Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for the ‘Píslarvottar’ Category

    

Agnes (Onorio Marinari, 17. öld)

    

Gröf heilagrar Agnesar

    

Messudagur Agnesar er 21. janúar, til minn­ing­ar um dauða henn­ar (en einn­ig hef­ur henn­ar ver­ið minnzt 28. jan­úar). Í Martyro­logium Rom­anum stendur: “Romæ passio sanctæ Agnetis, Virginis et Martyris; quæ, sub Præ­fecto Urbis Symphronio, ignibus iniecta, sed iis per orationem eius exstinctis, gladio per­cussa est. De ea beatus Hiero­nymus hæc scribit: Omnium gentium litteris atque linguis, præcipue in Ecclesiis, Agnetis vita laudata est; quæ et ætatem vicit et tyrannum, et titulum castitatis martyrio consecravit.” Þor­lák­ur helgi bauð að halda heil­agt Agn­es­ardag.

Samkvæmt Rómarrétti mátti ekki líf­láta hrein­ar meyj­ar, og varla hef­ur mörg­um þótt fínt að fara í kring­um þau lög með því að flytja heil­aga Agn­esi í vænd­is­hús, af því hún vildi ekki láta að vilja ungs yf­ir­stétt­ar­manns. Blóð písl­ar­vott­anna er fræ­korn kristn­inn­ar, sagði Tertull­ian­us, og á vel við þessa stúlku. Nafn henn­ar mun kom­ið úr grísku og merkja hrein­líf, óflekk­uð eða heil­ög. En það lík­ist latn­eska orð­inu agnus, sem þýð­ir lamb (sbr. Jh 1.29, 36), og það er helzta tákn Agn­es­ar, ásamt pálma­grein písl­ar­vott­anna. Á messu­degi henn­ar taka munk­ar úr Abbatia trium fontium ad Aquas Salvias tvö óað­finn­an­leg lömb og fœra þau til basi­lík­unn­ar Sant’­Agnese fuori le mura, en þar er gröf Agn­es­ar (sjá mynd). Í kirkj­unni eru lömb­in bless­uð, sem páf­inn ger­ir venju­lega sjálf­ur, en síð­an rú­in á skír­dag. Ull­ina fá nunn­ur úr klaustri heil­agr­ar Sess­elju í Traste­vere, og úr henni eru of­in pall­íum, sem lát­in eru liggja á alt­ari í Pét­urs­kirkj­unni að­fara­nótt Pét­urs­messu og Páls, 29. júní, en síð­an af­hent nýj­um erki­bisk­up­um í morg­un­mess­unni (sjá hér, 3,3 GB). Önn­ur höf­uð­kirkja heil­agr­ar Agn­es­ar heit­ir Sant’­Agnese in Agone. Á þeim stað leið hún písl­ar­vætt­ið. Forn­ar heim­ild­ir um hana eru all­marg­ar (Ambrosius, Aug­ust­in­us, Dam­as­us, Hiero­nym­us, Prud­ent­ius), og kjarn­inn í þeim má telj­ast áreið­an­leg­ur. Með­fylgj­andi helgi­mynd af Agn­esi er eft­ir Onorio Marinari (1627-1715).

Agnes er verndar­dýr­ling­ur ungra stúlkna. Löng­um hef­ur ver­ið sagt, að fasti þær fyr­ir Agn­es­ar­messu, muni þær að­fara­nótt henn­ar sjá manns­efni sitt í draumi. Enska skáld­ið John Keats (1795-1821) orti 42 er­inda róm­an­tískt ljóð um þetta. Nicholas Wise­man kardínáli (1802-1865) not­aði Agn­esi sem eina af fyrir­mynd­um í skáld­sög­unni Fabiola, sem ger­ist snemma á 4. öld í Róm.

    

Agnesar saga

(Heilagra manna sögur, 1. bindi, prentað 1877)

Ambrosius biskup [skakkt mun að nefna hann til, sag­an ef til vill að stofni frá 7. öld], þræll þræla Guðs, send­ir kveðju helgum meyj­um. Vér höld­um há­tíð­ar­dag hinn­ar helg­ustu meyj­ar með sálm­um og Guðs lofi. Gleðj­ist flokk­ar lýða og fagn­ið Krists ölmus­ur, fögn­um vér all­ir með Drottni, og minn­umst, hversu pínd var hin helg­asta Agn­es; á hin­um þrett­ánda vetri ald­urs síns glat­aði hún dauða og fann líf, því að hún elsk­aði skap­ara lífs; ung var hún að aldri en al­rosk­in að sið, fög­ur að áliti, en fegri að sið­um og trú.

Borg­ar­greifa son hafði uppi orð sín og bað henn­ar, og hét hann mörg­um fríð­ind­um bæði henni og frænd­um henn­ar og sýndi henni dýr­lega gripi. En hin heil­aga Agn­es fyr­ir­leit það allt og tróð und­ir fót­um sem saur. Þá ætl­aði hinn ungi mað­ur, að hún mundi betri ger­sem­ar vilja, og hafði með sér gull og gim­steina og alls kyns fagr­indi, og hét henni lönd­um og laus­um aur­um, mani og alls kyns heims auð­æf­um, ef hún neit­aði eigi sam­för við hann. En hún svar­aði hon­um á þessa lund: “Far þú frá mér, dauða mat­ur og synda fóð­ur, því að eg er elsk­uð af öðr­um unn­anda, þeim er mér fœrði miklu betri auð­æfi og veð­mælti mig með fing­ur­gulli trú sinn­ar, og þér göfg­ari er að öllu kyni og að allri tign; hann skrýddi mig óum­ræði­legu skrúði og prýddi háls minn dýr­leg­um menj­um; skrýddi hann mig gull­ofn­um möttli og valdi mér hina björt­ustu gim­steina; sitt mark setti hann yf­ir and­lit mitt, að eg þýdd­ist eng­an ann­an unn­anda nema hann; sýndi hann mér óum­ræði­leg auð­æfi, þau er hann hét að gefa mér, ef eg væri stað­föst í ást við hann. Af því má eg eigi gjöra í mót hin­um fyrri unn­anda og þekkj­ast ann­an en fyr­ir­líta þenn­an, er eg hefi nú ást við lagt, að hans kyn er göfg­ara og mátt­ur styrk­ari, ásjóna fegri og ást un­að­sam­legri og öll dýrð kjör­legri. Minn lík­ami er sam­tengd­ur hans lík­ama, og eig­um við bæði brúð­hvílu sam­an; hans meyj­ar skemmta mér dýr­leg­um söngv­um, af hans munni tók eg hun­ang, og hans blóði eru roðn­ar kinn­ar mín­ar, og eg er hald­in af hans faðm­lagi. Hans móð­ir er mær, og hef­ur fað­ir hans eigi konu átt. Þeim er eg föstn­uð, sem engl­ar þjóna, hans feg­urð undr­ast sól og tungl, af hans ilm end­ur­lifna dauð­ir, og af hans átöku styrkj­ast sjúk­ir, hans auð­æfi spill­ast aldrei né þverra; hon­um ein­um varð­veiti eg trú mína, og hon­um felst eg á hendi af öllu hjarta og með öll­um al­huga; þá er eg hrein, ef eg ann hon­um, og þá mær, ef eg fylgi honum.”

En er hinn ungi mað­ur heyrði þessi orð henn­ar, þá varð hann feng­inn af blindri ást og kvald­ist í sorg­um hug­ar og lík­ama, þar til er hann lagð­ist í rekkju af, og sögðu lækn­ar, að of­ur­ást kveldi hann. – En er fað­ir hans frá það, er lækn­ar sögðu, þá bar hann upp hin sömu orð að biðja meyj­ar­inn­ar, sem son­ur hans hafði mælt. En hin heil­aga Agn­es synj­að­ist og kvaðst aldrei vilja slíta ást við hinn fyrri unn­anda sinn. Þá tók Sim­phron­ius greifi að spyrja, hver unn­andi henn­ar væri, sá er hún hrós­aði hans mætti. En þeir voru, er hon­um sögðu, að hún var krist­in og kall­aði Krist unn­anda sinn. En er greif­inn varð þess viss, þá sendi hann þeg­ar hirð­menn sína með styrk mikl­um eft­ir henni, og var hún leidd fyr­ir dóm­stól hans, og kvaddi hann hana fyrst með blíð­um orð­um en síð­an ógn­ar­mál­um. – En Krists mær tæld­ist eigi fyr­ir blíð­leik hans, og eigi hrædd­ist hún ógn­ir hans, held­ur var hún með hin­um sama hug ávallt og hinu sama áliti og hló að hon­um, hvort sem hann var reið­ur eða blíð­ur í hug­um. – En er Simphron­ius greifi kast­aði á glæ öll­um orð­um, þeim er hann mælti við Guðs mey eða við frænd­ur henn­ar, þá lét hann leiða hana fyr­ir dóm­stól sinn í ann­að sinn og mælti við hana: “Eigi máttu hlýða réttu ráði né nið­ur leggja þrá­girni brjósts þíns, nema þú skilj­ir fyrr frá þér breytni krist­inna manna, þeim er þú hrós­ar að þér hafi kennt fjöl­kynngi; af því er þér nauð­syn að göfga Gefj­un [átt er við Vestu] gyðju vora, að þú sért und­ir henn­ar trausti og í henn­ar þjón­ustu nótt og dag, ef þér lík­ar að halda mey­dómi og hrein­lífi.

Heilög Agnes svar­aði: “Ef eg synj­að­ist syni þín­um, lif­andi manni, þeim er skilja má skyn­semi, og heyra má, sjá og ganga, og kenna sín, og njóta góðra hluta þessa heims, og eigi vildi eg til hans líta fyr­ir ást­ar sak­ir við Krist, hví má eg þá göfga skurð­goð and­laus og vit­laus, og gera það í mót hin­um hæsta Guði og lúta stokk­um eða stein­um?” – “Heilt ráð vil eg kenna þér,” sagði Sim­phron­ius, “og sit eg þér af því guð­last­an, að eg sé ald­ur þinn minni en hygg­indi.” – Heil­aga Agn­es svar­aði: “Hirð eigi þú að fyr­ir­líta æsku mína, svo að þú hygg­ir mig rækja, hvort þú ert reið­ur eða blíð­ur í hug­um, því að Guð virð­ir menn meir að hug­skoti og trú en að aldri. En ef þú var­ar mig við reiði goða þinna, þá láttu þau sjálf reið­ast og sjálf sitt er­indi reka, hefni þau sjálf sín, og bjóði sjálf, að þau séu göfg­uð. En eg sé, að þú leit­ar þess við mig, er þú munt aldrei fá, af því gerðu það, er þér er í skapi.” – Sim­phron­ius mælti: “Nú skalt þú kjósa um tvo kosti, ann­að tveggja að blóta Gefj­un gyðju vora með meyj­um öðr­um, til lofs ást­ar­manna þinna, eða þú munt seld með port­kon­um til saur­líf­is og til skemmd­ar kyns þíns, og munu eigi kristn­ir menn mega efla þig, þeir er þér kenndu fjöl­kynngi, þá er þú treyst­ir, að þú meg­ir forð­ast þessa mein­gerð.” – Agnes svar­aði: “Ef þú viss­ir, hver Guð minn væri, þá mund­ir þú eigi þetta mæla; en þar sem eg veit kraft Drott­ins míns Jesú Krists, þá fyr­ir­lít eg ör­ugg ógn­ir þín­ar, og trúi eg því, að eg mun eigi blóta skurð­goð þín og saurg­ast af ann­arra synd­um, því að eng­ill Guðs er með mér og varð­veit­ir lík­ama minn, og Son­ur Guðs, sá er þú kannt eigi, hann er mér borg­ar­vegg­ur óyf­ir­stíg­leg­ur og vörð­ur, sá er aldrei sef­ur, og hlífi­skjöld­ur, sá er aldrei þrotn­ar. En goð þín, er af eiri eru gjör, þá væru þar nýt­ari ker úr gjörð til gagns mönn­um, eða ef þau eru úr steini, þá væri betra stræti þilj­að með þeim, að eigi vaði menn leir, því að guð­dóm­ur er á himn­um en eigi í stein­um, og held­ur í loft­ríki en í málmi. En þú og þér lík­ir, ef þér lát­ið eigi af blót­um þeirra, þá mun ein písl yf­ir yð­ur ljúka, því að svo sem þau eru blás­in í eldi, að þau verði smíð­uð, svo verða og göfgan­ar­menn þeirra sam­an brennd­ir í ei­líf­um eldi, eigi til þess að þeir verði smíð­að­ir, held­ur til hins að þeir kvelj­ist og far­ist æ og æ.

Þá reiddist greif­inn og lét Guðs mey fœra úr föt­um og leiða nakta til port­kvenna húss. En þeg­ar er hún var úr föt­um fœrð, þá leysti hún hár sitt; en Guð veitti henni svo mik­inn hár­vöxt, að hún þótti bet­ur klædd af hári sínu en klæð­um. En er heil­aga Agnes gekk inn í hús­ið, þá fann hún þar eng­il Guðs, þann er hana skrýddi svo miklu ljósi, að eng­inn mátti sjá hana fyr­ir ljós­inu; hús­ið skein allt inn­an svo sem sól, þá er hún skín sem bjart­ast, og varð hver því blind­ari, er þang­að kom, sem hann var for­vitn­ari. – En er hún féll á kné til bœn­ar fyr­ir Drottni, þá sá hún þar hið bjart­asta klæði og skrýddi sig því og mælti: “Þakk­ir gjöri eg þér, Drott­inn Jes­ús Krist­ur, því að þú gafst mér klæði þetta og tald­ir mig með ambátt­um þín­um.” – En svo var klæð­ið henni skap­lega mik­ið og svo bjart, að eng­inn ef­að­ist um það, að engl­ar Guðs hefðu gert, þeirra, er sjá máttu. Þá gjörð­ist hór­hús að bœn­ar­stað, því að hver göfg­aði Guð, er þang­að kom, og fór hreinni það­an en þangað.

En er þessir hlutir gerð­ust, þá fór þang­að borg­ar­greifa son, sá er vald­ið hafði óskil­um þess­um öll­um, og fylgdu hon­um jafn­aldr­ar hans gá­laus­ir, og gengu inn í hús­ið fyr­ir hon­um með hlátri og gá­leysi. En er þeir sáu ljós­ið, undr­uð­ust þeir og hurfu aft­ur og veg­söm­uðu ljós Guðs. Greifa son ávít­aði þá og kvað þá ekki þora, og gekk inn í hús­ið síð­an og sá ljós­ið, og göfg­aði eigi Guð, held­ur óð hann fram í ljós­ið með óhreinu hug­skoti. En áð­ur hann mætti hendi sinni taka til meyj­ar­inn­ar, þá varð hann kyrkt­ur af djöfli og dó. En er hann dvald­ist í hús­inu, þá ætl­uðu föru­naut­ar hans, að hann mundi að vilja sín­um og mun­úð­lífi dvelj­ast, og gekk inn einn þeirra í hús­ið, sá er gá­laus­ast­ur var, svo sem hann fagn­aði mun­úð hins; en er hann sá hann dauð­an, þá kall­aði hann og mælti: “Bjarg­ið oss, Róma­borg­ar menn, kona þessi hef­ur drep­ið með mik­illi fjöl­kynngi son borg­ar­greifa vors.” Þá var kvatt móts, og dreif þang­að mik­ill fjöldi manna, og varð þræta mik­il um Guðs mey: sum­ir töldu hana fjöl­kunn­uga, en sum­ir sak­lausa.

En er greif­inn frá dauða son­ar síns, þá fór hann til móts­ins með mikl­um hrygg­leik, og er hann sá hann dauð­an, þá kall­aði hann með grimm­legri röddu á Guðs mey og mælti: “Þú hin grimm­asta kona, fyr­ir hví drapst þú son minn með eitri fjöl­kynngi þinn­ar?” – Heil­ög Agn­es svar­aði: “Sá hinn sami tók veldi í gegn hon­um, er hann vildi eft­ir lifa. Fyr­ir hví eru hér all­ir aðr­ir heil­ir, þeir er hing­að komu, nema því að all­ir lof­uðu Guð, þann er eng­il sinn sendi til mín, og skrýddi mig klæði misk­unn­ar sinn­ar og varð­veitti lík­ama minn, þann er Guði er helg­að­ur og eign­að­ur. Nú þeir all­ir, er ljós­ið sáu, göfg­uðu Guð og fóru á brott ómeidd­ir, en þessi mað­ur fór gá­laus og óð­ur og lof­aði eigi Guð, þá er hann sá ljós­ið, en er hann vildi mig hönd­um grípa, þá lét eng­ill Guðs hann deyja ill­um dauða, sem nú sér þú.” – “Þá mun eg trúa,” kvað greif­inn, “að eigi valdi þessu fjöl­kynngi þín, ef þú bið­ur eng­il­inn og get­ur það, að hann gjaldi mér son minn.” – Heil­ög Agn­es svar­aði: “Þótt trú yð­ar sé eigi verð að geta það af Guði, þá er þó nú sú tíð kom­in, er mak­lega má vitr­ast kraft­ur Drott­ins míns Jesú Krists. Af því gang­ið þér all­ir út, en eg mun biðja fyr­ir mér til Guðs.” – En er all­ir gengu út, þá féll Agn­es á kné til bœn­ar og bað til Drott­ins, að hann reisti upp hinn unga mann. Þá sýnd­ist henni eng­ill Guðs, og styrkti hann hug henn­ar reis­andi mann­inn af dauða. – En sá er upp reis, gekk þeg­ar út, kall­aði og mælti: “Einn er Guð á himni og jörðu og í sjó, sá er Guð krist­inna manna, en öll skurð­goð eru ónýt og mega hvorki bjarga sér né öðr­um.” – Þá tóku all­ir blót­bisk­up­ar að œð­ast og köll­uðu með einni röddu og mæltu: “Tak­ið þér hina fjöl­kunn­ugu konu og for­dæðu, er vill­ir hugi manna og snýr hjört­um þeirra.” – En er greif­inn sá svo mikl­ar jar­tein­ir gerð­ar, þá undr­að­ist hann, en þorði þó eigi gera í mót blót­mönn­um eða mæla í mót sjálf­um sér og hlífa meyj­unni. Þá fór hann á braut óglað­ur, er hann mátti eigi hjálpa Guðs mey eða leysa úr öll­um písl­um þeirra eft­ir upp­risu son­ar síns, og lét aðra dœma um þetta mál.

En Aspasius dóm­andi lét kynda eld mik­inn í aug­liti lýðs­ins og lét kasta meyj­unni í log­ann miðj­an. En er það var gjört, þá skipt­ist log­inn í tvo staði og brenndi lýð­inn á hvora tveggja hönd, en hana sak­aði ekki hit­inn þess að held­ur. En blót­menn sögðu þetta af fjöl­kynngi henn­ar en eigi guðs krafti. En dóm­and­inn kall­aði á kval­ar­ana og bað, að þeir kveldu meyna. – Þá hélt Agn­es hönd­um til him­ins og bað til Guðs á þessa lund: “Al­mátt­ug­ur og óg­ur­leg­ur og göf­ug­leg­ur Fað­ir, Drott­inn minn, þig lofa eg og dýrka eg, því að fyr­ir Son þinn forð­ast eg ógn­ir vondra manna, og sté eg yf­ir vél­ar djöf­uls og gekk ósaurg­aða götu. Nú hvelf­ist yf­ir mig dögg af himni af Helg­um Anda, svo að eld­ur­inn slokkn­ar hjá mér, og skauzt log­inn og hvarf hit­inn til þeirra, er hann kyntu. Þig lofa eg, göf­ug­ur Fað­ir, þú læt­ur mig koma til þín óhrædda á með­al elda. Nú sé eg það, er eg trúði; nú held eg því, er eg vænti; nú fagna eg því, er mig fýsti til; þér játa eg með munni mín­um, og til þín fýs­ist eg af öllu hjarta. Nú þeg­ar kem eg til þín, lif­andi Guð, er með Drottni vor­um Jesú Kristi Syni þín­um lif­ir og rík­ir nú og um all­ar ald­ir alda.” – En er hún hafði lok­ið bœn sinni, þá slokkn­aði eld­ur­inn all­ur, svo að eng­inn flær [sic] var eft­ir. Þá mátti Asp­as­ius eigi stand­ast óp al­þýðu, og lét spjóti leggja í brjóst meyj­ar­inn­ar, og helg­aði Guð sér hana brúði og písl­ar­vott, og fór hún til al­mátt­ugs Guðs með þessu líf­láti. En frænd­ur henn­ar tóku lík­ama henn­ar með fagn­aði og grófu í land­eign sinni skammt frá Róma­borg á götu þeirri er Num­ent­ana heit­ir. En er krist­inn lýð­ur kom oft þang­að til bœna, þá söfn­uðu heiðn­ir menn liði og börðu grjóti að þeim og ráku þá á brott þaðan.

En Em­er­enc­iana hét fóst­ur­syst­ir Agn­et­is, þessi var heil­ög mær og þó prim­signd að­eins; hún stóð óhrædd og flýði eigi, held­ur ávít­aði hún heiðna menn og mælti: “Þér vesæl­ir og grimm­ir bann­ið þeim, er al­mátk­an Guð göfga, og höggv­ið sak­lausa menn, en trú­ið sjálf­ir á stokk og stein.” – En er hún mælti þessi orð og þess­um lík, þá börðu þeir hana grjóti, og lét hún önd sína, er hún var á bœn­um hjá leiði sæll­ar Agn­et­is. Þessi mær skrýdd­ist í blóði sínu, því að hún tók bana fyr­ir það er hún játti Guði. Á þeirri sömu stundu varð land­skjálfti mik­ill, flugu eld­ing­ar og reið­ar­þrum­ur, og féll nið­ur mik­ill hluti heið­ins lýðs og dó. – Það­an frá þorði eng­inn mað­ur að granda þeim mönn­um, er komu til leið­is heil­agra manna að biðja fyr­ir sér. En frænd­ur Agn­et­is komu um nótt með kenni­mönn­um og tóku lík­ama Em­er­enc­iane meyj­ar og grófu skammt frá leiði Agn­et­is. – En er frænd­ur Agn­et­is vöktu oft um nœt­ur á bœn­um að leiði henn­ar, þá sáu þeir að miðri nótt meyja flokk mik­inn í lofti með ljósi. Þær voru all­ar skrýdd­ar gull­ofn­um klæð­um. Í þeirra liði sýnd­ist þeim heil­ög Agn­es, og stóð til hægri hand­ar henni lamb snævi hvít­ara. – En er frænd­ur henn­ar sáu þessi tíð­indi og aðr­ir kristn­ir menn, þeir er þar voru, þá kom hræðsla mik­il yf­ir þá. Þá nam Agn­es stað­ar með meyja lið sitt ok mælti til frænda sinna: “Eigi skul­uð þér gráta and­lát mitt, held­ur fagn­ið þér með mér og gleðj­ist, því að með þess­um meyj­um öll­um eign­ast eg ljós­an stað, og er eg nú á himn­um í ei­líf­um fagn­aði með þeim, er eg elsk­aði á jörðu af öllu hjarta.” En er hún hafði þetta mælt, þá leið hún til himins.

En er mað­ur sagði þessi tíð­indi hver öðr­um, þá kom þessi saga til eyrna dótt­ur Con­stant­ini kon­ungs, en hún hét Con­stanc­ia, en hún var hin vitr­asta mær. En hún var svo öll hrjúf og sár, að eng­inn flekk­ur var heill á henn­ar hör­undi allt úr hvirfli og of­an á tær; en henni var það ráð kennt til heilsu, að hún fœri um nótt til leið­is Agn­es­ar og bœði fyr­ir sér til Guðs, því að hún hafði trú í hug sér, þótt hún væri heið­in. – En er hún gjörði, sem henni var kennt, þá sofn­aði hún á bœn sinni, og vitr­að­ist henni heil­ög Agn­es í draumi og mælti við hana: “Vertu styrk og stað­föst, Con­stanc­ia, og trú Drott­in Jes­úm Crist vera Guðs Son og grœð­ara þinn af himni, og muntu taka heilsu allra sára þinna.” – Þá vakn­aði Con­stanc­ia, og var svo al­heil, að einsk­is sárs mátti staði sjá á lík­ama henn­ar. En er hún kom heim til kon­ungs­hall­ar, þá gerði hún mik­inn fagn­að föð­ur sín­um og brœðr­um, og urðu all­ir hirð­menn og borg­ar­lýð­ur henni fegn­ir, en ótrúa heið­inna manna hneykt­ist. En Con­stanc­ia bað föð­ur sinn og brœð­ur, að þeir lof­uðu kirkju að gera til dýrð­ar Agn­esu, og lét hún sér í þeirri kirkju gröf gera. En er þessi tíð­indi frétt­ust, þá komu marg­ir til leið­is Agn­es­ar og 30 fengu þar heilsu sína, hvað er þeim varð að meini áð­ur, og hald­ast þær jar­tein­ir til þessa dags. En Con­stanc­ia kon­ungs­dótt­ir hélt mey­dóm sinn alla ævi sína, og lifðu marg­ar eft­ir henn­ar dœm­um og tóku nunnu­vígsl­ur. Svo þró­að­ist og óx hrein­líf­is kraft­ur af góð­um dœm­um hinn­ar helg­ustu Agn­es­ar, að marg­ar meyj­ar í Róma­borg héldu hrein­lífi sínu allt til dauða­dags, því að þær nunn­ur eign­ast ei­líf­an sig­ur og sælu án enda, ef þær halda hrein­lífi án efa fyr­ir Drott­in vorn Jes­úm Crist­um, þann er lif­ir og rík­ir með Föð­ur og Helg­um Anda, Guð um all­ar ald­ir alda. Amen.

 

      

Acta Sanctorum (Ianvarii, tomus II, p. 350-363, prentað 1643)

Ambrosius kirkjufaðir (um 376; De virginibus, liber I; sjá einn­ig Zuhls­dorf)

Antiochian Orthodox Christian Archdiocese of North America

Arduino, Fabio @ Santi, beati e testimoni

Bautz, Friedrich Wilhelm @ Biographisch-Biblio­graphisch­es Kirchen­lexikon

Butler, Alban (18. öld) @ Eternal Word Television Network

Catholic News Agency

Catholic Online

Duffy, Patrick @ Catholic Ireland

Eglise Catholique en France

Ellsberg, Robert @ Catholic Ireland

Damasus páfi (d. 384; grafskrift)

Harbecke, Heike @ Bistum Münster

Heiligen-3s

Hieronymus kirkjufaðir (nálægt 400; bréf 130)

Holy Spirit Interactive

Jacobus de Voragine (um 1260) @ Star Quest Production Net­work

Jones, Terry @ Star Quest Production Network

Kirsch, Johann Peter @ The Catholic Encyclopedia (1907)

Kathpedia

McNamara, Fr. Robert @ Irondequoit Catholic Communities

Odden, Per Einar @ Den Katolske Kirke i Norge

Prudentius (um 400; Peristephanon, carmen xiv)

Rabenstein, Katherine @ St. Patrick Catholic Church, Washington DC

Santopedia

Siervas de los Corazones Traspasados de Jesús y María 

Wikipedia (enska)

Wikipédia (franska)

Wikipedia (hollenzka)

Wikipedia (ítalska)

Wikipédia (portúgalska)

Wikipedia (spænska)

Wikipedia (þýzka)

Zuhlsdorf, Fr. John

Ökumenisches Heiligenlexikon

    

Auglýsingar

Read Full Post »

   

Prisca mey og píslarvottur

   

Messudagur Priscu er 18. janúar. Rómversk kaþólska kirkj­an fjar­lægði hana ár­ið 1969 úr hinni al­mennu messu­skrá, en henn­ar er minnzt í ein­stök­um bisk­ups­dœm­um, þar á með­al á Ís­landi. Prisca átti heima í Róm og var snemma álit­in heil­ög, en ekk­ert er með vissu um hana vit­að. Helgi­saga seg­ir hana hafa lið­ið písl­ar­vætti sem 13 ára. Hún hafi ekki vilj­að af­neita trú sinni og þá verið fleygt fyr­ir hungr­að ljón, sem að­eins sleikti fœt­ur henn­ar, svo að hún var tek­in og háls­höggv­in. Ekki er á eina lund, hvort hún er tal­in hafa ver­ið uppi á 1., 2. eða 3. öld.

    

Acta Sanctorum (Ianvarii, tomus II, p. 183-187, prentað 1643)

Antiochian Orthodox Christian Arch­diocese of North America

Bargellini, Piero @ Santi, beati e testimoni

Catholic Church of St. John the Baptist, Ed­mond í Oklo­homa

Catholic Online

Churches of Rome Wiki

Heiligen-3s

Kirsch, Johann Peter @ The Catholic Encyclo­pedia (1911)

Odden, Per Einar @ Den Katolske Kirke i Norge

Sauser, Ekkart @ Biographisch-Bibliographisches Kirchen­lexikon

Stadlers Vollständiges Heiligenlexikon

Wikipedia (enska)

Wikipedia (ítalska)

Wikipedia (spænska)

Wikipedia (þýzka)

Ökumenisches Heiligenlexikon

Read Full Post »

   

Martina mey og píslarvottur

    

Messudagur Martinu í rómversku kirkj­unni er 30. jan­úar. Henn­ar er get­ið í Martyro­log­ium Rom­an­um: “Sanctæ Mart­inæ, Virgin­is et Martyr­is, cu­ius dies natal­is Kalend­is Ian­uarii re­colitur.” Hún er sögð hafa ver­ið dótt­ir auð­ugra hjóna í Róm. Eft­ir and­lát þeirra hafi hún gef­ið erfða­fé sitt fá­tœk­um og helg­að sig bœna­gerð og þjón­ustu. Alex­and­er Sever­us var keis­ari á ár­un­um 222-­235. Þá var krist­ið fólk of­sótt, þar á með­al Martina, sem neit­aði að fœra hin­um heiðnu goð­um fórn. Hún var því pínd og síð­an líf­lát­in. Eins fór fyrir brœðr­um henn­ar, sem hétu Con­cord­ius og Epi­phan­ius. Helg­ir dóm­ar þeirra fund­ust við fram­kvœmd­ir í Róm 25. októ­ber 1634. Sam­tíma­heim­ild­ir vant­ar um heil­aga Mart­inu, þótt helgi­sög­ur forn­ar skorti ekki. Hún var 1969 fjar­lægð úr hinni al­mennu messu­skrá, en í ein­stök­um bisk­ups­dœm­um er henn­ar enn minnzt, einn­ig á Íslandi.

Meðfylgjandi helgimynd af Martinu er frá 17. öld, eft­ir Pietro da Cortona. Aless­andro Palma hjó henni ár­ið 1702 styttu, sem stend­ur of­an á súlna­göng­um í Vatikaninu.

    

Acta Sanctorum (Ianvarii, tomus I, p. 11-­19, prent­að 1643)

Bargellini, Piero @ Santi, beati e testimoni

Butler, Alban (18. öld)

Clugnet, Léon @ The Catholic Encyclopedia (1910)

Heiligen-3s

Jones, Terry @ Star Quest Production Network

Lautenschläger, Gabriele @ Biographisch-Biblio­graphisch­es Kirchen­lexikon

Odden, Per Einar @ Den Katolske Kirke i Norge

Wikipedia (franska)

Wikipedia (ítalska)

Wikipedia (spænska)

Wikipedia (þýzka)

Ökumenisches Heiligenlexikon

      

Read Full Post »

     

odg0 015

    

Barbörukapella í Keflavík

     

Barbörukapella í Kapelluhrauni

    

Heilög Barbara er helzt kennd við borg í Biþyníu, sem hét Nicomedia (nú Izmit í Tyrk­landi). Í orþó­dox­um kirkj­um er þó frem­ur nefnd Helio­polis í Sýr­landi (nú Baal­bek í Líb­anon). Messu­dag­ur henn­ar og dauða­dag­ur er 4. desem­ber, og ár­tal­ið er oft haft 306. En sam­­tíma­­heim­­ild þekk­­ist ekki um þenn­an písl­ar­vott, svo að vant er að full­yrða um ártöl. Helg­ur dóm­ur henn­ar var á sjöttu öld flutt­ur til Kon­stantín­ópel en sex öld­um síð­ar til Kiev í Úkra­ínu, og þar er hann varð­veitt­ur í dóm­kirkju heil­ags Vladi­mirs. Nema önn­ur hönd­in er geymd í klaustri heil­ags Mikjáls í sömu borg, klædd hanzka, sem reglu­lega er skipt um, og er þá gamli hanzk­inn klippt­ur í smátt og gef­inn píla­grímum. Þeir munu vera marg­ir, því að Bar­bara er í orþó­dox­um sið hald­in með merk­ustu dýr­lingum.

Í Martyrologium Romanum stend­ur: “Nicomediæ passio sanctæ Barbaræ, Virgin­is et Martyr­is; quæ, in persecutione Maximini, post diram carceris maceration­em, lampadarum adustion­em, mamillar­um præcisionem atque alia tormenta, gladio martyr­ium con­summavit.”

Meðfylgjandi er helgimynd af Barböru og turninum, sem hún var geymd í. Og önn­ur mynd úr kaþólsku kap­ell­unni í Kefla­vík, sem helg­uð er Barböru. Loks er mynd af Barböru­kap­ellu í Kap­ellu­hrauni, skammt frá Straums­vík. Barbara átti einn­ig kirkju í Hauka­dal í Ár­nes­sýslu, í fé­lagi við al­sæla Maríu Guðs­móð­ur, Andrés post­ula og Martein bisk­up. Hún var mik­ils virt á bisk­ups­stóln­um Hól­um, því að mynd henn­ar er bæði á kór­kápu Jóns bisk­ups Ara­son­ar og á Hóla­bríkinni.

Kristján Eldjárn þjóðminjavörður gróf 1950 í rúst­ina í Kap­ellu­hrauni og fann þar styttu­brot af Barböru, sem vakti tals­verða at­hygli. Sig­ur­veig Guð­munds­dótt­ir flutti 1972 út­varps­er­indi um hina helgu konu. Þetta varð til þess, að ýms­ir hétu á Barböru, sem brást vel við, og safn­að­ist síð­an heit­fé, sem var lagt í svo­nefnd­an Barböru­sjóð. Það var eins og seg­ir í göml­um Barböru dikti: Haf­in var frú á himna­palla, / hana skul­um vér ákalla / í tíða­söng með elsku alla, / ágæt meyj­an birt­ist þá, / bless­uð meyj­an Barbará.   

   

Barböru saga

(Heilagra manna sögur, 1. bindi, prentað 1877)

Á dögum Maximiani keis­ara var nokk­ur höfð­ingi, sá er Dio­skor­us hét, auð­ug­ur harðla og heið­inn og trúði á skurð­goð, en hann átti dótt­ur, þá er Barbara hét. Fað­ir henn­ar gjörði stöp­ul há­an og lukti dótt­ur sína í stöpl­in­um, svo að menn máttu eigi sjá hana og væn­leik henn­ar, því að hann var vand­lát­ur. En er hún var gjaf­vax­in, þá báðu hennar göfg­ir menn. Fað­ir henn­ar gekk í stöp­ul­inn og mælti við hana: “Stór­gæt­ing­ar biðja þín, dótt­ir, en þú seg sjálf, hvern þú vilt kjósa?” – Heil­ög Bar­bara svar­aði með reiði og mælti : “Eigi þarftu það að ætla, faðir, að eg leggi þokka á nokk­urn þeirra.” – Þá gekk fað­ir henn­ar brott úr stöpl­in­um og lét fá að hall­ar­gerð og safn­aði mörg­um smið­um, að þetta verk mætti sem skjót­ast fram fara, og sýndi hann smið­um, hversu hann vildi gera láta höll­ina, og galt hann þeim i hönd allt verk­kaup, og fór síð­an i fjar­lægt hér­að og var lengi heim­an. En ambátt Guðs, Bar­bara, kom að sjá verk smiða, og sá hún tvo glugga norð­an á höll­inni gerða og mælti við smið­ina: “Fyr­ir hví gerð­uð þér tvo að­eins glugga?” – Smið­irn­ir svör­uðu: “Fað­ir þinn bauð oss svo.” – Bar­bara mælti við þá: “Gjör­ið mér hinn þriðja glugga.” – Þeir svör­uðu: “Hræð­umst vér, drottn­ing, að fað­ir þinn reið­ist oss, og meg­um vér eigi stand­ast reiði hans.” – Guðs ambátt mælti: “Gjör­ið þér sem eg býð, en eg mun stöðva reiði föð­ur míns um þenn­an hlut.” Þá gerðu smið­irn­ir hinn þriðja glugga, sem hún hafði mælt. Þá gekk hin grand­var­asta mær Barbara eft­ir höll­inni, en er hún kom í aust­ur­átt, þá risti hún med fingri sín­um kross­mark á stein, og má það sjá allt til þessa dags. Þá gekk Barbara inn i af­hús það, er upp spratt hreint vatn, og gerði hún þar enn kross­mark á steini, og taka trú­að­ir menn síð­an marg­falda hjálp og heilsu í þeim stað. Í þess­um brunni tók Barbara skím af nokkr­um helg­um manni, og lifði hún þar nokkra tíð við skóg­ar­hun­ang og líkti fœðslu sína og líf eft­ir Jó­hanni bapt­ista. Sjá brunn­ur, er Bar­bara var skírð í, líkt­ist þeim brunni, er guð­spjöll segja, að sá þó and­lit sitt í, er blind­ur var bor­inn, og tók sýn sína. Sjá brunn­ur líkt­ist því lif­andi vatni, er synd­ug kona bað Krist gefa sér að brunni. En er heil­ög Bar­bara kom aft­ur í stöp­ul sinn, þá leit hún þar skurð­goð föð­ur síns úr málmi gjör, og tók traust af Helg­um Anda og mátt af Guðs krafti, og spýtti hún í and­lit skurð­goð­un­um og mælti: “Verði yð­ur lík­ir þeir, er yð­ur gerðu, og all­ir þeir, er yður treysta.” En er hún hafði þetta mælt, þá bað hún Guðs kraft fella skurð­goð­in, og varð sem hún bað.

En er Dioskorus kom heim aft­ur fað­ir henn­ar úr hinni löngu heim­an­för, þá leit hann á höll sína al­gerða og sá þrjá glugga og mælti við smið­ina: “Fyr­ir hví sett­uð þér þrjá glugga?” – En þeir svör­uðu: “Dótt­ir þín bauð oss svo.” – Þá kall­aði hann þang­að dótt­ur sína og mælti: “Bauð þú, dótt­ir, at gera þrjá glugga?” – Hún svar­aði: “Það gerði eg, og vel gerði eg það, því að þrír glugg­ar lýsa hvern mann, er kem­ur i heim, en tveir glugg­ar mega myrkv­ir vera.” – Fað­ir henn­ar mælti: “Hversu mega þrír fram­ar lýsa en tveir?” – Barbara svar­aði: “Þrír merkja Föð­ur og Son og Helg­an Anda, einn sann­an Guð, þann er hverj­um manni byrj­ar að göfga.” – Þá reidd­ist fað­ir henn­ar og brá sverði og vildi þeg­ar höggva dótt­ur sína, en hún bað Drott­in sér hjálp­ar, og gafst henni rúm að fara i gegn­um stein­vegg­inn, og var hún úti því næst á fjalli. En í þeim stað voru hirð­ar tveir, þeir er hana sáu flýja. Fað­ir henn­ar kom eft­ir henni og vildi taka hana og spurði hirð­ana, ef þeir sæi hana. Ann­ar duldi og kvaðst eigi hana hafa séð, en ann­ar, sá er grimm­ari var, rétti fing­ur sinn og vís­aði til hennar. Sá tók þeg­ar það víti, að sauð­ir hans all­ir urðu að kvik­ind­um þeim, er locuste heita, og er minn­ing þess­ar­ar jar­tein­ar mörk­uð yf­ir leiði heil­agr­ar Barböru. En fað­ir henn­ar fann hana og barði og tók í hár henni og dró hana til fjalls, og læsti vand­lega húsi því, er hann lauk hana inni, og setti varð­hald fyr­ir hús­ið, að eng­inn mætti hana það­an leysa. Síð­an sendi hann orð jarli [Marc­ius á hér­aðs­stjór­inn að hafa heit­ið], að hann kœmi og neyddi dótt­ur hans til blóta.

En er jarl kom, þá leiddi Dioschor­us dótt­ur sína út úr hús­inu fyr­ir dóm­stól jarls og mælti svo fyr­ir, að jarl skyldi láta bana henni, ef hún vildi eigi blóta. En er jarl sá feg­urð henn­ar, þá mælti hann við hana: “Hvort viltu vægja þér sjálfri og blóta goð­um eða vera seld til hinna hörð­ustu písla?” – Krists mær Barbara svar­aði : “Eg á fórn að færa drottni mínum Jesú Kristó, þeim er gerði him­in og jörð og sæ og allt það er þeim fylg­ir. En spá­mað­ur hans mælti svo um skurð­goð þau, sem manna hönd­um eru gjörð úr gulli eða silfri: munn hafa þau og mæla eigi, augu hafa þau og sjá eigi, eyru hafa þau og heyra eigi, nas­ir hafa þau og ilma eigi, hend­ur hafa þau og þreifa eigi, fœt­ur hafa þau og ganga eigi, og eigi er rödd i hálsi þeim né andi i munni þeim; verði þeim lík­ir þeir, er þau gjöra, og all­ir þeir, er treysta þeim.” – Þá fyllt­ist jarl mik­illi reiði og lét Guðs mey fœra úr föt­um og berja hana með sin­vönd­um og hrífa snörp­um hár­klæð­um um hör­und henn­ar. En er hún var lengi þjáð i þessari kvöl, þá rann blóð um all­an henn­ar lík­ama. Síð­an lét hann setja hana i myrkva­stofu og hugs­aði, með hverri písl hann skyldi ljúka yf­ir hana.

Þá er heilög mær Barbara var i myrkva­stofu sett, skein yf­ir hana ljós af himni á sjálfri nótt miðri, og vitrað­ist henni sjálf­ur græð­ar­inn vor Drott­inn Jes­ús Krist­ur, og mælti: “Vert þú styrk og stað­föst, Barbara, því að gnóg­ur fögn­uð­ur verð­ur á himni og á jörðu yf­ir písl þinni. Eigi skalt þú hræð­ast iarl, því að eg er með þér, og mun eg leysa þig úr öll­um písl­um, þeim er þér eru gerð­ar.” Þá bless­aði Drott­inn hana og sté til him­ins, og voru þá gró­in sár henn­ar öll. En Krists mær fagn­aði af öllu hjarta þeirri vitr­un, er Gud hafði henni vitr­að. En að morgni lét jarl­inn leiða hana úr myrkva­stof­unni og fyr­ir dóm­stól sinn. En er hann sá hana grœdda af öll­um sár­um lík­ama, þá undr­að­ist hann og mælti: “Hví gegn­ir það, Barbara, er goð vor elska þig og mis­kunna þér, svo að sár þín eru gró­in?” – Heil­ög mær svar­aði og mælti við jarl­inn: “Þér lík eru goð þín, blind og dauf og vit­laus; hversu máttu þau grœða sár mín, eða hversu mega þau öðr­um bjarga, er þau mega eng­an dugn­að veita sjálf­um sér? En Krist­ur son Guðs lif­anda grœddi mig, sá er þú ert óverð­ur að sjá, því að hjarta þitt er hart orð­ið af djöfli.” – Þá reidd­ist jarl og grenj­aði sem hið óarga dýr, og lét halda brenn­andi log­um at síð­um henni og ljósta hamri i höf­uð henni. – En hún leit til him­ins og mælti: “Þú veist, Krist­ur, að eg tek lyst­andi þess­ar písl­ir fyr­ir ást heil­ags nafns þíns, af því fyr­ir­lát þú mig eigi allt til enda, því að eg dvaldi eigi að bera hraust­lega písl­ir fyr­ir þinni ást.” – Þá reidd­ist jarl­inn og lét skera úr henni brjóst­in. En Krists mær leit þá enn til him­ins og mælti: “Verp þú eigi mér frá aug­liti þínu, Drott­inn, og tak eigi frá mér Helg­an Anda þinn; gjaltu mér held­ur gleði þrif­semi þinn­ar og styrkj­umst með höfð­ing­leg­um Anda.” – En er hún hafði þetta mælt og stóðst hressi­lega þess­ar písl­ir all­ar af styrk Heil­ags Anda, þá bauð jarl­inn þjón­um sín­um, að þeir fœrðu hana enn úr föt­um og drœgju nakta um öll stræti og port fyr­ir aug­liti alls lýðs. – Þá hóf heil­ög Barbara enn upp augu sín til him­ins og kall­aði til Guðs og mælti: “Drott­inn Guð, er hyl­ur him­in með skýj­um, ver þú nú hlífi­skjöld­ur minn og hjálp­ari á þess­ari stundu og hyl nakt­an lík­ama minn með þaki misk­unn­ar þinn­ar, að hann verði eigi sénn af vond­um mönn­um.” En er hún bað á þessa lund, þá sendi Drott­inn eng­il sinn, þann er hana huldi hvítu skrúði. Þá urðu ridd­ar­ar jarls­ins blind­ir, svo að þeir máttu eigi Guðs mey sjá fyr­ir ljósi því er henni fylgdi. Þá hrædd­ist jarl­inn og lét aft­ur leiða Barbar­am til handa föð­ur henn­ar Dioscoro.

En faðir hennar fylltist mik­illi reiði og leiddi hana enn til fjalls. En heil­ög Barbara skyndi fagn­andi til al­gjörr­ar um­bun­ar sig­urs síns, og bað hún Drott­in, að hún tœki lok písl­ar sinn­ar í þess­um stað, og mælti: “Drott­inn Jes­ús Krist­ur, er himna skópst og jörð smíð­að­ir og byrgð­ir und­ir­djúp og sett­ir endi­mörk sjáv­ar; þú er býð­ur skýj­um að rigna yf­ir góða og illa, þú gekkst yf­ir sjó og stöðv­að­ir þjót­andi bylgj­ur hans; þú er rétt­ir helg­ar hend­ur þín­ar á krossi og gerð­ir marg­ar aðr­ar jar­tein­ir, heyrðu mig ambátt þína, því að all­ir hlut­ir hlýða þínu boði. Drott­inn Jes­ús Krist­ur, hlíf­ari minn í æsku minni, veittu mér þá bœn, að eg ljúki nú þeg­ar þraut minni með góð­um lok­um, og gef þú ambátt þinni, Drott­inn, þá misk­unn, að þú ger­ir mildi þína við þá menn, er af öllu hjarta gera mína minn­ing í sín­um nauð­synj­um allra helzt á degi písl­ar minn­ar. Minnstu eigi, Drott­inn, synda þeirra á dóms­degi, er trú­lega kalla á mig,- og veittu þeim líkn í synd­um, því að þú veizt, at vér er­um óstyrk­ir lík­am­ir.” – En er hún lauk bœn sinni, þá kom rödd af himni og mælti: “Kom þú, hin feg­ursta mær mín, til hinn­ar glöð­ustu hvíld­ar Föð­ur míns, er á himn­um er, en allt það er þú baðst mun þér veitt vera.” – En er Guðs mær heyrði þetta af Drottni með fögn­uði, þá kom hún til stað­ar písl­ar sinn­ar og lauk þar dýrð­legri þraut, svo sem hún hafði beðið af Guði, því að hún var í þeim stað höggv­in af föð­ur sín­um, og end­aði hún líf sitt í játn­ingu Krists tveim nótt­um fyr­ir Nikulás­messu bisk­ups. – En er fað­ir henn­ar sté of­an af fjalli með sín­um mönn­um, þá kom eld­ur úr lofti og brenndi hann, svo að ekki urm­ul sá, og eigi ösk­una held­ur en ann­að. En nokk­ur heil­agur mað­ur [Valent­ius að nafni] kom leyni­lega og tók á braut lík­ama hinn­ar helg­ustu meyj­ar Barböru og gróf í þeim stað, er kall­að­ur er sól­ar stað­ur, og lét hann þar gjöra bæna­hús í minn­ing henn­ar, og verða þar marg­ar jar­tein­ir til lofs og dýrð­ar drottni vor­um Jesú Kristi, þeim er með Föð­ur og Helg­um Anda lif­ir og rík­ir, Guð um all­ar ald­ir alda. Amen.

 

   

Answers.com

Bautz, Friedrich Wilhelm @ Biographisch-Biblio­graphisch­es Kirchen­lexikon

Catholic Online

Gordini, Gian Domenico @ Santi, beati e testimoni

Heiligen-3s

in2Greece.com

Jacobus de Voragine (um 1260)

Jónatan Garðarsson @ Hraunavinir

Kathpedia

Kirsch, Johann Peter @ The Catholic Encyclopedia (1907)

Kristján Eldjárn: Hundrað ár í Þjóðminja­safni, 4. út­gáfa 1973, 88. minja­þáttur

Odden, Per Einar @ Den Katolske Kirke i Norge

Orthodox Wiki

Santopedia

Sigurveig Guðmundsdóttir: Heilög Barbara, Barbörusjóður gaf út 1981

Stadlers Vollständiges Heiligenlexikon

Wikipedia (enska)

Wikipédia (franska)

Wikipedia (ítalska)

Wikipédia (portúgalska)

Wikipedia (spænska)

Wikipedia (þýzka)

Ökumenisches Heiligenlexikon

Read Full Post »

    

Júdas Taddeus

    

Matteus og Markús guðspjallamenn nafn­greindu Tadd­eus í upp­taln­ingu á post­ul­un­um (Mt 10.­3; Mk 3.­18). Í hinni latn­esku Vúlgötu er not­uð orð­mynd­in Thadd­aeus (sjá hér og hér). Lúkas guð­spjalla­mað­ur hafði ekki það nafn en taldi hins veg­ar Júdas Jakobs­son (Lk 6.­16; P 1.­13). Lít­ill vafi þyk­ir, að all­ir eigi við sama post­ula, því að þann­ig fyll­ist tala þeirra. Í sum­um út­gáf­um af Matt­eus­ar guð­spjalli stend­ur Labb­æus sem bar nafn­ið Tadd­æus (sjá til dœmis hér og hér). Eins er í riti frá 4. öld, sem nefn­ist Con­stitut­ion­es Apostol­icæ (14. kafli, 6. bók). Og í rúss­nesk-­orþó­doxu kirkj­unni er mað­ur­inn nefnd­ur heil­ag­ur Matfiy. Vís­ast þótti þurfa að nota ann­að nafn en Júdas, svo að hon­um yrði ekki rugl­að sam­an við svik­ar­ann Júdas Ískaríot.

Hjá Jóhannesi guðspjalla­manni seg­ir frá síð­ustu kvöld­mál­tíð­inni. Krist­ur mælti: …Inn­an skamms mun heim­ur­inn ekki sjá mig fram­ar, en þér mun­uð sjá mig, því að eg lifi og þér mun­uð lifa. Á þeim degi mun­uð þér kom­ast að raun um, að eg er í föð­ur mín­um, og þér í mér, og eg í yð­ur. Sá sem hef­ir mín boð­orð og held­ur þau, hann er sá sem elsk­ar mig. En sá sem elsk­ar mig, mun verða elsk­að­ur af föð­ur mín­um, og eg mun elska hann og sjálf­ur birt­ast hon­um. Júdas – ekki Júdas Ískar­íot – seg­ir við hann: Herra, hvern­ig stend­ur á því, að þú vilt birt­ast oss og ekki heim­in­um? Jesús svar­aði og sagði við hann: Hver sem elsk­ar mig, mun varð­veita mitt orð, og fað­ir minn mun elska hann, og til hans mun­um við koma og gjöra okk­ur bú­stað hjá hon­um. Sá sem ekki elsk­ar mig, hann varð­veit­ir ekki mín orð, og það orð, sem þér heyr­ið, er ekki mitt, held­ur föð­ur­ins, sem sendi mig (Jh 14.19-­24). Ágúst­ín­us kirkju­frœð­ari [f. 354, d. 430] skýrði út þessi vers og sagði, að hér ætti við hinn heil­aga Júdas, sem jafn­framt væri höf­und­ur bréfs­ins í Nýja Testa­ment­inu (traktat 76). Ekki finn­ast aðr­ir en post­ul­inn, sem ekki sveik, kall­að­ir Júdas í skrám um helga menn.

Hieronymus kirkjufrœðari [f. 342, d. 420] sagði í 4. kafla De viris illustri­bus, að marg­ir hafi hafn­að Bréfi Júdas­ar, því að þar [14.-15. vers] sé vitn­að í Bók Enoks [apó­krýft rit úr Gyð­ing­dómi], en samt hafi bréf­ið með langri notk­un vax­ið í áliti og telj­ist nú með Heil­agri Ritningu.

Bréf Júdasar hefst á orð­un­um: Júdas, þjónn Jesú Krists, bróð­ir Jakobs, heils­ar hinum köll­uðu… Ef til vill var höf­und­ur ekki nafn­kunn­ur mað­ur, fyrst hann til­tók bróð­ur sinn, eins og til að gera grein fyrir sjálf­um sér. Eða höfðu þeir starf­að sam­an? Var Jakob dá­inn? Og hver var hann? Marg­ir þeir gömlu sögðu, að ætti við frænda Jesú Krists (Mt 13.55; Mk 6.3), sem hafi ver­ið bisk­up í Jerú­sal­em og Bréf Jakobs sé kennt við (sjá De viris illustri­bus, 2. kafli), sami mað­ur og post­ul­inn Jakob Alfeus­son (Jakob Minor). Bisk­up­inn í Jerú­sal­em, sem var auk­nefnd­ur hinn rétt­láti, leið písl­ar­vætti á ár­un­um 60-64.

Sumir hafna því, að Bréf Júdas­ar geti ver­ið rit­að á tíma post­ul­anna. Eink­um er í því sam­bandi vitn­að í 17.-18. vers þess, sem segja: En þið elsk­uðu, minn­ist þeirra orða, sem post­ul­ar Drott­ins vors Jesú Krists hafa áð­ur tal­að. Þeir sögðu við ykk­ur: “Á síð­asta tíma munu koma spott­ar­ar, sem stjórn­ast af sín­um eig­in óguð­legu girnd­um.” Einn­ig er sagt, að text­ar í Bréfi Júdas­ar og Síð­ara Pét­urs­bréfi séu stund­um svip­að­ir. Hug­mynd­in að baki slík­um bolla­legg­ing­um er sú, að Júdas post­uli hafi ekki rit­að bréf­ið í Nýja testa­ment­inu. En þær leiða ekk­ert í ljós, sem heil­ag­ur Ágúst­ín­us mátti ekki vita.

Ekki er vanda­laust að segja frá störf­um Júdas­ar post­ula á kristni­boðs­akr­in­um: Abgar hét kon­ung­ur [tóp­ark] í borg­inni Edessa í Mesó­pótam­íu. Hann heyrði sagt frá Jesú Kristi og skrif­aði hon­um, bauð hon­um að koma til sín og bað hann að lækna sig. Krist­ur svar­aði, að ann­ar yrði send­ur í sinn stað. Bréf­in er að finna í 1. bók af Kirkju­sögu Euseb­ius­ar [f. 260, d. 340] og víð­ar. Svo kom þessi sendi­mað­ur til Edessa og náði ágæt­um árangri, sem finnst vand­lega sagt frá. Hann á að hafa verið úr hópi hinna sjö­tíu en er einn­ig kall­að­ur post­uli, ým­ist nefnd­ur Thadd­aeus eða Addaï, sem hljóm­ar eins og sama nafn­ið. Á með­al elztu heim­ilda má nefna rit­in Verk Thadd­aeus­ar (ca 250), Kenn­ing­ar Addaï (ca 400, sýr­lenzkt) og Saga Armen­íu (eft­ir Móses frá Chorene, d. um 490). En skoð­an­ir eru skipt­ar: Voru til dœm­is tveir Thadd­aeus­ar í læri­sveina­hópn­um, ann­ar post­uli og hinn einn af sjötíu­menn­ing­un­um? Var Addaï sami mað­ur og hinn heil­agi kristni­boði, sem ásamt Mari hef­ur messu­dag­inn 5. ágúst og helzt er tal­inn hafa lif­að á 2. öld? Eru þess­ar fornu heim­ild­ir sann­ar og óbrengl­að­ar? Hinu síð­asta virð­ist Euseb­ius svara ját­andi. Og Júdas Tadd­eus er að minnsta kosti í mörg­um post­ula­sög­um forn­um sagð­ur hafa far­ið til Mesó­pótam­íu og boð­að kristni.

Einnig segir saga [sem á að vera frá 5. öld eða eldri], að Júdas Tadd­eus og Símon vand­læt­ari post­uli, sem kom­inn var frá Egypta­landi, hafi far­ið í kristni­boðs­ferð til Persíu. Þeir hittu fyr­ir galdra­karla, sem hétu Zaroes og Arfax­at [þeir voru upp­runn­ir á Blá­landi en héld­ust þar ekki við, þeg­ar Matt­eus guð­spjalla­mað­ur kom, eft­ir því sem í Skarðs­bók seg­ir]. Þeir sendu eit­ur­slöng­ur á móti post­ul­un­um, sem þá tóku úr pússi sín­um kóbra­slöng­ur og högg­orma, sem bitu þessa karla. Nú hóf­ust mikl­ir kvein­staf­ir, og postul­arn­ir sáu aum­ur á þeim og létu slöng­ur sín­ar sjúga eitr­ið úr bit­sár­un­um. Áfram héldu post­ul­ar ferð sinni og komu að heiðnu must­eri, sem þeir hugð­ust eyði­leggja. Þá dreif að æva­reið­an mann­söfn­uð, und­ir for­ystu fyrr­nefndra galdra­manna, en for­sjón­in sendi eld­ing­ar á móti þeim, svo að all­ur hóp­ur­inn beið bana. Nú sá Persa­kóng­ur það ráð bezt að láta skír­ast, ásamt öll­um lands­lýðn­um. En samt fór svo, að post­ul­arn­ir liðu písl­ar­vætti í þessu landi: Júdas Tadd­eus var dauð­rot­að­ur með kylfu eða kúlu og Símon sag­að­ur í tvennt, sem á að hafa gerzt ná­lægt ár­inu 70. Fleiri af­brigði eru af sög­unni. Þótt þetta sé nokk­uð þjóð­sagna­kennt, eru að vísu oft sann­ur kjarni og allegor­íur í sögn­um, og krafta­verk­um skal ekki afneita.

Ætt gæti verið frá Júdasi, og í einni helgi­sögn er hann sagð­ur vera brúð­gum­inn í Kana. Heil­ag­ur Hege­sipp­us [2. öld] sagði, að Júdas frændi Krists hefði ver­ið afi tveggja manna, sem born­ir voru sök­um og fœrð­ir fyr­ir Domit­ian­us keis­ara [d. 96]. Hann spurði, hvort þeir væru niðj­ar Davíðs, sem þeir kváð­ust vera. Síð­an spurði hann, hvað þeir ættu í föstu og lausu. Þeir áttu á milli sín 25 ekr­ur lands, sem þeir rækt­uðu sjálf­ir, til af sjá fyr­ir sér og eiga fyr­ir skött­um. Til sann­inda­merk­is sýndu þeir nú sigg­grón­ar hend­ur sín­ar. Næst spurði keis­ar­inn um Krist og kon­ungs­ríki hans, hvern­ig því væri hátt­að og hvar og hve­nær það mundi birt­ast. Þeir sögðu, að það væri ekki af þess­um heimi eða neins stað­ar á jörðu, held­ur hjá engl­un­um á himn­um, og við endi heims­ins kœmi Hann til að dœma lif­end­ur og dauða og launa hverj­um manni eft­ir fram­ferði hans. Dom­it­ian­us felldi nú mál­ið nið­ur, því að þetta væri næsta lít­il­mót­leg upp­reisn, og lét auk held­ur lok­ið of­sókn­um gegn kristn­um mönn­um. Þetta stend­ur í Kirkju­sögu Euseb­ius­ar, 20. kafla í 3. bók.

Sagt er, að Júdas hafi lengi ver­ið gleymdi post­ul­inn, því að hann bar sama nafn og svik­ar­inn Ískar­íot. Á nokkr­um post­ula­mynd­um hafi Páll ein­fald­lega ver­ið mál­að­ur í hans stað. Að fornu hafi kirkj­ur naum­ast ver­ið helg­að­ar Júdasi Tadd­eusi. Fyrst á 18. öld hafi þetta snú­izt við, því að post­ul­inn var svo góð­ur til áheita í vanda­söm­­um og von­laus­um mál­um, þeg­ar önn­ur úr­ræði voru ef til vill þrot­in. Ým­is sjúkra­hús eru helg­uð þess­um postula.

Helgur dómur postulanna Júdasar og Símon­ar var fœrð­ur til Róm­ar á sjö­undu öld. Hann er að finna í Pét­urs­kirkj­unni. Og í Reims og Toul­ouse í Frakk­landi eiga einn­ig að vera brot af bein­um þeirra. En sögn seg­ir, að helg­ur dóm­ur Júdas­ar hafi ver­ið varð­veitt­ur í klaustri, sem stóð á eyju í norð­an­verðu stöðu­vatn­inu Issyk-Kul, sem er í Kyrg­yzst­an, og svo ætla sum­ir, að það­an hafi hann ver­ið flutt­ur á örugg­ari stað í Pamir­fjöll­um, og er þá enn eft­ir að botna þetta: hvar þau bein eru nú eða hvað um þau varð. En reynd­ar dreifð­ust helg­ir dóm­ar oft í marg­ar kirkj­ur. Ein frá­sögn þarf því ekki að úti­loka aðra.

Á helgimyndum er Júdas oft sýnd­ur með bók, auð­kenni post­ul­anna, og kylfu eða kúlu, jafn­vel exi, til að minn­ast písl­ar­vætt­is hans, og með fisk, ár­ar eða akk­eri, eins og væri hann fiski­mað­ur, eða eld­tung­ur um höf­uð­ið, tákn hins Heil­aga Anda. Post­ul­arn­ir Júdas og Símon eiga í róm­versku kirkj­unni sam­eig­in­leg­an messu­dag 28. októ­ber [helg­ur dóm­ur flutt­ur til Róm­ar?] en í orþó­doxu kirkj­un­um 1. júlí [dauða­dag­ur?], auk held­ur á Júdas þar eystra messu­dag­inn 19. júní. Hann og post­ul­inn Bart­ólóm­eus eru vernd­ar­dýr­ling­ar kirkj­unn­ar í Arm­en­íu og tald­ir hafa boð­að þar kristni.

Í Martyrologium Romanum stendur við 28. október: “In Perside natalis beatorum Apostolorum Simonis Chananæi, et Thaddæi, qui et Iudas dicitur. Ex ipsis autem Simon in Ægypto, Thaddæus in Mesopotamia Evangelium prædicavit; deinde, in Persidem simul ingressi, ibi, cum innumeram gentis illius multitudinem Christo subdidissent, martyrium consummarunt.”

  

    

Benedictus PP. XVI (ávarp 11. október 2006)

Camerlynck, Achille @ The Catholic Encyclopedia (1910)

Catholic Online

Duffy, Patrick @ Catholic Ireland

Ferris, Tommy @ The Twelve Apostles of the Catholic Church

Jones, Terry @ Star Quest Production Network

Kathpedia

Mühlek, Karl @ Biographisch-Biblio­graphisch­es Kirchen­lexikon

Odden, Per Einar @ Den Katolske Kirke i Norge

Santi beati e testimoni

Siervas de los Corazones Traspasados de Jesús y María

Wikipedia (enska)

Wikipédia (franska)

Wikipedia (ítalska)

Wikipédia (portúgalska)

Wikipedia (spænska)

Wikipedia (þýzka)

Ökumenisches Heiligenlexikon

    

  

Read Full Post »

    

Tekla

    

Tekla 2

    

Verk Páls og Teklu er bók, sem Heilagur Hiero­nym­us (d. 420) nefndi í De Viris Illustri­bus og áleit apo­krýfa, því að at­burð­anna væri í engu get­ið í Post­ula­sög­unni. Hann álykt­aði, að Lúkas hefði átt að þekkja þá, ef sann­ir væru. Auk þess hafi Tertulli­an­us (d. um 220) sagt frá presti nokkr­um í Asíu, áhang­anda Páls, sem Jó­hann­es hefði sak­fellt fyr­ir að vera höf­und bók­ar­inn­ar, og það hefði prest­ur­inn ját­að, bor­ið fyr­ir sig kær­leika til Páls en síð­an orð­ið að láta af þjón­ustu sinni (7. kafli). Tertull­i­an­­us sagði frá þessu í De Baptismo: “Ef þau skrif, sem rang­lega eru kennd við Pál, nefna Teklu sem dœmi um það, að kon­um leyf­ist að kenna og skíra, skulu þeir vita, að í Asíu var prest­in­um, sem samdi þetta rit, eins og hann væri að auka við frægð Páls frá eig­in brjósti, eft­ir að hann var sak­felld­ur og hafði ját­að að hafa gert þetta af kær­leika til Páls, vik­ið frá þjón­ustu sinni” (17. kafli). Hiero­nym­us hef­ur vænt­an­lega haft fyr­ir fram­an sig aðra gerð af text­an­um eða ann­að rit, því að hér er Jó­hann­es ekki nefnd­ur, en fleira eða færra í bók­inni hef­ur eftir þessu snemma ver­ið álit­ið rangt. Sú gerð af Verk­um Páls og Teklu, sem nú er varð­veitt, er yf­ir­leitt tal­in sam­in ná­lægt ár­un­um 170-180. En hugsa má sér, að fleiri en ein slík frá­sögn hafi ver­ið fœrð til bók­ar eða saga þessi hafi ver­ið brengl­uð í hönd­um skrif­ara, sem töldu sig vita ann­að en höf­und­ur­inn. Efa­semd­ir um hina varð­veittu bók, sem sjald­an voru þó mikl­ar í aust­ur­kirkj­um, hafa eng­an veg­inn af­sann­að minn­ið um Teklu. Í Martyro­logium Rom­an­um stend­ur: “Iconii, in Lycaonia, sanctæ Theclæ, Virginis et Martyris; quæ, a sancto Paulo Apostolo ad fidem perducta, ignes ac bestias, sub Nerone Imperatore, in Christi con­fessione devicit; et, post plurima ad multorum doctrinam superata certamina, venit Seleuciam, ibique requievit in pace. Ipsam vero sancti Patres summis laudibus cele­brar­unt.” Nafn Teklu er grískt og merk­ir köll­uð af Guði. Það er einn­ig heiti á fleiri heil­ög­um kon­um og ætt­bálki af skraut­leg­um fiðrildum.

Tekla var, eft­ir því sem sagt er, kaup­manns­dótt­ir frá bœn­um Iconium í Frygíu (nú Konya í Anatolíu í Tyrk­landi). Páll post­uli kom þang­að og gisti hjá manni, sem hét Onesifor­us [lík­lega ann­ar mað­ur en sá í 2Tím 1.16; nafn­ið þýð­ir gagn­leg­ur]. Tekla fór að hlýða á post­ul­ann og gerði­st krist­in. Hún tók til sín orð hans um mey­dóm, sleit fest­um við heið­ingj­ann Thamyr­is og vann skír­líf­is­heit. For­eldr­um henn­ar og unn­usta mis­lík­aði þetta, en hún lét ekki tala um fyr­ir sér, svo að þau kærðu hana fyrir dóm­ara, sem lét hýða Pál og reka á burt en dœmdi Teklu á bál­ið. Hún var þá 17 ára. Líf­lát­ið mis­heppn­að­ist, því að svo mik­ið rigndi, að eld­ur­inn drapst. Henni var sleppt, og hún hitti Pál og fór með hon­um til Anti­okkíu í Pisidia. En þar tók ekki betra við, því að góð­borg­ari að nafni Alex­and­er sá Teklu, girnt­ist hana og reyndi að nema á burt, sem mis­tókst að vísu, en aft­ur var hún dœmd til dauða. Þá var hún 18 ára. Henni var kast­að fyr­ir óarga­dýr, en einn­ig það líf­lát­ið varð að engu: “Ljón­in heiðr­uðu Teklu, svo að hin soltnu villi­dýr, sem kom­in voru að fót­um bráð­ar­inn­ar, lengdu sína heil­ögu föstu og gerðu meyj­unni ekki mein, hvorki með klóm né augna­got­um, því að jóm­frúr­dóm­ur skemm­ist jafn­vel með því að líta hann aug­um,” skráði heil­ag­ur Ambros­ius kirkju­frœð­ari (63. bréf; sjá einn­ig 3. kafla í 2. bók hans um mey­dóm­inn). Heil­ag­ur Ágúst­ín­us kirkju­frœð­ari bœtti því við í sinni bók um mey­dóm, að hún hefði á þess­um tíma ekki verið nœgi­lega þrosk­uð í anda til að líða písl­ar­vætti (45. kafli). Teklu var sleppt úr haldi. Hún hélt áfram för sinni með Páli, áleið­is til borg­ar­inn­ar Myra, en dul­bjóst í það sinn sem pilt­ur og skar hár sitt. Eft­ir að post­ul­inn var tek­inn af lífi nærri ár­inu 65, hélt hún heim­leið­is til Icon­ium en sett­ist svo að í helli í hér­að­inu Seleucia ad Caly­cadn­um (nú Silifke í Suð­ur-Tyrk­landi), og kall­ast sá stað­ur Meriam­lik eða Aya­tekla (mynd­ir hér). Tekla bjó í helli sínu­m í 72 ár. Þeg­ar hún var orð­in 90 ára, gerðu að­súg að henni grísku­mæl­andi lækn­inga­menn, sem sáu of­sjón­um yf­ir lækn­inga­mætti henn­ar. Hún baðst fyr­ir, að sér yrði forð­að úr hönd­um þeirra. Þá opn­að­ist berg­ið við hell­inn en lok­að­ist síð­an á eft­ir henni. Hún sást ekki fram­ar.

Tekla var al­veg frá fyrstu öld­um víða heiðr­uð sem heil­ög kona og lit­ið á dauð­daga henn­ar sem písl­ar­vætti, oft sagt fyrsta písl­ar­vætti krist­inn­ar konu, sem jafn­framt kann að hafa ver­ið fyrsti kristni­boð­inn úr röð­um kvenna, björt fyr­ir­mynd í skír­lífi og fræg af jar­teinum. Þetta álit hef­ur ekki breytzt mjög, og síð­an 1666 hef­ur lið­lega þriggja metra há stytta af henni stað­ið of­an á súlna­göng­um í Vati­kan­inu (sjá mynd), þótt vef­set­ur þess sé orð­vart um meyju þessa. Messu­dag­ur Teklu er í róm­versk-kaþólsku kirkj­unni 23. septem­ber, en heil­ag­ur Pio frá Pietrelcina hef­ur á síð­ustu ár­um víða þok­að henni úr sæti sem nafn­kennd­asti dýr­ling­ur þess dags. Messu­dag­ur Teklu í orþó­dox­um kirkj­um er 24. septem­ber. Þar er hún gjarn­an köll­uð jafn­oki post­ul­anna og frum­vott­ur með­al þeirra kvenna, sem hafa lið­ið písl­arvætti.

Verk Páls og Teklu er meðal annars að finna hjá: 1) Early Christian Writings (Peter Kirby), 2) Early Church Fathers (Roger Pearse), 3) Eternal Word Tele­vision Net­work, 4)  Front­line, 5) New Advent og 6) The Saint Pachomius Library. Um­fjöll­un um bók­ina má til dœm­is lesa í Wiki­pediu og eft­ir George Reid í The Catholic Encyclo­pedia. En ítrek­að skal, að þessi aldna bók er ekki tal­in rétt og óbrengl­uð frá orði til orðs. Loks má benda á upp­byggi­leg­an Teklu­sálm, sem sagð­ur er forn og hafa far­ið um heil­ag­ar hend­ur ágætra kirkj­unn­ar manna. 

   

Borrelli, Antonio @ Santi, beati e testimoni

Catholic Online

Holy Spirit Interactive

Kirsch, Johann Peter @ The Catholic Encyclopedia (1912)

Meander Travel

Mollen, Thomas @ Bistum Münster

Odden, Per Einar @ Den Katolske Kirke i Norge

Stadlers Vollständiges Heiligenlexikon

Wesseling, Klaus-Gunther @ Biographisch-Biblio­graphisch­es Kirchen­lexikon

Wikipedia (enska)

Wikipedia (ítalska)

Wikipédia (portúgalska)

Wikipedia (spænska)

Wikipedia (þýzka)

Ökumenisches Heiligenlexikon

Read Full Post »

   

Regina mey (stytta í Drensteinfurt)

   

Regina fœddist í Autun í héraðinu Bourgogne í Frakk­landi. Móð­ir henn­ar dó að henni, en hún eign­að­ist kristna fóstru, sem lét skíra hana, og af­neit­aði þá Clement fað­ir telp­unn­ar henni. Þeg­ar Reg­ina óx úr grasi, gætti hún bú­fjár, baðst löng­um fyr­ir og hug­leiddi for­dœmi hinna heil­ögu. Hátt sett­ur mað­ur að nafni Olybr­ius vildi ganga að eiga hana, ef hún kast­aði trú sinni. Því neit­aði hún og var þá tek­in og pynt­uð en síð­an háls­höggv­in í bœn­um Ales­ia, sögð 15 ára. Gizk­að er á, að þetta hafi gerzt í of­sókn­um gegn kristnu fólki á seinni hluta þriðju ald­ar. Messu­dag­ur heil­agr­ar Reg­inu er 7. septem­ber. Helg­ur dóm­ur henn­ar var ár­ið 827 flutt­ur til klaust­urs­ins í Flavigny-sur-Ozerain. Fram­an­sagt er að litlu leyti byggt á óræk­um heim­ild­um, þótt sag­an sé forn.

   

Catholic Online

Den Katolske Kirke i Norge

Donaghy, Thomas @ Regina Archdiocese, Kanada

Jones, Terry @ Star Quest Production Network

Mollen, Thomas @ Offizialatsbezirk Oldenburg

Pulsfort, Ernst @ Biographisch-Bibliographisches Kirchenlexikon

Wikipedia (enska)

Wikipedia (franska)

Wikipedia (þýzka)

Ökumenisches Heiligenlexikon

    

Read Full Post »

Older Posts »