Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for the ‘Biskupar’ Category

                      

Eftir jól voru menn send­ir úr Skál­holti eft­ir bisk­ups­efni, og fór hann aust­an á langa­föstu1 og með hon­um Jón Lofts­son2, er þá var mest­ur höfð­ingi á Ís­landi, og komu þeir til stað­ar­ins í Skál­holti hálf­um mán­uði fyr­ir páska, og var þar Giz­ur Halls­son3 fyr­ir. Þar voru og aðr­ir menn, þeir er bisk­ups vin­ir voru og for­sjár­menn hér­aðs­ins voru. Tók þá Þor­lák­ur við for­ráð­um stað­ar­ins, og var þá þeg­ar mik­il skuld gerð til þeirra nauð­synja, er bú­ið þurfti að hafa. Hann hafði þá þeg­ar mikla skap­raun, bæði af við­ur­vist manna og öðr­um óhœg­ind­um, þeim er hann átti um að vera, og bar hann þær all­ar þol­in­móð­lega. Klæng­ur bisk­up lá í rekkju með litl­um mætti, og Þor­lák­ur var þá í Skál­holti, af því að menn vildu eigi, að hann fœri ut­an, fyr­ir sak­ir ófrið­ar4 þess, er þá var milli Nor­egs og Ís­lands, er mál­um var ósætt, þeim er gerzt höfðu landa í milli af víg­um og fjár­upp­tekt­um, og dvaldi hann þar um nokk­urra vetra sakir.

                      

En er Klængur biskup andað­ist5 og að því kom, að hon­um þótti nauð­syn til, að eigi væri leng­ur bisk­ups­laust í Skál­holti en þá hafði ver­ið, þá lét hann eigi leng­ur letj­ast ut­an­ferð­ar. Kom það fyr­ir ekki, þótt hann væri latt­ur ut­an­ferð­ar fyr­ir ófrið­ar sakir.

                 

Hann tók til orða Pálsmessu6 post­ula: “Eigi skul­uð þér skelf­ast ótta vondra manna,” sagði hann. Var [hann] þá síð­an ut­an til­bú­inn, og vildi hann bæði hafa lít­ið fé, af því7 sem aðr­ir hafa haft, og eigi mik­ið föru­neyti, og greidd­ist vel um hans ferð, unz þeir komu við Noreg.

                 

1Langafasta árið 1175. Páskadag­ur mun hafa ver­ið 13. apríl.

2Jón Loftsson (1124 – 1197) var goð­orðs­mað­ur og djákni í Odda. Hann hafði lengi hald­ið Ragn­heiði syst­ur Þor­láks sem frillu (ann­ar son­ur þeirra f. 1155).

3Gizur Hallsson (d. 1206) var goð­orðs­mað­ur og djákni í Hauka­dal, síð­ar lög­sögu­maður.

4Ófriður: Í Konungsannál segir við ár­ið 1170 Bar­dagi í Saur­bœ og við ár­ið 1172 Brenna í Saur­bœ en við ár­ið 1175 Víg Helga prests Skafta­son­ar. Átt mun við Saur­bœ á Kjal­ar­nesi. Helgi var veg­inn á al­þingi fyr­ir að hafa brennt skip fyr­ir Páli Aust­manni, og sótti Þor­varð­ur Þor­geirs­son vígs­mál­ið á hend­ur Aust­mönn­um, sem urðu að selja hon­um sjálf­dœmi, svo að ekki yrðu drepn­ir. Ann­ars er fátt um þess­ar deil­ur vit­að eða hversu víð­tœk­ar þær urðu. Í bréfi Ey­steins erki­bisk­ups, sem prent­að er í DI I, bls. 218 – 223 (þar fœrt til árs­ins 1173), er vik­ið að mál­inu: “Svo og það, sem þér haf­ið af­gert við kon­ung­inn og við lands­lýð hans, þá leið­rétt­ist það við hann, þótt marg­ir verði við bót­ina skip­ast, þar sem fá­ir hafa misgert.”

5Andaðist: Klængur dó 28. febrúar 1176. Þor­lák­ur þjón­ust­aði hann í bana­legu og stóð yf­ir greftri hans, stendur í 11. kafla Hung­ur­vöku.

6Pálsmessa: Helzt gæti átt við 30. júní 1177. Ás­dís Eg­ils­dótt­ir las ekki Páls­messu, eins og Guð­brand­ur Vig­fús­son gerði, held­ur Páls, og hefði þá Þor­lák­ur vitn­að til orða post­ul­ans, en ekki er sú til­vitn­un auð­fundin.

7Af því: Miðað við það.

             

Þessi kafli er hluti af Þorláks sögu hinni elztu.

Auglýsingar

Read Full Post »

                       

Sem ráð og líf hins heilaga Þor­láks skein með slík­um blóma síns hrein­líf­is og gæzku og fag­ur­legr­ar for­sjár ann­arra ráðs, sem nú var frá sagt, þá lét al­mátt­ug­ur Guð til þess rýma, sem hann hafði áð­ur fyr­ir hug­að, að hans veg­ur skyldi magn­ast og vaxa úr því sem þá var. En það varð með þeim hætti, að þá er Klæng­ur bisk­up gerð­ist mjög aldri orp­inn1, þá tók hann van­heilsu mikla, opn­uð­ust fœt­ur2 hans, og gerð­ist hann þá mjög van­fœr til síns embætt­is fyr­ir van­heilsu sak­ir. En hann hafði þá leyfi þeg­ið3 af Ey­steini erki­bisk­upi til þess, að mað­ur væri til bisk­ups kos­inn eft­ir hann. Fór Klæng­ur bisk­up til al­þing­is þá4 og sótti að vini sína, að mað­ur yrði ráð­inn til ut­an­ferð­ar, og voru þá lagð­ar stefn­ur til.

                   

Það sama sumar fór til al­þing­is svo sem send­ur af Guði Þor­lák­ur ábóti fyr­ir þær sak­ir, að hon­um þótti nauð­syn til bera, af því að hann var aldrei van­ur heim­an að fara nauð­synja­laust. Þá er um­ræða tókst um þetta mál, þá voru þrír menn und­ir kosn­ing nefnd­ir, þeir er bezt þóttu til falln­ir af öll­um, og var einn af þeim Þor­lák­ur ábóti. Ann­ar ábóti hét Ög­mund­ur5, hinn mesti skör­ung­ur. Þriðji var prest­ur, er Páll6 hét, lær­dóms­mað­ur mik­ill og hinn mesti bú­þegn7. Bar það fag­urt vitni hverj­um þeirra, að þess fýst­ist hver mest, er kunn­ast­ur var. En þess kenndi að um Þor­lák, að hann hafði sig eigi mjög upp haf­ið í metn­aði þeim, er sjálf­virð­ing8 heit­ir, og hrós­aði9 hann meir góð­gern­ing­um sín­um í Guðs aug­liti en manna, og kost­gæfði hann enn meir að vera af­bragð ann­arra manna í sinni gœzku en sýn­ast svo fyrir aug­um skyn­lít­illa manna. Og varð svo af því, að mörg­um þótti hann sér ókunn­ast­ur þeirra, er þá voru í vali, og var það af því vor­kunn­legt, að hann hafði mörg­um mönn­um ver­ið eigi all­ná­læg­ur að hér­aða­vist­um og heim­ili. Þor­lák­ur var fá­mál­ug­ur á þeim fundi, en marg­ir voru aðr­ir fjöl­orð­ir, þeir er þessi stór­mæli horfðu mið­ur til handa en honum.

                    

Var þá eftir leitað við Þor­kel Geira­son, er reynd­ur var að rétt­yrði en kunn­ast ráð Þor­láks af vitr­um mönn­um og göfg­um, hver skör­ung­ur Þor­lák­ur væri eða hve mik­ill orða­mað­ur10 hann væri.

             

En Þorkell svaraði: “Meir kost­gæf­ir Þor­lák­ur,” seg­ir hann, “að gera allt sem bezt en mæla sem flest.”

                    

Þau svör féllu mönnum vel í skap, og lögðu marg­ir þá þeg­ar meiri ást­ar­hug til Þor­láks, er þeir heyrðu svo verð­leg­an vitn­is­burð hans hátta af svo vitr­um manni og vel stillt­um. Urðu þau mála­lok, að kosn­ing­ur var lagð­ur und­ir Klæng bisk­up, að hann skyldi kjósa af þeim, er í vali voru. En hann kaus Þor­lák til ut­an­ferð­ar og að taka bisk­ups­vígslu eft­ir sig og þann vanda all­an, er því fylgdi11.

                  

Herra Þor­lák­ur ábóti fór af þingi aft­ur í kan­oka­set­ur sitt en bað Klæng bisk­up, að hann skyldi hafa for­ráð stóls og stað­ar þau miss­eri. En þá gerð­ust fjár­hag­ir óhœg­ir í Skál­holti. Urðu af­vinn­ur12 mikl­ar en til­lög lít­il. Var hann eigi fœr til yf­ir­far­ar, og tók­ust af all­ar gjaf­ir, og mátti þá eigi lengi svo fram flytj­ast öll miss­eri, að eigi þyrfti þá stórra við­fanga13.

                          

1Mjög aldri orpinn: Klængur var nærri sjö­tug­u (fœdd­ur 1102, að ætlan Páls Eggerts Óla­son­ar, en 1105, að ætl­an Ás­dís­ar Egils­dóttur og Boga Th. Melsteð).

2Opnuðust fœtur: Fékk fótasár.

3Þá leyfi þegið: Bréfið er prentað í DI I, bls. 218 – 223, þar fœrt til árs­ins 1173: “…bisk­ups kosn­ing og, ef þér vilj­ið á heilu ráði standa, þá frest­ið eigi, og lát­ið hann ut­an koma að sumri að vísu, því bæði þrot­ar Klæng bisk­up móð og mátt, og skul­uð þér ekki leng­ur þar ætla til þjón­ustu­gjörð­ar. En þér sjá­ið vand­lega fyr­ir kosn­ingu yð­ar, [að taka] þann til höfð­ingja, er þér ætl­ið helzt munu sálu yð­ar vilja til Guðs stýra, hvað sem er þeir leggja í móti heil­ræð­um hans, er mis­verk hitta.” Björn Þórð­ar­son leiddi lík­ur að því, að erki­bisk­up hefði vikið Klængi frá vegna barn­eign­ar­brots (Saga I, bls. 289 – 346).

4Þá: Árið 1174, stendur í Konungsannál og Lögmanns­annál.

5Ögmundur Kálfsson gaf aleigu sína til að stofna klaust­ur í Flat­ey á Breiða­firði ár­ið 1172. Hann gerð­ist sjálf­ur fyrsti ábót­inn. Það var kan­oka­set­ur af reglu Ágúst­ín­us­ar (DI I, bls. 280 – 282). Klaustr­ið var flutt 1184 að Helga­felli á Snæ­fells­nesi. Ög­mund­ur drukkn­aði 1189.

6Páll Sölvason var prestur í Reykholti í Borg­ar­firði. Hann var goð­orðs­mað­ur, laun­get­inn og eig­in­gift­ur, svo að und­an­þág­ur þurfti, ef hann hefði átt að ná bisk­ups­vígslu. Páll dó 1185. Frá hon­um seg­ir í Sturlungu. Sjá einnig hér.

7Búþegn: Bóndi. Páll var vel efnum búinn.

8Sjálfvirðing: Sjálfsálit.

9Hrósaði: Vann (sbr. hrósa sigri).

10Orðamaður: Mælskumaður.

11Fylgdi: Hér er í yngri gerð sögunnar við­bót, að Þor­lák­ur hafi ver­ið kjör­inn á Pét­urs­messu [29. júní], Klæng­ur vilj­að af­henda hon­um stað­ar­for­ráð þá þeg­ar, sem ekki gekk þó eft­ir, og bisk­ups­efni í fyrstu fœrzt und­an kosn­ing­unni. Fleiri helg­ir menn voru ófús­ir að taka við slíkri mann­virðingu.

12Afvinnur: Útgjöld. Bogi Th. Melsteð skráði um Klæng: “Það er látið mikið af gestrisni hans, fjölmennum veislum og stórum fjegjöfum við vini hans. Hann átti og gjafavíxl við hina stærstu höfðingja í öðrum löndum, þeim er í nánd voru, og af slíkum hlutum varð hann vinsæll, bæði utanlands og innan, segir sagan. Þurfti ógrynni fjár til alls þessa… svo að höfundur Hungurvöku undrast, hvernig biskup fékk staðist þetta, og að aldrei skyldi verða þar skortur á nauðsynjum” (Íslendinga saga III, bls. 235).

13Viðföng: Nauðsynjar, forði, vistir.

                       

Þessi kafli er hluti af Þorláks sögu hinni elztu.

                             

Read Full Post »

                                  

Halla, móðir Þorláks, var með hon­um alla ævi, með­an hún lifði, en hann hafði feng­ið fé systr­um sín­um báð­um, áð­ur hann réðst und­ir reglu­hald­ið. Var hann ást­sam­ur sín­um öll­um frænd­um þá sem áð­ur, en and­leg­ur fað­ir öll­um þeim, er hann var yf­ir skip­að­ur. Hann bann­aði brœðr­um flauk­ur1 og far­ir all­ar, þær er eigi bar nauð­syn til, en bauð þeim, að þeir skyldu sem jafn­lynd­ast­ir vera að góð­um hlut­um í sinni þjón­ustu, eft­ir því sem Páll post­uli hef­ur kennt í sín­um pistli: “Biðj­izt þér fyr­ir2,” sagði hann, “án af­láts, og ger­ið Guði þakk­ir í öll­um hlut­um.” Seg­ir svo og sjálf­ur Guðs Son, að sá er hver hólp­inn3, er hann stað­fest­ist í góðu verki allt til enda lífs síns.

              

Bauð hann þeim vandlega þögn4 að halda, þá er það var skylt, en hafa góða munns­höfn5, þá er mál­ið var leyft. En að orð­um Páls post­ula spilla ill mál6, seg­ir hann, góð­um sið­um. Má það og sjá, hve skylt vera mun í því lífi að halda sig frá heim­leg­um7 og ill­um orð­um, ef þó skal rangt, þó gott sé mælt, þá er skylt að þegja, sem Davíð seg­ir í salt­ara: “Lít­il­lát­ur er eg8,” sagði hann, “og þagði eg yf­ir góð­um hlut­um.” Því þótt­ist hann lít­il­lát­ur, að hann var jafn­an fús­ari að mæla gott en illt, og batzt hann þó oft hvors­tveggja fyr­ir Guðs sakir.

                    

Menn fóru til kanoka­set­urs Þor­láks ábóta úr öðr­um munk­líf­um eða reglu­stöð­um, bæði sam­lend­ir og út­lend­ir9, að sjá þar og nema góða siði, og bar það hver frá, er það­an fór, að hvergi hefði þess kom­ið, að það líf þœtti jafn­fag­ur­lega lif­að sem þar, er Þor­lák­ur hafði fyr­ir séð. Þá hið fyrsta fundu það marg­ir menn, að þar var til mik­ils góðs að sjá, er hann var, fyr­ir gæzku sak­ir, þess er aðr­ir höfðu eigi föng á því­líkt að miðla. Marg­ir gengu þeir heil­ir af hans fundi, þá er hann veitti þeim bless­an og yf­ir­söngva, er með ýms­um mein­um komu á hans fund.

             

Margt bar það annað hon­um til handa, er marg­ir virtu þá þeg­ar til jar­teina. Sá at­burð­ur varð, þá er hann var þar stadd­ur, að eld­ur kom í hús, en þá er Þor­lák­ur kom til og bless­aði, þá slokkn­aði eld­ur­inn. Ef fén­að­ur sýkt­ist, þá batn­aði ávallt við hans yf­ir­söngva, ef lífs var auð­ið. Vatns­vígsl­ur hans voru merki­leg­ar, svo að bæði fékk bót af menn og fén­að­ur. Ef vatni því var dreift yf­ir fén­að, er Þor­lák­ur hafði vígt, þá grand­aði því ná­lega hvorki sótt­ir né veð­ur eða dýr. Ef mýs gerðu mein á mat eða klæð­um, þá kom fall í þær eða hurfu all­ar af vatn­inu, ef því var yf­ir stökkt og fœru þeir svo með öllu, sem hann lagði ráð til. Fór vatn­ið þá þeg­ar um öll ná­læg hér­uð, en um allt Ís­land, síð­an er Þor­lák­ur varð bisk­up, af því að menn þótt­ust hvar­vetna bót á finna um það, sem þá bar mesta nauð­syn til.

                 

En þó fóru vitrir menn varlega10 með þeirri um­ræðu að kalla það ber­ar jar­tein­ir eða þýða það eink­an­lega hans heil­ag­leika, því að svo mæl­ir Heil­ög Ritn­ing: “Eigi skaltu lofa11 mann í lífi sínu. Lofa hann eft­ir líf­ið og mikla hann eft­ir umbun lífs­ins.” Og er af því svo mælt, að það má ger­ast að ábyrgð bæði þeim, er það mæla fyrr en lok æv­inn­ar eru vit­uð til fulls, og það kann og vera, að þess hug sjálfs lokki sú um­ræða til nokk­urs metn­að­ar, og má nú það sjá, hversu því er ráð­ið, er menn hafa þeim heil­ræð­um fylgt í þessu máli, að fá­ir lof­uðu hann of mjög í líf­inu. En leit­ið12 nú að lofa hann og dýrka á all­ar lund­ir, sem föng eru á, er þér vit­ið dýrð hans og heil­ag­leika.

                  

1Flaukr: Í orðasafninu ONP og Cleas­by-Vig­fús­son orða­bók­inni er les­ið úr þessu orði sem flǫkr, og á sama hátt las Ás­dís Egils­dótt­ir flǫkk­ur, nefni­lega flakk (illa séð á Ís­landi: hús­gang­ur gat varð­að skóg­gang sam­kvæmt Grágás).

2Biðjizt þér fyrir, stendur í Fyrra Þessalon­iku­bréfi 5.17 – 18 (sine intermissione orate in omnibus gratias agite haec enim voluntas Dei est in Christo Iesu).

3Sá er hver hólpinn, stendur í Matteusar­guð­spjalli 24.13 (qui autem permanserit usque in finem hic salvus erit).

4Þögn: Kristnar trúarreglur við­hafa yfir­leitt ein­hverja þagn­ar­skyldu. Kanok­ar eru ekki mjög strang­ir í þeim efn­um, en á 11. og 12. öld juku sum set­ur þeirra kröf­urn­ar (sjá grein eft­ir Jakob Mois í fyrsta hefti sjötta ár­gangs af In Unum Con­gregati [1959]).

5Munnshöfn: Munnsöfnuður.

6Spilla ill mál, stendur í Fyrra Korintubréfi 15.33 (nolite seduci corrumpunt mores bonos conloquia mala).

7Heimlegur: Veraldlegur. Heilagur Ágúst­ín­us rit­aði í leið­sögn sinni, að ekk­ert í fari munka mætti hneyksla augu neins, held­ur ætti allt að hœfa hinni helgu stöðu þeirra. Í skýr­ing­un­um eft­ir Hugon­ius í Viktors­klaustri er það með­al ann­ars lagt svo út, að allt tal verði að vera krydd­að með salti vís­dóms – sem for­dœm­ir allt hið gagns­lausa og illa en læt­ur að­eins í ljósi hið góða og gagnlega.

8Lítillátur er eg, stendur í Sálmunum 39.3 (obmutui et humil­iat­us sum et silui a bonis; áður 38. sálm­ur). Í vers­inu á und­an kem­ur fram, að gæta þurfi tungu sinn­ar í ná­vist synd­ara, til að syndga ekki sjálf­ur með henni (dixi custod­iam vias meas ut non delinquam in lingua mea posui ori meo custodiam cum con­sisteret peccator ad­versum me).

9Útlendir: Hafskipahöfnin Minþaks­eyri finnst á korti frá ár­inu 1595 sýnd nærri Álfta­veri og var að minnsta kosti á þess­um slóð­um, hve lengi sem hún var vel not­hœf. Marg­ir mega hafa átt við­skipti við klaustr­ið, leit­að þar beina, lið­sinn­is eða hvað ann­að. En sam­skipti við erlend syst­ur­klaust­ur koma einn­ig til álita.

10Varlega: Varðandi heiðrun dýrlinga skal bent á grein eft­ir Camillo Beccari, skjöl hjá Con­gre­gatio de Causis Sanct­orum, yfir­lit hjá Catholic Answers, til­vitn­ani­r hjá The Church Fathers, grein­ar 954 – 962 í katekisma kaþólsku kirkj­unn­ar og ekki sízt fyrir­lest­ur efti­r Wise­man kardínála (útg­áfa­n 1870, II. bindi, bls. 77nn).

11Eigi skaltu lofa… virðist ekki eiga beina sam­svör­un í Vulgötu, en séra Ed­ward Booth OP hef­ur bent á, að Síraks­bók 11.30 sé ein bezta hlið­stœð­an (ante mortem ne laudes hominem quem­quam; 28. vers í ís­lenzku Bibl­íunni frá 2007), auk þess sem vers­ið 44.8 í sömu bók sé of­ur­lít­ið svip­að (qui de illis nati sunt reliquerunt nomen narrandi laudes eorum). Ef til vill not­aði höf­und­ur Þor­láks sögu óvenju­legt Biblíu­hand­rit eða hafði í huga ann­að verk.

12Leitið: Upphaflegri kann að vera orð­mynd­in leita, og breyt­ist þá síð­ar í máls­grein­inni orða­lag­ið þér vitið og verð­ur þeir vita.

                    

Þessi kafli er hluti af Þorláks sögu hinni elztu.

                

Read Full Post »

                        

Fyrir þeim bœ í því héraði, er ann­ar var bezt­ur, réð sá mað­ur, er Þor­kell1 hét, auð­ug­ur að fé en spak­ur að mann­viti. En er hann tók nokk­uð að eld­ast, en átti enga all­nána frænd­ur til erfð­ar eft­ir sig, þá gœddi hann sína frænd­ur með auð­æf­um en frels­aði sér þann fjár­hlut til for­ráða, er eft­ir var, mik­inn og fríð­an. Hann lýsti þá yf­ir því, að hann vildi Krist kjósa og hans helga menn sér til erf­ingja alls þess fjár, er þá var eft­ir, og vildi reisa kan­oka­set­ur2 í Þykkva­bœ3. En það mál var vant að semja í fyrsta sinni, og leit­aði hann af því það fyrst til að fá, er vand­ast var, mann­inn þann, er reglu mætti setja, þá er þeir menn skyldu hafa, er þar vildu til hrein­líf­is ráðast.

                

Hann fór þá í Kirkjubœ og skor­aði á Þor­lák, að hann réð­ist til. En hann lét það ekki all­tor­sótt við sig vera, af því að hann hafði það áð­ur í hug sér haft að hafna heimi og ráð­ast und­ir reglu eft­ir orð­um al­mátt­ugs Guðs, er hann kall­ar4 eng­an að fullu mega vera sinni læri­svein, nema hann láti alla sína eigu fyr­ir Guðs sak­ir og þjóni hon­um þá síð­an með hrein­um hug. En þó leit­aði hann eft­ir við Bjarn­héð­in prest, hversu hon­um mætti það í skap falla eða hve ráð­legt hon­um sýnd­ist, að hann ját­að­ist und­ir þann vanda, er hann var beidd­ur. En Bjarn­héð­inn sagði svo, að hon­um mundi sá dag­ur mik­ill þykja, er Þor­lák­ur réð­ist úr Kirkju­bœ að vista­fari, en þó lézt hann eigi þess nenna mjög að letja, er hann sá margra manna hjálp við liggja.

                   

Var þá5 síðan staður settur í Þykkva­bœ að ráði og for­sjá Klængs bisk­ups og allra hér­aðs­manna, og síð­an réðst Þor­lák­ur þang­að, og var þar þá sett kan­oka­set­ur. En þann dag, er Þor­lák­ur fór á brott al­fari úr Kirkju­bœ, þá leiddi al­þýða manna hann úr garði, og þótti öll­um mik­ið fyr­ir að skilj­ast við hann. En er Bjarn­héð­inn kom heim, þá sá hann í rúm Þor­láks og mælti með al­hug mikl­um, sagði það rúm vera, er aldrei mundi síð­an jafn­vel vera skip­að, ef hann skip­aði eigi sjálf­ur. Var sú og Þor­láks um­ræða alla ævi síð­an, er bæði var í gæfa staðn­um og þeim, er fyr­ir réðu, að hann hefði aldrei sínu ráði jafn­vel un­að sem þá sex vet­ur, er hann var í Kirkju­bœ. Og hef­ur mörg stór virð­ing til þess stað­ar lagzt, og var þessi mik­il, af því að það má lík­legt þykja, að þar muni bezt að flestu ver­ið hafa, er hann undi sér bezt.

                    

Þá var Þorlákur vel hálffer­tug­ur, er hann réðst í Ver, og var þar sjö vet­ur6. Kan­oka­vígslu7 tók hann fyrst og var þá í fyrstu príor8 sett­ur yf­ir þá kan­oka, er þar voru, og samdi hann þeg­ar svo fag­ur­lega þeirra líf, að á því lék þá orð vit­urra manna, að þeir hefðu hvergi jafn­góða siði séð, þar er eigi hafði leng­ur reglu­líf sam­an ver­ið en þar. En eft­ir það vígði Klæng­ur bisk­up Þor­lák til ábóta9 í Veri, og tók hann þá af nýju merki­lega stjórn að hafa yf­ir þeim brœðr­um, er hann var yf­ir sett­ur. Hann bauð þeim að halda ástúð og sam­þykki sín á milli og tjáði það fyrir þeim, hve mik­ið í keypt­ist, er Son­ur Guðs seg­ir svo10, að hvar sem sam­an safn­ast tveir eða þrír í hans nafni, að hann mundi þeirra á milli vera. Var hann um allt hinn sið­vand­asti fyr­ir þeirra hönd, en þeim var hvers­vetna vel fengið.

                        

1Þorkell var Geirason, stendur í 9. kafla sög­unn­ar. Hann dó ár­ið 1187, stend­ur í Kon­ungs­annál. Í Land­námu segir frá Gnúpa-Bárði, sem fyrst nam Bárðardal en síðar Fljótshverfi. Einn sona hans hét “Björn, faðir Geira að Lundum, föður Þor­kels læknis, föð­ur Geira, föður Þor­kels kanoka, vinar Þor­láks biskups hins helga; hann setti regúlustað í Þykkvabœ.”

2Kanokasetur: Þau voru reist á reglu Ágúst­ín­us­ar kirkju­föð­ur, sem hann samdi ná­lægt ár­inu 400. Í París hef­ur Þorl­ák­ur vafa­líti­ð haft að­gang að bók með skýr­ing­um á henni eftir Hugon­ius de Sancto Victore. Set­ur Þor­láks var hið fyrsta þeirr­ar teg­und­ar á Ís­landi, venju­lega kall­að klaust­ur. Um svip­að leyti var regla Ágúst­ín­us­ar­kan­oka inn­leidd í Nor­egi: Jarl­inn Erl­ing­ur skakki hafði ár­ið 1164 stofn­að slíkt set­ur á Halsn­øy á Suð­ur-Hörða­landi, og Ey­steinn erki­bisk­up gæti svo snemma hafa stofn­að Kast­ala­klaustr­ið suð­ur á Kon­unga­hellu (sem átti að vísit­era frá Æbel­holt­klaustri í Dan­mörku; ná­kvæmt ár­tal á þeirri klaust­ur­stofn­un samt ekki vit­að), auk þess sem klaustr­ið Helgi­set­ur í Nið­ar­ósi var stofn­að á átt­unda tug ald­ar­inn­ar, jafn­vel strax 1170, og Jóns­klaust­ur í Björg­vin gæti sömu­leið­is ver­ið stofn­að í embætt­is­tíð Ey­steins. – Kan­ok­ar, einn­ig nefnd­ir kórs­brœð­ur, voru marg­ir prests­vígð­ir, og prests­þjón­usta var meg­in­at­riði í starf­inu, þótt inn­an um væru leik­ir brœð­ur. Fleiri grein­ar af Ágúst­ín­us­ar­reglu finn­ast, sem sum­ar líkj­ast meira hefð­bundnu munklífi.

3Þykkvibœr í Álftaveri, sem oft var kall­að Ver.

4Hann kallar… stendur í Lk 14.33 (sic ergo omnis ex vobis qui non renunt­iat omni­bus quae possidet non potest meus esse discipulus).

5Þá: Klaustur í Veri, stendur við ár­ið 1168 í Kon­ungs­ann­ál. Það ár­tal nota flest­ir.

6Sjö vetur: Það á væntanlega við ár­in 1168 – 1175. Þor­lák­ur mun hafa ver­ið kjör­inn bisk­up sum­ar­ið 1174, en í fyrstu fór hann aft­ur til klaust­urs síns.

7Kanokavígsla: Yfirleitt er talað um, að nýtt reglufólk vinni heit sín, sem er há­tíð­leg ath­öfn, þótt ekki falli und­ir helg­ar vígslur.

8Príor: Yfirmaður í klaustri, sem þó er und­ir ábóta sett­ur, og hef­ur Klæng­ur bisk­up í fyrstu far­ið með ábóta­vald, eft­ir því sem þurfti að ákveða meiri hátt­ar mál­efni. Þann­ig varð Þykkva­bœj­ar­klaust­ur frá upp­hafi hluti af hinni ís­lenzku kirkju­skipan.

9Ábóti: Yfirleitt er talað um, að biskup blessi nýj­an ábóta, því að at­höfn­in fell­ur ekki und­ir helg­ar vígsl­ur, þótt hún sé mjög há­tíð­leg og lík­ist í ýmsu bisk­ups­vígslu. Ábóti hef­ur sjálf­stœtt for­ræði í mál­efn­um klaust­urs síns. Í gömlu ábóta­tali er Þor­lák­ur sagð­ur hafa tek­ið við því starfi ár­ið 1170 (DI III, bls. 29), en Finn­ur Jóns­son nefndi ár­tal­ið 1172 (HEI IV, bls. 56).

10Segir svo… stendur í Mt 18.20 (ubi enim sunt duo vel tres congre­gati in nomine meo ibi sum in medio eorum).

                        

Þessi kafli er hluti af Þorláks sögu hinni elztu.

                        

Read Full Post »

                                

Í þann tíma réð fyrir bœ, er í Kirkju­bœ heit­ir, á Síðu, ágæt­ur kenni­mað­ur, sá er Bjarn­héð­inn1 hét og var hinn dýrð­leg­asti mað­ur að al­þýðu dómi. Hann var vit­ur mað­ur og vin­sæll, ör og mjög orð­fœr, lin­ur og lærð­ur vel. En er hvor þeirra frá2 til ann­ars, þeirra Þor­láks, þá gerði hvorn þeirra fús­an til sam­vista við ann­an, og lét Guð það eft­ir þeim, sem hann er van­ur að láta rétt­ar fýsn­ir eft­ir ráð­vönd­um mönn­um, og fór þá að vista­fari Þor­lák­ur í Kirkju­bœ og var þar sex vet­ur í samt3.

                      

Og fengu þeir það þá reynt, er Guð seg­ir svo, að “ok mitt4 er sætt, en byrði mín er létt.” Var þá bæði, að eyk­irn­ir5 voru sterk­ir fengn­ir und­ir ok­ið, en báru þó létt­lega, af því að þeir tóku þá ná­lega ann­an vanda að bera fyr­ir því fólki öllu, er þau hér­uð byggðu, er þeim voru ná­læg. Skiptu þeir og svo við sína und­ir­menn, að þeir tóku af þeim þung­ar byrð­ar, er á þá höfðu lagzt af mót­gerð­um og mein­mæl­um við Guð og góða menn, en eft­ir­læti við fjand­ann, en lögðu á þá í stað­inn Guðs byrð­ar, létt­ar og lin­ar, í hóg­bær­um skrift­um og auð­veld­um yf­ir­bótum.

                  

Drógust þeir merkilega þau nöfn und­ir, er al­mátt­ug­ur Guð kall­aði sína post­ula ljós þessa heims6, því að þeir lýstu líkn­ar­braut til ei­lífra fagn­aða, bæði með ágæt­leg­um kenn­ing­um orða og dýrð­legra dœma. Mátti það sjá á hvers­dags­leg­um þeirra að­ferð­um, að þeir urðu sjald­an af­huga því, er Guð mælti til sinna læri­sveina: “Lýsi ljós yð­ar7 fyr­ir mönn­um,” sagði hann, “að þeir nemi yð­ar að­ferð­ir góð­ar. Dýrk­ið þér Föð­ur yð­ar, þann er á himn­um er.”

                   

Svo sýndist þeim, sem ásamt voru við þá, sem ná­lega væri eng­ar þær stund­ir, er eigi mætti nokk­uð það af þeim hafa, er gœði voru í. Voru þeir og svo sam­lynd­ir og sam­þykk­ir að góðu sem Lúkas seg­ir af Guðs post­ul­um, og svo mátti þykja sem þeir hefðu8 eitt hjarta og eina önd. Fór það þá víða um hér­uð, hversu ólík­ir þeir þóttu flest­um mönn­um vera í sínu fram­ferði. Var það þá þeg­ar vit­urra manna mál, að hvergi myndi vera vænna til að leita en þar, þótt mann þyrfti að ráða til hins mesta vanda á Ís­landi, og var það eigi mis­séð, að því sem síð­ar reynist.

                  

1Bjarnhéðinn prestur Sigurðarson dó árið 1173, stend­ur í Kon­ungs­annál. Bjarn­héð­inn og Ög­mund­ur settu Krists­bú á Keldu­núpi á Síðu, seg­ir í skjali, sem í Ís­lenzku forn­bréfa­safni er tal­ið rit­að ná­lægt 1150 (DI I, bls. 200 – 201).

2Frá er gömul þátíð af sögn­inni fregna.

3Í samt: Samtals.

4Ok mitt… stendur í Mt 11.30 (iugum enim meum suave est et onus meum leve est).

5Eykur: Dráttardýr.

6Ljós þessa heims stendur í Mt 5.14 (vos estis lux mundi).

7Lýsi ljós yðar… stendur í Mt 5.16 (sic luceat lux vestra coram hominibus ut videant vestra bona opera et glori­ficent Patr­em vestr­um qui in caelis est).

8Þeir hefðu… stendur í Post 4.32 (multitudinis autem credent­ium erat cor et anima una).

                      

Þessi kafli er hluti af Þorláks sögu hinni elztu.

                           

Read Full Post »

                         

Þorlákur var þá enn með frænd­um sín­um nokkra vet­ur, og hafði hann þá mjög góð­an fjár­hlut með hönd­um, og sáu það marg­ir vitr­ir menn, þeir hjá hon­um voru, að hann var þá enn til margra hluta stórra og góðra enn bet­ur fall­inn, þeirra er miklu vörð­uðu, en áð­ur hann fór brott.

                   

En er eigi liðu langar stund­ir, þá fýstu frænd­ur Þor­láks, að hann skyldi stað­festa sitt ráð nokk­uð meir en þá var, og vildu þeir helzt, að hann kvong­að­ist. Þótt­ust þeir það sjá mega, að hann [væri] fé­mað­ur og for­sjár­mað­ur mik­ill um flest. En Guðs kristni hef­ur lengi eflzt og magn­azt og vax­ið vandi lærðra manna fyrir boð­orða sak­ir, af því að þá1 var eigi um það mjög vand­að af yf­ir­boð­um, þótt prest­ar fengi ekkna. en nú er það fyr­ir­boð­ið, en þá voru þær kon­ur svo í hér­aði, er bezt­ur kost­ur þótti í vera, er ekkj­ur voru. Nú varð Þor­lák­ur að því ráði eggj­að­ur, og fór hann síð­an og frænd­ur hans með hon­um á bœ þann, er í Háfi2 heit­ir, og ætl­aði að biðja sér ekkju þeirr­ar virðu­legr­ar, er þar bjó, og var þeim tek­ið þar for­kunn­ar vel.

                     

En er þeir tóku svefn eftir góð­an beina á þeirri hinni sömu nótt, þá sýnd­ist Þor­láki í draumi mað­ur göf­ug­leg­ur yf­ir­lits og með sœmi­leg­um3 bún­ingi og mælti: “Hvert haf­ið þér ætl­að hing­að yð­ar er­indi,” seg­ir hann, “ef þér meg­ið ráða?”

              

Þorlákur svaraði: “Eg veit eigi, hverju verða vill,” segir hann.

                   

Sá mælti, er honum sýndist í draum­in­um: “Veit eg,” sagði hann, “að þú ætl­ar þér hér konu að biðja, en þú skalt það mál eigi upp láta koma, af því að það mun eigi ráð­ið verða, og er þér önn­ur brúð­ur miklu æðri hug­uð, og skaltu engr­ar ann­arr­ar fá.”

                    

En er hann hafði þetta mælt, þá hvarf hann frá hon­um að sýn, en Þor­lák­ur vakn­ar, og var hann þá svo horf­inn frá þessu máli, að hann bað sér aldrei konu það­an frá. Fóru þeir á brott, og voru þau góð­ir vin­ir alla ævi síð­an. En þeim þótti nokk­uð kyn­legt, hví hann var svo hverf­lynd­ur í þessu máli, áð­ur þeir vissu, hvað til hafði kom­ið, en þá kunnu allir vel, er vissu.

                    

Eft­ir þenn­an at­burð all­an jafn­sam­an, þá kveikt­ist eigi hug­ur hans til metn­að­ar, þó hon­um væri vitr­að af Guði, að hann ætl­aði hon­um enn æðri for­lög en hans frænd­ur höfðu til hug­að og hann sjálf­ur sam­þykkzt við, held­ur tók4 sig þá því fast­ara í lít­il­læti eft­ir allra hinna beztu manna dœm­um, að því lít­il­lát­ari hafa all­ir ver­ið sem þeir hafa hærra geng­ið í Guðs aug­liti eft­ir heil­ræð­um al­mátt­ugs Guðs, er hann mæl­ir svo, að “hver sá5, er sig læg­ir, mun upp verða haf­inn” og “nem­ið þér6 að mér, því að eg er mjúk­ur og lít­il­lát­ur í hjarta mínu, og mun­uð þér finna hvíld önd­um yð­ar.” Og þá er þann veg hafði eigi lengi fram far­ið, þá lýst­ist brátt yf­ir, hvað hon­um bjó í skapi.

                        

1Þá: Reglum hins almenna kirkju­rétt­ar, að prest­ar skyldu vera ein­hleyp­ir, var ekki enn fram­fylgt í Nor­egi eða á Ís­landi. Ey­steinn Erlends­son tók við Nið­ar­ós­stóli 1160, á svip­uð­um tíma og Þor­lák­ur gisti í Háfi, og í erki­biskups­tíð hans var leit­azt við að breyta þessu í Nor­egi, án þess samt að ganga hart fram. Ókvæni presta er ekki trú­ar­at­riði, held­ur boð kirkj­unn­ar, sem bisk­up­um hef­ur þótt rétt að fram­fylgja með til­liti til að­stœðna. Þótt hjóna­bönd ís­lenzkra presta legð­ust um síð­ir af, héldu ýms­ir þeirra engu að síð­ur fylgi­konu og gerðu við hana sér­stak­an samn­ing, til merk­is um góð­an ásetn­ing, sem var lát­ið líðast.

2Háfur er í Þykkvabœ í Rangárvallasýslu (Djúpár­hrepp­ur), land­náms­jörð og forn kirkju­staður.

3Sœmilegur: Virðulegur.

4Tók: Ásdís Egilsdóttir leiðrétti sem jók.

5Hver sá… stendur í Lk 14.11 (qui se humiliat exaltabitur).

6Nemið þér… stendur í Mt 11.29 (discite a me quia mitis sum et humilis corde et in­venietis requiem anima­bus vestris).

                      

Þessi kafli er hluti af Þorláks sögu hinni elztu.

                            

Read Full Post »

                                     

Þá er Magnús biskup var and­að­ur, þá var nokkra stund bisk­ups­laust1 í Skál­holti, og gerð­ist þá kenni­manna fátt. Varð það þá ráð manna að biðja Björn2 biskup til að gera vígsl­ur á al­þingi, og lét hann að bœn manna, og var þá vígð­ur til prests Þor­lák­ur og marg­ir aðr­ir kenni­menn. En er hann var prest­ur og hann tók sjálf­ur stjórn og for­ráð tíða­gerð­ar3, þá var það brátt auð­sýnt, hve geym­inn og gæt­inn hann mundi að vera um tíð­ir sín­ar og allt það ann­að, er hon­um var á hendi fólg­ið með þeirri vígslu, er hann hafði þá feng­ið. Hann fór þá enn lít­il­lát­lega með sínu ráði sem fyrr og tók sér þá hin fyrstu miss­eri lít­il þing4 fé­söm og hafði þau nokkra stund, og varð hon­um bæði gott til fjár og vin­sælda, af því að ná­lega unni hon­um hug­ást­um hvert barn, er hjá hon­um var. Hafa og þau mörg góð dœmi sótt hinn sæla Þor­lák, er sjald­gæf hafa orð­ið mörg­um öðr­um, að hann var þá bæði senn ung­ur og gam­all, var ung­ur að aldri en gam­all að ráð­um. Hann skrýdd­ist þá enn á nýj­an leik mörg­um mann­kost­um og allra mest þeim, er Davíð kall­aði5 kenni­mann­in­um í skyld­asta lagi, að þeir skyldu skrýð­ast hjálp­ræð­um og rétt­læti, og sýndi hann það síð­an alla sína ævi, að hon­um varð það ná­lega afhent6, þá er til þurfti að taka, og nutu þeir all­ir, er hon­um voru í nánd.

                      

En er því hafði nokkra stund fram far­ið, og hon­um var þá og gott til fjár orð­ið, þá7 fýst­ist hann ut­an­ferð­ar og vildi þá kanna siðu ann­arra góðra manna. Og fór hann af Ís­landi, og er ekki sagt af hans ferð­um, unz hann kom í París8 og var þar í skóla9 svo lengi sem hann þótt­ist þurfa til þess náms, sem hann vildi þar nema. Það­an fór hann til Eng­lands og var í Lin­kolni10 og nam þar enn mik­ið nám og þarf­sæl­legt bæði sér og öðr­um og hafði þá enn mik­ið gott það af sér að miðla í kenn­ing­um sín­um, er hann var áð­ur trautt jafn­vel við bú­inn sem nú.

                       

En er hann hafði sex ár af Ís­landi ver­ið, þá7 vitj­aði hann aft­ur til frænda sinna og fóst­ur­jarð­ar, og urðu hon­um hon­um fegn­ir frænd­ur og fóst­brœð­ur, og móð­ir hans þeim mun fegn­ust og syst­ur sem þeim var mest að­langt, en mest nið­ur­fall í, ef nokk­uð hefði tálm­að hans til­komu. Móð­ir hans fylgdi hon­um í sí­fellu, síð­an er hann kom út, en hann veitti ást­sam­lega ásjá systr­um sín­um, Ragn­heiði, móð­ur Páls, er síð­ar varð bisk­up eft­ir Þor­lák bisk­up, en ann­arri Ey­vöru, og hafði hann mjög langa skap­raun af þeirra hátt­um, er eigi voru eft­ir hans skap­lyndi. En þó kom það til góðra lykta um síð­ir með Guðs misk­unn og góðu til­stilli þeirra manna, er hlut áttu í, og góð­vilja þeirra sjálfra. Hann var þá með sama lít­il­læti eða meira, er hann kom aft­ur úr sinni brott­ferð, sem hann hafði áð­ur ver­ið, en eigi hafði hann sótt skart eða þessa heims skraut sem marg­ur ann­ar, er minni fremd og gæfu sœk­ir í sinni brott­ferð en hann hafði sótt. Það er og margra manna sið­venja, að þeir bú­ast þá vand­leg­ar að vopn­um og klæð­um, er þeir koma út úr för og þeir koma í meira val um slíka hluti en þeim hafði áð­ur til gef­ið. En Þor­lák­ur hafði sér að far­ar­blóma lær­dóm og lít­il­læti og marga góða siði, þá er hann sá í sinni ferð með mörg­um góð­um mönn­um, bisk­up­um og öðr­um lærð­um mönn­um og ráð­vönd­um, þeim er enn eru nær­komn­ir því, sem fyr­ir önd­verðu hef­ur haf­izt Guðs kristni og síð­an magnazt.

                            

1Biskupslaust: Magnús Skálholts­bisk­up fórst 30.9. 1148. Hall­ur Teits­son var kjör­inn eft­ir­mað­ur hans en lézt í vígslu­för 1150 í Utrecht í Hollandi. Klæng­ur Þor­steins­son tók bisk­ups­vígslu í Lundi 6.4. 1152. Hann fór sama sum­ar út til Ís­lands. En leið­in er löng og naumt, að hann hafi kom­ið eða frétt bor­izt af vígslu hans fyr­ir al­þing­is­tím­ann í seinni hluta júní.

2Björn Gilsson var Hólabiskup 1147 – 1162. Vígsl­an á al­þingi var trú­lega ann­að hvort ár­ið 1151 (þá var Klængur kjörinn biskup, með ráði Björns biskups) eða 1152, fyrst orð­ið var fátt kenni­manna og vígja þurfti marga presta. Hafi hún ver­ið síð­ara ár­ið og Þor­lák­ur fœdd­ur á fyrri hluta árs, vígð­ist hann til prests á 20. ald­urs­ári sínu, mjög ung­ur að ár­um, en reynd­ar hefði hann haft að baki eitt­hvað fjög­ur ár sem djákni og vænt­an­lega lær­dóm góð­an og með­mæli höfð­ingj­ans í Odda.

3Tíðagerð: Hér mun einkum eiga við messuhald. En hin­ar eig­in­legu tíða­bœn­ir voru lengst átta á hverj­um sól­ar­hring (matutin­us, laudes. prima, tertia, sexta, nona, vesperae og complet­or­ium). Á þess­um tíma var helgi­hald á Ís­landi víða ófull­kom­ið, bók­mennt­un tak­mörk­uð og sömu­leið­is hand­rita­kost­ur, svo að af­brigði til hins betra hafa vak­ið athygli.

4Þing, síðar sókn. Þingaprestar voru á þess­um tíma oft­ast heim­il­is­menn kirkju­bœnda og ráðn­ir fyr­ir ákveð­ið kaup, gjarn­an 12 merk­ur á ári, þótt bet­ur hafi lík­lega ver­ið gert við Þor­lák, fyrst þing hans voru köll­uð fésöm.

5Davíð kallaði á við Sálmana 132.9 (sacerdotes tui induant­ur iustitiam).

6Afhent: Ásdís Egilsdótt­ir áleit orð­ið aldrei hafa fall­ið nið­ur á und­an þessu orði. Þá merk­ir setn­ing­in, að Þor­lák­ur hafi yf­ir­leitt gætt þess að fara fram með sálu­hjálp­leg­um ráð­um og rétt­læti. Einn­ig mætti hugsa sér brengl í hand­rit­inu eða óal­genga merk­ingu orðs.

7Þá: Þorlákur var sex vetur í ut­an­ferð sinni, síð­an með frænd­um sín­um nokkra vet­ur, næst sex vet­ur í Kirkju­bœ á Síðu, en svo gerð­ist hann ár­ið 1168 fyrsti príor í Þykkva­bœj­ar­klaustri. Sé þetta ná­kvæmt, sigldi hann nokkr­um vetr­um fyr­ir 1156, sem lík­lega hef­ur ver­ið ann­að hvort ár­ið 1153 eða 1154. Hafi hann tek­ið prests­vígslu ár­ið 1151, kem­ur árið 1152 einn­ig til álita. Eftir þessu kom Þor­lák­ur trú­lega heim ann­að hvort ár­ið 1159 eða 1160.

8París: Sæmundur fróði er helzt tal­inn hafa lært í Frakk­landi, jafn­vel í París, þótt ekki sé þetta full­víst. Séra Eyj­ólf­ur son­ur hans er öðr­um lík­legri til að hafa styrkt Þor­lák til ut­an­far­ar og ver­ið með hon­um í ráð­um. En slík tengsl þurfa ekki að hafa ráð­ið för Þor­láks, sem naum­ast sigldi beina leið til Frakk­lands. Hafi hann fyrst bor­ið nið­ur hjá kirkj­unn­ar mönn­um í Nor­egi, gætu þeir hafa hvatt hann til að sœkja nám í París og rit­að með hon­um kynn­ing­ar­bréf. Þann­ig er Ey­steinn Erlends­son síð­ar erki­bisk­up oft­ast tal­inn hafa lært í Viktors­klaustr­inu þar og jafn­vel einn­ig í Lin­coln í Eng­landi. Hann mun hafa far­ið til náms skömmu eft­ir 1140. Ei­rík­ur Ívars­son síð­ar erki­bisk­up lærði í þessu sama Viktors­klaustri og hef­ur siglt til náms síð­ar en Ey­steinn. Þor­lák­ur átti eft­ir að eiga far­sælt sam­starf við báða þessa menn. Oft er tal­að um end­ur­reisn á tólftu öld, og París var ein helzta mið­stöð hennar.

9Skóli: Nokkrir skólar í París koma til álita, og Þor­lák­ur get­ur sem bezt hafa num­ið við fleiri en einn þeirra. Hann hafði þeg­ar að baki all­ar þær vígsl­ur og sjálf­sagt tals­vert af því námi, sem óreynd­ari skóla­pilt­ar sótt­ust eft­ir, og hef­ur get­að hag­að fram­halds­námi sínu eft­ir því. – Merk­ur skóli var í Viktors­klaustr­inu, sem var form­lega stofn­að ár­ið 1114. Það heyrði und­ir reglu Ágúst­ín­us­ar­kan­oka og hafði á þess­um tíma orð fyr­ir sið­bót­ar­við­leitni. Hvort tveggja fell­ur það ágæt­lega sam­an við síð­ari störf Þor­láks. Ábóti frá stofn­un klaust­urs­ins allt til árs­ins 1155 hét Gild­uin, en næstu sex ár gegndi starf­inu hinn bless­aði Achard, síð­ar bisk­up í Avranc­es. Einn helzti lær­dóms­mað­ur í klaustr­inu um mið­bik tólftu ald­ar hét Richard. – Dóm­kirkju­skól­an­um í París stjórn­aði hins veg­ar Petrus Lom­bard­us, sem ár­ið 1159 varð bisk­up í borg­inni. Hann rit­aði Sententi­ar­um quatuor libri, eitt kunn­asta guð­frœði­rit á mið­öld­um, sem ekki færri en þrír heil­ag­ir kirkju­frœð­ar­ar sömdu skýr­ing­ar við. – Einn­ig skyldi nefna skól­ann í Geneviève­klaustr­inu, sem var kan­oka­set­ur, en þar mun Absalon síð­ar erki­bisk­up í Lundi hafa lært, og einn brœðr­anna var Vil­hjálm­ur [Guille­aume] síð­ar ábóti í Æbel­holt á Sjá­landi.

10Lincoln: Borgin var biskups­set­ur. Á ár­un­um 1148 – 1166 gegndi því embætti Robert de Chesney, at­hafna­sam­ur mað­ur og þótti standa fram­ar­lega í kirkju­lög­um. Hann hafði ver­ið kan­oki og hafði marga lærða menn í þjón­ustu sinni.

                   

Þessi kafli er hluti af Þorláks sögu hinni elztu.

                            

Read Full Post »

Older Posts »