglu hinna berfættu Karmelnunna í Dijon og tók sér nafnið Élisabeth af hinni alhelgu Þrenningu. Hún ritaði um andleg efni. Undir það síðasta kallaði hún sig Laudem Gloriae. Hún var tekin í tölu blessaðra 1984 og í tölu heilagra 2016. Messudagur hennar er 8. nóvember.

 

Catholic News Agency

Per Einar Odden @ Den Katolske Kirke i Norge

St. Jósefskirkja í Hafnarfirði

Wikipedia (enska)

Wikipédia (franska)

Wikipedia (ítalska)

Wikipedia (þýzka)

Ökumenisches Heiligenlexikon

 

 

Auglýsingar

Read Full Post »

 

Vincentus er sagður hafa verið upprunninn í Toul í norðaustanverðu Frakklandi. Hann gekk í klaustur á eyjunni Saint-Honorat, sem er ein af Lérins-eyjum undan frönsku rivíerunni. Hann ritaði um kristna trú, einkum til að leiðrétta trúvillu. Hann notaði höfundarnafnið Peregrinus. Hann mun hafa tekið prestsvígslu. Hann á messudag 24. maí.

 

Catholic Online

Den Katolske Kirke i Norge

EWTN

Greek Orthodox Archdiocese of America

Halsall @ Fordham University

Holy Fathers @ Facebook

Wikipedia (enska)

Wikipédia (franska)

Wikipedia (þýzka)

 

 

 

 

Read Full Post »

Hinn blessaði Guillaume Arnaud fæddist í Montpellier í Suður-Frakklandi og mun hafa lært lögfræði. Hann gekk í reglu prédikarabræðra [Ordo Fratrum Praedicatorum – OP]. Hann starfaði fyrir rannsóknarrétt páfans. Gregoríus IX. fól honum og tveimur reglubræðrum hans það verkefni árið 1234 að yfirvinna trúvillu í Languedoc í Suður-Frakklandi. Þar voru biskupsdæmin Toulouse, Albi, Carcassonne og Agen. Þar höfðu albigensar (katarar) hreiðrað um sig. Þeir gerðu Guillaume og félögum hans fyrirsát í Avignonet og drápu þá, virtu ekki einu sinni kirkjugrið. Með honum liðu píslarvætti hinir blessuðu: Bernhard frá Roquefort prestur OP, Garcia d’Aure leikbróðir OP, Raimund frá Carbonier prestur OFM, Stefan de Saint-Thibéry prestur OFM, Raimund frá Cortisan prestur, Bernhard Fortanier heimsprestur, Pétur Arnaud nótaríus og leikmaður, Fortanerius heimsprestur, Ademarus heimsprestur, ónafngreindur prestur og príor OSB. Messudagur þeirra er 29. maí.

 

Per Einar Odden @ Den Katolske Kirke i Norge

Wikipedia (þýzka

Ökumenisches Heiligenlexikon

 

Read Full Post »

 

Agnes frá Montepulciano í Toscana á Mið-Ítalíu á messudag 20. apríl. Þegar hún var 9 ára gömul, fékk hún leyfi foreldra sinna til að ganga í klaustur, og sem 15 ára var hún kjörin abbadís. Meðan hún hafði heilsu til, lagði hún á sig talsverð meinlæti, lifði til dæmis á vatni og brauði í 15 ár og svaf á gólfinu með stein fyrir kodda. Jesúbarnið og María mey vitruðust henni, og englar færðu henni evkaristíuna. Hún naut ýmissa náðargjafa: læknaði til dæmis fólk, hafði spádómsgáfu, lyftist frá jörðu við bænagerðir og margfaldaði matvæli, sem voru af skornum skammti.

 

Per Einar Odden @ Den Katolske Kirke i Norge

Wikipedia (enska)

Wikipedia (ítalska)

Wikipedia (þýzka)

Ökumenisches Heiligenlexikon

Read Full Post »

 

Ágústínus var Benediktsmunkur og súbpríor í Andrésarklaustrinu í Róm, sem Gregoríus mikli páfi hafði stofnað. Árið 596 ákvað Gregoríus að senda Ágústínus og þrjátíu munka honum til fulltingis, til að kristna engilsaxa, en England var orðið mjög heiðið. Síðar bættust í hópinn tíu prestar frá Gallíu. Páfi útnefndi Ágústínus ábóta fyrir hópnum. Þeir héldu á fund Aðalberts konungs í Kent, sem vildi ekki taka við kristni en gaf þeim hús í Kantaraborg og gaf þeim leyfi til að boða kristna trú. Þeim varð vel ágengt, og árið 601 tók konungur skírn ásamt mörg þúsund landsmönnum sínum. Ágústínus tók nú biskupsvígslu og telst vera fyrsti erkibiskup af Kantaraborg, enda hafði Gregoríus páfi sent honum pallíum. Síðar stofnaði Ágústínus önnur biskupsdæmi, bæði í London og í Rochester. Hann hefur verið kallaður postuli engilsaxa, þótt ekki entist honum lengi ævin sem biskup þeirra. Messudagur Ágústínusar er 27. maí.

 

Catholic Online

Per Einar Odden @ Den Katolske Kirke i Norge

Wikipedia (danska)

Wikipedia (enska)

Wikipédia (franska)

Ökumenisches Heiligenlexikon

 

Read Full Post »

 

Þessi kona hét upphaflega Caterina di Geri de’Pazzi, og hún fæddist í borginni Firenze í héraðinu Toscana á Ítalíu. Hún var komin af efnuðu og hátt settu fólki. Þegar hún var tíu ára og meðtók í fyrsta sinn evkaristíuna, vann hún það heit að varðveita alla ævi jómfrúrdóm sinn. Hún var sem 14 ára send í klausturskóla, og sem 16 ára ákvað hún að gerast nunna. Hún valdi ströngustu nunnuregluna, sem um var að ræða: Ordo Sororum Carmelitarum [OCarm], og fékk í árslok 1582 inngöngu í klaustrið Santa Maria degl’Angeli í heimaborg sinni. Þá tók hún sér nafnið María Magdalena. Hún fékk lengst ævi miklar og margar vitranir, sem segir frá í langri bók hennar, sem heitir Contemplazioni. Messudagur hennar er 25. maí.

 

Per Einar Odden @ Den Katolske Kirke i Norge

Wikipedia (enska)

Ökumenisches Heiligenlexikon

 

 

 

Read Full Post »

 

Margherita Lotti fæddist í fjallabyggðinni Roccaporena í Cascia í héraðinu Umbria á Ítalíu. Hana langaði frá barnsaldri að verða nunna, en foreldrar hennar voru nokkuð farin að reskjast og kröfðust þess, að hún gifti sig, svo að hún yrði ekki einstæðingur, þegar þau féllu frá. Það gekk eftir 1393, þegar Rita var 12 ára, maður hennar að foreldraráði Paolo Mancini, vel fjáður en skapbráður, drykkfelldur og heldur illa látinn. Eftir hentugleikum er hann sagður hafa lúskrað á konu sinni og haldið framhjá henni. Þau eignuðust tvo syni, sem erfðu skaplyndi föður síns. Paolo Mancini var drepinn í blóðhefnd 1411. Þar kom að synir hans vildu hefna, en Rita baðst fyrir, að þeir mættu fyrr deyja en verða morðingjar, sem gekk eftir. En hún er fyrir andlát sonanna og manns síns sögð hafa stundað þá svo vel sem hún kunni og getað sveigt skaplyndi þeirra til hins betra. Nú voru fjölskylduhagir ekki því til fyrirstöðu, að Rita gæti látið þann gamla draum rætast að gerast nunna. Hún sótti því um inngöngu í Ágústínusarklaustrið í Cascia og var þrívegis gerð burtræk, meðal annars af því hún væri ekki óspjölluð jómfrú. Þá gerðist það nótt eina árið 1413, að hinir heilögu Jóhannes skírari, Ágústínus kirkjufaðir og Nikulás frá Tolentino vitjuðu Ritu og tóku hana með sér inn í klaustrið, en hlið þess opnuðust af sjálfu sér fyrir þeim. Morguninn eftir, þegar nunnurnar sáu hana, varð þeim ljóst, að það væri Guðs vilji að taka við henni. Þar dvaldist Rita síðan þau 44 ár, sem hún átti ólifuð. Rita lagði mikla stund á föstur og önnur meinlæti, svaf til dæmis á gólfinu og hýddi sig með svipu, til að gera yfirbót fyrir syndir mannanna. Hún var sífellt á bæn eða að hugleiða pínu Krists. Einu sinni árið 1441 var sem þyrnir úr kórónu á Kristslíkneski flygi í enni hennar, og var hún síðan með blóðugt sár á enninu, sem var álitið eins konar stigmata, og úr sárinu lagði slíkan ódaun, að hún varð að mestu að vera ein síns liðs. Síðustu fjögur árin var Rita rúmföst, og hún dó úr berklum. Messudagur hennar er 22. maí.

 

Per Einar Odden @ Den Katolske Kirke i Norge

Santa Rita da Cascia Agostiniana

Wikipedia (enska)

Wikipedia (ítalska)

Ökumenisches Heiligenlexikon

 

Basilíka sankti Ritu í Cascia.

 

Stór stytta af sankti Ritu; Cascia í baksýn.

 

Read Full Post »

Older Posts »