Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for the ‘Postular’ Category

 

Postularnir kusu Matthías til að fylla tölu sína, í stað svikarans, og frá því segir í Postulasögunni. Matthías er talinn hafa boðað kristni í Júdeu, en sumar sagnir nefna fleiri lönd. Hann er víða álitinn hafa liðið píslarvætti. Messudagur hans er í seinni tíð 14. maí.

 

Catholic Online

Per Einar Odden @ Den Katolske Kirke i Norge

Wikipedia (enska)

Ökumenisches Heiligenlexikon

Auglýsingar

Read Full Post »

 

Jakob Alfeusson var einn af postulunum, sem Jesús Kristur útvaldi. Hann á messudag 3. maí.

 

Per Einar Odden @ Den Katolske Kirke i Norge

Wikipedia (enska)

Ökumenisches Heiligenlexikon

 

Read Full Post »

    

Júdas Taddeus

    

Matteus og Markús guðspjallamenn nafn­greindu Tadd­eus í upp­taln­ingu á post­ul­un­um (Mt 10.­3; Mk 3.­18). Í hinni latn­esku Vúlgötu er not­uð orð­mynd­in Thadd­aeus (sjá hér og hér). Lúkas guð­spjalla­mað­ur hafði ekki það nafn en taldi hins veg­ar Júdas Jakobs­son (Lk 6.­16; P 1.­13). Lít­ill vafi þyk­ir, að all­ir eigi við sama post­ula, því að þann­ig fyll­ist tala þeirra. Í sum­um út­gáf­um af Matt­eus­ar guð­spjalli stend­ur Labb­æus sem bar nafn­ið Tadd­æus (sjá til dœmis hér og hér). Eins er í riti frá 4. öld, sem nefn­ist Con­stitut­ion­es Apostol­icæ (14. kafli, 6. bók). Og í rúss­nesk-­orþó­doxu kirkj­unni er mað­ur­inn nefnd­ur heil­ag­ur Matfiy. Vís­ast þótti þurfa að nota ann­að nafn en Júdas, svo að hon­um yrði ekki rugl­að sam­an við svik­ar­ann Júdas Ískaríot.

Hjá Jóhannesi guðspjalla­manni seg­ir frá síð­ustu kvöld­mál­tíð­inni. Krist­ur mælti: …Inn­an skamms mun heim­ur­inn ekki sjá mig fram­ar, en þér mun­uð sjá mig, því að eg lifi og þér mun­uð lifa. Á þeim degi mun­uð þér kom­ast að raun um, að eg er í föð­ur mín­um, og þér í mér, og eg í yð­ur. Sá sem hef­ir mín boð­orð og held­ur þau, hann er sá sem elsk­ar mig. En sá sem elsk­ar mig, mun verða elsk­að­ur af föð­ur mín­um, og eg mun elska hann og sjálf­ur birt­ast hon­um. Júdas – ekki Júdas Ískar­íot – seg­ir við hann: Herra, hvern­ig stend­ur á því, að þú vilt birt­ast oss og ekki heim­in­um? Jesús svar­aði og sagði við hann: Hver sem elsk­ar mig, mun varð­veita mitt orð, og fað­ir minn mun elska hann, og til hans mun­um við koma og gjöra okk­ur bú­stað hjá hon­um. Sá sem ekki elsk­ar mig, hann varð­veit­ir ekki mín orð, og það orð, sem þér heyr­ið, er ekki mitt, held­ur föð­ur­ins, sem sendi mig (Jh 14.19-­24). Ágúst­ín­us kirkju­frœð­ari [f. 354, d. 430] skýrði út þessi vers og sagði, að hér ætti við hinn heil­aga Júdas, sem jafn­framt væri höf­und­ur bréfs­ins í Nýja Testa­ment­inu (traktat 76). Ekki finn­ast aðr­ir en post­ul­inn, sem ekki sveik, kall­að­ir Júdas í skrám um helga menn.

Hieronymus kirkjufrœðari [f. 342, d. 420] sagði í 4. kafla De viris illustri­bus, að marg­ir hafi hafn­að Bréfi Júdas­ar, því að þar [14.-15. vers] sé vitn­að í Bók Enoks [apó­krýft rit úr Gyð­ing­dómi], en samt hafi bréf­ið með langri notk­un vax­ið í áliti og telj­ist nú með Heil­agri Ritningu.

Bréf Júdasar hefst á orð­un­um: Júdas, þjónn Jesú Krists, bróð­ir Jakobs, heils­ar hinum köll­uðu… Ef til vill var höf­und­ur ekki nafn­kunn­ur mað­ur, fyrst hann til­tók bróð­ur sinn, eins og til að gera grein fyrir sjálf­um sér. Eða höfðu þeir starf­að sam­an? Var Jakob dá­inn? Og hver var hann? Marg­ir þeir gömlu sögðu, að ætti við frænda Jesú Krists (Mt 13.55; Mk 6.3), sem hafi ver­ið bisk­up í Jerú­sal­em og Bréf Jakobs sé kennt við (sjá De viris illustri­bus, 2. kafli), sami mað­ur og post­ul­inn Jakob Alfeus­son (Jakob Minor). Bisk­up­inn í Jerú­sal­em, sem var auk­nefnd­ur hinn rétt­láti, leið písl­ar­vætti á ár­un­um 60-64.

Sumir hafna því, að Bréf Júdas­ar geti ver­ið rit­að á tíma post­ul­anna. Eink­um er í því sam­bandi vitn­að í 17.-18. vers þess, sem segja: En þið elsk­uðu, minn­ist þeirra orða, sem post­ul­ar Drott­ins vors Jesú Krists hafa áð­ur tal­að. Þeir sögðu við ykk­ur: “Á síð­asta tíma munu koma spott­ar­ar, sem stjórn­ast af sín­um eig­in óguð­legu girnd­um.” Einn­ig er sagt, að text­ar í Bréfi Júdas­ar og Síð­ara Pét­urs­bréfi séu stund­um svip­að­ir. Hug­mynd­in að baki slík­um bolla­legg­ing­um er sú, að Júdas post­uli hafi ekki rit­að bréf­ið í Nýja testa­ment­inu. En þær leiða ekk­ert í ljós, sem heil­ag­ur Ágúst­ín­us mátti ekki vita.

Ekki er vanda­laust að segja frá störf­um Júdas­ar post­ula á kristni­boðs­akr­in­um: Abgar hét kon­ung­ur [tóp­ark] í borg­inni Edessa í Mesó­pótam­íu. Hann heyrði sagt frá Jesú Kristi og skrif­aði hon­um, bauð hon­um að koma til sín og bað hann að lækna sig. Krist­ur svar­aði, að ann­ar yrði send­ur í sinn stað. Bréf­in er að finna í 1. bók af Kirkju­sögu Euseb­ius­ar [f. 260, d. 340] og víð­ar. Svo kom þessi sendi­mað­ur til Edessa og náði ágæt­um árangri, sem finnst vand­lega sagt frá. Hann á að hafa verið úr hópi hinna sjö­tíu en er einn­ig kall­að­ur post­uli, ým­ist nefnd­ur Thadd­aeus eða Addaï, sem hljóm­ar eins og sama nafn­ið. Á með­al elztu heim­ilda má nefna rit­in Verk Thadd­aeus­ar (ca 250), Kenn­ing­ar Addaï (ca 400, sýr­lenzkt) og Saga Armen­íu (eft­ir Móses frá Chorene, d. um 490). En skoð­an­ir eru skipt­ar: Voru til dœm­is tveir Thadd­aeus­ar í læri­sveina­hópn­um, ann­ar post­uli og hinn einn af sjötíu­menn­ing­un­um? Var Addaï sami mað­ur og hinn heil­agi kristni­boði, sem ásamt Mari hef­ur messu­dag­inn 5. ágúst og helzt er tal­inn hafa lif­að á 2. öld? Eru þess­ar fornu heim­ild­ir sann­ar og óbrengl­að­ar? Hinu síð­asta virð­ist Euseb­ius svara ját­andi. Og Júdas Tadd­eus er að minnsta kosti í mörg­um post­ula­sög­um forn­um sagð­ur hafa far­ið til Mesó­pótam­íu og boð­að kristni.

Einnig segir saga [sem á að vera frá 5. öld eða eldri], að Júdas Tadd­eus og Símon vand­læt­ari post­uli, sem kom­inn var frá Egypta­landi, hafi far­ið í kristni­boðs­ferð til Persíu. Þeir hittu fyr­ir galdra­karla, sem hétu Zaroes og Arfax­at [þeir voru upp­runn­ir á Blá­landi en héld­ust þar ekki við, þeg­ar Matt­eus guð­spjalla­mað­ur kom, eft­ir því sem í Skarðs­bók seg­ir]. Þeir sendu eit­ur­slöng­ur á móti post­ul­un­um, sem þá tóku úr pússi sín­um kóbra­slöng­ur og högg­orma, sem bitu þessa karla. Nú hóf­ust mikl­ir kvein­staf­ir, og postul­arn­ir sáu aum­ur á þeim og létu slöng­ur sín­ar sjúga eitr­ið úr bit­sár­un­um. Áfram héldu post­ul­ar ferð sinni og komu að heiðnu must­eri, sem þeir hugð­ust eyði­leggja. Þá dreif að æva­reið­an mann­söfn­uð, und­ir for­ystu fyrr­nefndra galdra­manna, en for­sjón­in sendi eld­ing­ar á móti þeim, svo að all­ur hóp­ur­inn beið bana. Nú sá Persa­kóng­ur það ráð bezt að láta skír­ast, ásamt öll­um lands­lýðn­um. En samt fór svo, að post­ul­arn­ir liðu písl­ar­vætti í þessu landi: Júdas Tadd­eus var dauð­rot­að­ur með kylfu eða kúlu og Símon sag­að­ur í tvennt, sem á að hafa gerzt ná­lægt ár­inu 70. Fleiri af­brigði eru af sög­unni. Þótt þetta sé nokk­uð þjóð­sagna­kennt, eru að vísu oft sann­ur kjarni og allegor­íur í sögn­um, og krafta­verk­um skal ekki afneita.

Ætt gæti verið frá Júdasi, og í einni helgi­sögn er hann sagð­ur vera brúð­gum­inn í Kana. Heil­ag­ur Hege­sipp­us [2. öld] sagði, að Júdas frændi Krists hefði ver­ið afi tveggja manna, sem born­ir voru sök­um og fœrð­ir fyr­ir Domit­ian­us keis­ara [d. 96]. Hann spurði, hvort þeir væru niðj­ar Davíðs, sem þeir kváð­ust vera. Síð­an spurði hann, hvað þeir ættu í föstu og lausu. Þeir áttu á milli sín 25 ekr­ur lands, sem þeir rækt­uðu sjálf­ir, til af sjá fyr­ir sér og eiga fyr­ir skött­um. Til sann­inda­merk­is sýndu þeir nú sigg­grón­ar hend­ur sín­ar. Næst spurði keis­ar­inn um Krist og kon­ungs­ríki hans, hvern­ig því væri hátt­að og hvar og hve­nær það mundi birt­ast. Þeir sögðu, að það væri ekki af þess­um heimi eða neins stað­ar á jörðu, held­ur hjá engl­un­um á himn­um, og við endi heims­ins kœmi Hann til að dœma lif­end­ur og dauða og launa hverj­um manni eft­ir fram­ferði hans. Dom­it­ian­us felldi nú mál­ið nið­ur, því að þetta væri næsta lít­il­mót­leg upp­reisn, og lét auk held­ur lok­ið of­sókn­um gegn kristn­um mönn­um. Þetta stend­ur í Kirkju­sögu Euseb­ius­ar, 20. kafla í 3. bók.

Sagt er, að Júdas hafi lengi ver­ið gleymdi post­ul­inn, því að hann bar sama nafn og svik­ar­inn Ískar­íot. Á nokkr­um post­ula­mynd­um hafi Páll ein­fald­lega ver­ið mál­að­ur í hans stað. Að fornu hafi kirkj­ur naum­ast ver­ið helg­að­ar Júdasi Tadd­eusi. Fyrst á 18. öld hafi þetta snú­izt við, því að post­ul­inn var svo góð­ur til áheita í vanda­söm­­um og von­laus­um mál­um, þeg­ar önn­ur úr­ræði voru ef til vill þrot­in. Ým­is sjúkra­hús eru helg­uð þess­um postula.

Helgur dómur postulanna Júdasar og Símon­ar var fœrð­ur til Róm­ar á sjö­undu öld. Hann er að finna í Pét­urs­kirkj­unni. Og í Reims og Toul­ouse í Frakk­landi eiga einn­ig að vera brot af bein­um þeirra. En sögn seg­ir, að helg­ur dóm­ur Júdas­ar hafi ver­ið varð­veitt­ur í klaustri, sem stóð á eyju í norð­an­verðu stöðu­vatn­inu Issyk-Kul, sem er í Kyrg­yzst­an, og svo ætla sum­ir, að það­an hafi hann ver­ið flutt­ur á örugg­ari stað í Pamir­fjöll­um, og er þá enn eft­ir að botna þetta: hvar þau bein eru nú eða hvað um þau varð. En reynd­ar dreifð­ust helg­ir dóm­ar oft í marg­ar kirkj­ur. Ein frá­sögn þarf því ekki að úti­loka aðra.

Á helgimyndum er Júdas oft sýnd­ur með bók, auð­kenni post­ul­anna, og kylfu eða kúlu, jafn­vel exi, til að minn­ast písl­ar­vætt­is hans, og með fisk, ár­ar eða akk­eri, eins og væri hann fiski­mað­ur, eða eld­tung­ur um höf­uð­ið, tákn hins Heil­aga Anda. Post­ul­arn­ir Júdas og Símon eiga í róm­versku kirkj­unni sam­eig­in­leg­an messu­dag 28. októ­ber [helg­ur dóm­ur flutt­ur til Róm­ar?] en í orþó­doxu kirkj­un­um 1. júlí [dauða­dag­ur?], auk held­ur á Júdas þar eystra messu­dag­inn 19. júní. Hann og post­ul­inn Bart­ólóm­eus eru vernd­ar­dýr­ling­ar kirkj­unn­ar í Arm­en­íu og tald­ir hafa boð­að þar kristni.

Í Martyrologium Romanum stendur við 28. október: “In Perside natalis beatorum Apostolorum Simonis Chananæi, et Thaddæi, qui et Iudas dicitur. Ex ipsis autem Simon in Ægypto, Thaddæus in Mesopotamia Evangelium prædicavit; deinde, in Persidem simul ingressi, ibi, cum innumeram gentis illius multitudinem Christo subdidissent, martyrium consummarunt.”

  

    

Benedictus PP. XVI (ávarp 11. október 2006)

Camerlynck, Achille @ The Catholic Encyclopedia (1910)

Catholic Online

Duffy, Patrick @ Catholic Ireland

Ferris, Tommy @ The Twelve Apostles of the Catholic Church

Jones, Terry @ Star Quest Production Network

Kathpedia

Mühlek, Karl @ Biographisch-Biblio­graphisch­es Kirchen­lexikon

Odden, Per Einar @ Den Katolske Kirke i Norge

Santi beati e testimoni

Siervas de los Corazones Traspasados de Jesús y María

Wikipedia (enska)

Wikipédia (franska)

Wikipedia (ítalska)

Wikipédia (portúgalska)

Wikipedia (spænska)

Wikipedia (þýzka)

Ökumenisches Heiligenlexikon

    

  

Read Full Post »

   

Barnabas (18. öld, Milano)

    

Postularnir völdu mann í hóp sinn, í stað­inn fyr­ir svik­ar­ann: Og þeir tóku til tvo, Jósef, kall­að­an Bar­sabbas, að auk­nefni Júst­us, og Matthías; og þeir báð­ust fyr­ir og sögðu: Drott­inn, þú sem þekk­ir hjörtu allra, sýn þú, hvorn af þess­um tveim­ur þú hef­ir val­ið til að taka sæti þjón­ustu þess­ar­ar og post­ula­dóms, er Júdas yf­ir­gaf, til að fara til síns eig­in stað­ar. Og þeir hlut­uðu um þá, og hlut­ur­inn féll á Matthías, og var hann tal­inn með post­ul­un­um ell­efu (P 1.23-26). Svona er Biblíu­text­inn allt­af hafð­ur, nema til er fornt hand­rit, sem kall­ast Codex Bezae, of­ur­lít­ið frá­brugð­ið: Þar seg­ir ekki Bar­sabbas, held­ur Bar­nabas. Víð­ar í þessu hand­riti er smá­leg­ur orða­mun­ur, sem varð­ar Barnabas.

Jósef levíti frá Kýpur, sem post­ul­arn­ir köll­uðu Bar­nabas, það þýð­ir hugg­un­ar son­ur, átti sáð­land og seldi, kom með verð­ið og lagði það fyr­ir fœt­ur post­ul­anna (P 4.36-37). Eft­ir at­burða­röð í Post­ula­sög­unni, gerð­ist þetta í Jerú­sal­em skömmu eft­ir hinn fyrsta hvíta­sunnu­dag, og fleiri menn seldu eig­ur sín­ar, svo að eng­inn í söfn­uð­in­um yrði þurf­andi. Ef til vill var Jósef gef­ið heit­ið Bar­nabas í við­ur­kenn­ing­ar­skyni eða til að­grein­ing­ar. Hann átti frænd­fólk í Jerú­salem og gæti sjálf­ur hafa ver­ið bú­sett­ur þar, sáð­land hans jafn­vel í ná­grenni borg­ar­innar.

Sumir ætla, að Jósef hafi ver­ið kom­ið til náms í Jerú­sal­em hjá Gam­al­íel, sem kenndi Sál lög­mál Gyð­inga (P 22.3). Þetta er ekki vit­að [þótt áhuga­vert sé að íhuga heim­ild­ir með þeirri vinnu­til­gátu]. Slík frœðsla tók venju­lega þrjú eða fjög­ur ár.

Þremur árum eftir að Drott­inn birt­ist Sál, fór hann frá Dam­ask­us í Sýr­landi (Gl 1.18). Þá er hann kom til Jerú­sal­em, reyndi hann að sam­laga sig læri­svein­un­um, en þeir hrædd­ust hann all­ir og trúðu ekki, að hann væri læri­sveinn. En Bar­nabas tók hann að sér, fór með hann til post­ul­anna og skýrði þeim frá, hvern­ig hann hefði séð Drott­in á veg­in­um, hvað hann hefði sagt við hann og hversu ein­arð­lega hann hefði tal­að í Jesú nafni í Dam­ask­us. Dvald­ist hann nú með þeim í Jerú­sal­em og tal­aði ein­arð­lega í nafni Drott­ins (P 9.26-28). Jó­hann­es Krysostomos kirkju­frœð­ari [d. 407] lagði út af text­an­um: “Mér virð­ist, að Bar­nabas hafi ver­ið gam­all vin­ur hans” (prédik­un 21). Sál var hjá Pétri og hitti ekki sjálf­ur hina post­ul­ana (Gl 1.19), þótt þeir hafi vafa­laust vit­að allt um ferð hans. Eft­ir 15 daga komst upp um sam­særi Gyð­inga, sem hugð­ust drepa Sál, og fór hann þá úr borg­inni. Síð­an dvaldi hann all­mörg ár í heima­borg sinni, Tarsus í Cilicíu [nærri suð­aust­ur­strönd Tyrklands].

Þeir, sem dreifzt höfðu vegna of­sókn­ar­inn­ar, sem varð út af Stef­áni, fóru allt til Fön­ikíu, Kýp­ur og Anti­okkíu [þá höf­uð­borg­in í Sýr­landi, síð­ar köll­uð Antakya]. En Gyð­ing­um ein­um fluttu þeir orð­ið. Nokkr­ir þeirra voru frá Kýp­ur og Cyrene [borg í Libýu í Norð­ur-Afr­íku], og er þeir komu til Anti­okkíu, tóku þeir einn­ig að tala til Grikkja og boða þeim fagn­að­ar­er­ind­ið um Drott­in Jesúm. Og hönd Drott­ins var með þeim, og mik­ill fjöldi tók trú og sneri sér til Drott­ins. – Og fregn­in um þá barst til eyrna safn­að­ar­ins í Jerú­sal­em, og þeir sendu Bar­nabas til Anti­okkíu. Þeg­ar hann kom og sá verk Guðs náð­ar, gladd­ist hann, og hann áminnti alla um að halda sér fast við Drott­in af öllu hjarta. Því hann var góð­ur mað­ur, full­ur af heil­ögum anda og trú. Og mik­ill fjöldi manna gafst Drottni. Þá fór hann til Tars­us að leita Sál uppi. Þeg­ar hann hafði fund­ið hann, fór hann með hann til Anti­okkíu. Þeir voru síð­an sam­an heilt ár í söfn­uð­in­um og kenndu fjölda fólks. Í Anti­okkíu voru læri­svein­arn­ir fyrst kall­að­ir kristn­ir (P 11.19-26). Anti­okkía var á þeim tíma þriðja fjöl­menn­asta borg í Róma­veldi, íbúa­fjöldi á 2. öld áætl­að­ur 500.000, auk 300.000 manna byggð­ar í ná­grenni henn­ar, og verk­efni Bar­nabas­ar þess vegna af­ger­andi fyr­ir út­breiðslu kristn­inn­ar. Nú gafst kost­ur að reyna Sál, hvort hon­um væri treyst­andi og gagn af honum.

Í stjórnartíð Kládíusar keis­ara 41-54 komu spá­menn frá Jerú­sal­em til Anti­okkíu. Einn þeirra hét Agabus og sagði fyr­ir mikla hung­urs­neyð (P 11.28, sbr. 21.10). En læri­svein­arn­ir sam­þykktu þá, að hver þeirra skyldi eft­ir efn­um senda nokk­uð til hjálp­ar brœðr­un­um, sem bjuggu í Júdeu. Þetta gjörðu þeir og sendu það til öld­ung­anna með þeim Bar­nabas og Sál (P 11.29-30). Nú er í Post­ula­sög­unni nefnd­ur Heródes Agrippa kon­ung­ur, sem varð orm­ét­inn og dó snögg­lega árið 44. En orð Guðs efld­ist og breidd­ist út. Bar­nabas og Sál sneru aft­ur frá Jerú­sal­em að loknu er­indi sínu og tóku með sér Jó­hann­es, öðru nafni Mark­ús (P 12.24-25). Helzt er að sjá, að sendi­för þeirra og dauði kon­ungs hafi orð­ið nær jafn­snemma [Páll virð­ist sleppa þessu ferða­lagi í Gl 2]. Mark­ús var frændi Bar­nabas­ar (Kól 4.10), son­ur Maríu í Jerú­sal­em (P 12.12). Í þess­um texta er fyrst tal­að um öld­unga í kirkj­unni. Hung­urs­neyð varð í Jerú­sal­em, lík­lega ár­ið 49 eða litlu fyrr [þang­að kom Helena drottn­ing af Adia­bene og gekkst fyrir út­hlut­un á gjafa­korni frá Egypta­landi].

Í söfnuðinum í Antiokkíu voru spá­menn og kenn­ar­ar. Þar voru þeir Bar­nabas, Símeon, nefnd­ur Niger [róm­verskt ætt­ar­nafn, frek­ar en ákenn­ing um svart­an hör­unds­lit, ef til vill leys­ingi], Lucius frá Cyrene, Manaen, sam­fóstri [syntrophos, fleiri þýð­ing­ar mögu­leg­ar: skóla­bróð­ir, fé­lagi] Heródes­ar fjórð­ungs­stjóra, og Sál. Eitt sinn er þeir voru að þjóna Drottni og föst­uðu, sagði Heil­ag­ur Andi: “Skilj­ið frá mér til handa þá Bar­nabas og Sál til þess verks, sem ég hef kall­að þá til.” – Síð­an föst­uðu þeir og báð­ust fyr­ir, lögðu hend­ur yf­ir þá og létu þá fara. – Þeir fóru nú, send­ir af Heil­ög­um Anda, til Seleucíu [hafn­ar­borg Anti­okkíu] og sigldu það­an til Kýp­ur. Þeg­ar þeir voru komn­ir til Salamis [hafn­ar­borg, stœrsta borg­in á eyj­unni], boð­uðu þeir orð Guðs í sam­kundu­hús­um Gyð­inga. Höfðu þeir og Jó­hann­es [Mark­ús] til að­stoð­ar (P 13.1-5). Þeir fóru um alla eyj­una, allt til borg­ar­inn­ar Paphos á vest­ur­strönd henn­ar, og tókst þar að kristna land­stjór­ann [Sergius Paulus]. Bar­nabas er álit­inn stofn­andi kirkj­unn­ar á Kýp­ur, því að hann var heima­mað­ur og vitj­aði eyj­ar­inn­ar aftur.

Þeir sigldu síðan og komu til Pam­phylíu á suð­ur­strönd Litlu-Asíu. Í borg­inni Perga skildu leið­ir, því að Mark­ús fór til Jerú­sal­em, að óvilja Páls. Bar­nabas og Páll boð­uðu nú kristni í borg­inni Anti­okkíu í Pisidia [langt inni í Litlu-Asíu, þar var síð­ar bœr­inn Yalvaz í Tyrk­landi], við góð­ar und­ir­tekt­ir heið­ingj­anna. En Gyð­ing­ar æstu upp guð­rækn­ar hefð­ar­kon­ur og fyr­ir­menn borg­ar­inn­ar og vöktu of­sókn gegn Páli og Bar­nabas og ráku þá burt úr byggð­um sín­um. En þeir hristu dust­ið af fót­um sér móti þeim og fóru til Icon­íum [í hér­að­inu Lyca­onía; þar var síð­ar borg­in Konya í Tyrk­landi]. En læri­svein­arn­ir voru fyllt­ir fögn­uði og Heil­ög­um Anda (P 13.50-52). Þeir boð­uðu síð­an kristni í Icon­íum, varð tals­vert ágengt en urðu að flýja, þeg­ar heið­ingj­ar og Gyð­ing­ar gerðu sam­blást­ur um að mis­þyrma þeim og grýta þá.

Næst fóru þeir til nágranna­borg­ar­inn­ar Lýstru. Þar var lam­að­ur mað­ur, sem fékk mátt í fœt­urna: Múg­ur­inn sá, hvað Páll hafði gjört, og tók að hrópa á lyka­ónsku: “Guð­irn­ir eru í manna líki stign­ir nið­ur til vor.” Köll­uðu þeir Bar­nabas Seif en Pál Hermes, því að hann hafði orð fyrir þeim. En prest­ur í hofi Seifs ut­an borg­ar kom með naut og kransa að borg­ar­hlið­un­um og vildi fœra fórn­ir ásamt fólk­inu. – Þeg­ar post­ul­arn­ir, Bar­nabas og Páll, heyrðu þetta, rifu þeir klæði sín, stukku inn í mann­þröng­ina og hróp­uðu: “Menn, hví gjör­ið þér þetta? Menn er­um vér sem þér, yð­ar lík­ar, og flytj­um yð­ur það fagn­að­ar­boð, að þér skul­uð hverfa frá þess­um fá­nýtu goð­um til lif­anda Guðs, sem skap­aði him­in, jörð og haf og allt, sem í þeim er” (P 14.11-15). Bar­nabas var vel að manni og öld­ur­mann­leg­ur, álíta marg­ir, fyrst heið­ingj­arn­ir gátu villzt á hon­um og sjálf­um Seifi, en Hermes var son­ur þess goða­höfð­ingja. Páll hef­ur ver­ið vel máli far­inn og vís­ast góð­ur í tungu­mál­um, að hann skyldi hafa orð fyr­ir þeim. Auk þess var hann nærri átt­hög­um sín­um. En Jó­hann­es Krysostomos kirkju­frœð­ari áleit Bar­nabas hafa gef­ið Páli tœki­fœri til að hafa orð fyr­ir þeim, eins og Jó­hann­es dró sig í hlé fyr­ir Pétri, “og þó var Bar­nabas í meiri met­um en Páll: að sönnu, en þeir litu að­eins á hinn sam­eig­in­lega ávinn­ing” (pré­dik­un 29). Í forn­öld rifu sum­ir klæði sín, þeg­ar yfir þá gekk, sem í hópi Gyð­inga átti sér­stak­lega við guðlast.

Páll var grýttur í Lýstru og slasaðist. Þeir félagar urðu að hverfa þaðan og fóru til nágranna­borg­ar­inn­ar Derbe. Eft­ir að hafa boð­að þar kristni, héldu þeir sömu leið til baka og skipu­lögðu söfn­uð­ina í hverri borg. Frá Perga fóru þeir til Attalíu [hafn­ar­borg á strönd Pam­phylíu, síð­ar Adalia] og sigldu það­an til Anti­okkíu [í Sýr­landi], en þar höfðu þeir ver­ið fald­ir náð Guðs til þess verks, sem þeir höfðu nú fulln­að. – Þeg­ar þeir voru þang­að komn­ir, stefndu þeir sam­an söfn­uð­in­um og greindu frá, hversu mik­ið Guð hafði lát­ið þá gjöra og að hann hefði upp lok­ið dyr­um trú­ar­inn­ar fyr­ir heið­ingj­um. Dvöld­ust þeir nú all­lengi hjá læri­svein­un­um (P 14.26-28). Að­ferð Bar­nabas­ar og Páls við kristni­boð­ið er í mörgu at­hygl­is­verð: að vera sam­an að verki, fara hratt yf­ir og fylgja síð­an árangr­in­um eft­ir skömmu síð­ar. Þeir hafa vafa­lít­ið byggt á reynslu frá Anti­okkíu og ná­granna­byggð­um henn­ar. Bréf Páls til Gal­ata­manna var rit­að hin­um nýju söfn­uð­um í Litlu-Asíu [ár­ið 54, áleit John L. Mc­Kenzie SJ í Dictionary of the Bible; óvíst hven­ær, segja sum­ir].

Þá komu menn sunnan frá Júdeu og kenndu brœðr­un­um svo: “Eigi get­ið þér hólpn­ir orð­ið, nema þér lát­ið um­sker­ast að sið Móse.” Varð mik­il mis­klíð og þræta milli þeirra og Páls og Bar­nabas­ar, og réðu menn af, að Páll og Bar­nabas fœru á fund post­ul­anna og öld­ung­anna upp til Jerú­sal­em vegna þessa ágrein­ings. – Söfn­uð­ur­inn bjó síð­an ferð þeirra, og fóru þeir um Fön­ik­íu og Sam­ar­íu og sögðu frá aft­ur­hvarfi heið­ingj­anna og vöktu mik­inn fögn­uð með­al allra brœðr­anna (P 15.1-3). Þeir komu nú til Jerú­sal­em, og var þá hald­inn post­ula­fund­ur­inn svo­nefndi, lík­lega á ár­un­um 49-51: Fall­ið var frá að um­skera menn, sem áð­ur voru heiðn­ir, sem varð­aði miklu fyr­ir út­breiðslu kristn­inn­ar. En í ljós var leitt, að Guð hafði einn­ig gef­ið hin­um óum­skornu kristnu mönn­um Heil­ag­an Anda, sem Pét­ur taldi út­kljá þetta mál. Páll rit­aði [og var í þeim hluta bréfs­ins að rekja fer­il sjálfs sín, þess vegna ein­tölu­mynd for­nafns­ins]: Og er þeir höfðu kom­izt að raun um, hví­lík náð mér var veitt, þá réttu þeir Jakob, Kefas og Jó­hann­es, sem álitn­ir voru mátt­ar­stólp­arn­ir, mér og Bar­nabasi hönd sína til brœðra­lags: Við skyld­um fara til heið­ingj­anna, en þeir til hinna um­skornu. Það eitt var til skil­ið, að við skyld­um minn­ast hinna fá­tœku, og ein­mitt þetta hef ég líka kapp­kost­að að gjöra (Gl 2.9-10). Þeir fóru svo til baka og höfðu með sér bréf­leg­an úr­skurð og votta frá Jerú­sal­em, til að stað­festa allt þetta.

En Páll og Barnabas héldu kyrru fyr­ir í Anti­okkíu og boð­uðu ásamt mörg­um öðr­um orð Drott­ins. – Eft­ir nokkra daga sagði Páll við Bar­nabas: “För­um nú aft­ur og vitj­um brœðr­anna í hverri borg, þar sem vér höf­um boð­að orð Drott­ins, og sjá­um, hvað þeim líð­ur.” Bar­nabas vildi þá líka taka með Jó­hann­es, er kall­að­ur var Mark­ús. En Páli þótti eigi rétt að taka með þann mann, er skil­ið hafði við þá í Pam­phylíu og ekki geng­ið að verki með þeim. Varð þeim mjög sund­ur­orða, og skildi þar með þeim. Tók Bar­nabas Mark­ús með sér og sigldi til Kýp­ur. En Páll kaus sér Silas og fór af stað, og fólu brœð­urn­ir hann náð Drott­ins. Fór hann um Sýr­land og Cilicíu og styrkti söfn­uð­ina (P 15.35-41). Ráða­gerð Páls gekk með öðr­um orð­um eft­ir, með breyt­ingu. Páll og Bar­nabas voru ekki held­ur al­veg sam­mála, hvort kristn­ir Gyð­ing­ar mættu mat­ast með ann­arra þjóða mönn­um (Gl 2.13). En þeir sætt­ust síð­ar, telja flest­ir, og það gerðu Páll og Mark­ús fljót­lega (2Tm 4.11; rit­að 51-52, áleit Mc­Kenzie). Heil­ag­ur Tóm­as frá Aquino setti í Summa Theo­logica fram spurn­ingu: Er synd að verða sund­ur­orða? Í svar­inu lagði hann með­al ann­ars út af deilu Páls og Bar­nabas­ar: Heil­ag­ir menn syndga ekki, sízt al­var­lega. Þessi deila var óvilja­verk, og báð­um var gott í hug, þótt þeir yrðu ósam­mála um hið góða, því að það varð­aði ekki sjálft hjálp­ræð­ið. Auk þess var deil­an hluti af guð­dóm­legri for­sjón, vegna hins góða, sem af henni hlauzt [tvær ferð­ir í stað einn­ar, fleiri kristni­boðar].

Barnabas var á lífi og starf­aði sem fyrr, þeg­ar Páll skráði fyrra bréf sitt til Kor­intu­manna (1Kor 9.6). John L. Mc­Kenzie taldi bréf­ið rit­að ár­ið 54, með­an Páll var í 3. kristni­boðs­förinni.

Jóhannes Krysostomos kirkjufrœð­ari lagði út af svo­hljóð­andi vers­um hjá Páli: En með hon­um [Títusi] send­um vér þann bróð­ur, sem orð fer af í öll­um söfn­uð­un­um fyr­ir starf hans í þjón­ustu fagn­að­ar­er­ind­is­ins. Og ekki það eitt, held­ur er hann af söfn­uð­un­um kjör­inn sam­ferða­mað­ur vor með líkn­ar­gjöf þessa, sem vér höf­um unn­ið að, Drottni til dýrð­ar og til að sýna fús­leika vorn (2Kor 8.18-19). Kirkju­frœð­ar­inn rök­studdi, að hér ætti við Bar­nabas, ekki Lúkas eða aðra (prédikun 18). En tor­sótt er úr þessu að skera, því að nafn vant­ar. Mc­Kenzie taldi bréf Páls rit­að ár­ið 57, með­an hann var í 3. kristni­boðs­för sinni.

Þegar Páll skráði bréf sín til Kólossu­manna og Phile­mons, sem band­ingi í Róm [á ár­un­um 61-63, áleit Mc­Kenzie], var Mark­ús með hon­um (Kól 4.10; Flm 24). Það þykir benda til, að Bar­nabas hafi ver­ið dá­inn, sem má vera svo eða ekki.

Helgisögn greinir, að Bar­nabas hafi lið­ið písl­ar­vætti í Salamis á Kýp­ur ár­ið 61, og hafi Gyð­ing­ar ann­að hvort grýtt hann eða dreg­ið hann út úr bœn­um með kað­al um háls­inn og síð­an brennt hann. Mark­ús hafi greftr­að frænda sinn og lagt Matt­eus­ar­guð­spjall á brjóst hon­um. Gröf­in hafi fund­izt árið 482 og bók­in ver­ið ósnert. Hinn helgi dóm­ur Bar­nabas­ar var send­ur til Zeno keis­ara í Kon­stantín­ópel, en hlut­ar af hon­um finn­ast í all­mörg­um ítölsk­um borg­um, auk held­ur í Köln og klaustr­inu Andechs í Þýzka­landi, Prag í Tékk­landi, Toulouse í Frakk­landi og Nam­ur í Belgíu.

Sýrlenzk frásögn greinir hins veg­ar, að Bar­nabas hafi dá­ið á eyj­unni Samos, und­an vest­ur­strönd Litlu-Asíu. Í grísku riti seg­ir, að hann hafi far­ið til Róm­ar og boð­að kristni á Ítalíu en ver­ið grýtt­ur til bana á Kýp­ur. Enn er sagt, að hann hafi far­ið til Alex­andríu í Egypta­landi. Loks finnst hann tal­inn fyrsti bisk­up­inn í Mílanó á Ítalíu [eða hafa vígt þang­að heil­ag­an Ana­thal­on, fyrsta bisk­up­inn, sem einn­ig finnst kennd­ur við Brescia í grennd­inni; í Mílanó stofn­aði Anton­ius Zacc­aria 1530 presta­reglu, sem í dag­legu tali var kennd við Bar­nabas, eða öllu held­ur við kirkju­bygg­ingu með nafni hans].

Messudagur Barnabasar er 11. júní. Ef þá rignir, mun síð­an rigna sam­fellt í 40 daga, segja sum­ir Þjóð­verj­ar. Eða vín­berja­upp­skera bless­ast vel, segja aðrir.

Barnabas er verndar­dýr­ling­ur á Kýp­ur og í Mílanó og Fir­enze og hjá vef­ur­um og tunnu­smið­um. Hann þyk­ir góð­ur til áheita sem frið­flytj­andi og gegn hagl­éli, grjót­hruni og þung­lyndi. Í mynd­list er hann sýnd­ur með guð­spjall í hendi [tákn post­ula] og stein [tákn um písl­ar­vætt­ið] eða með ólívu­við­ar­grein [frið­ar­tákn], oft í fylgd með Páli.

Barnabas hefur verið sagður höf­und­ur nokk­urra rita: 1) Tertull­ian­us kirkju­fað­ir [d. 225] áleit hann hafa skráð Hebrea­bréf­ið [De pudicitia, 20. kafli], sem Bene­dikt XVI. páfi taldi ekki ósenni­legt, en nið­ur­staða er ekki fund­in. 2) Pist­ill Bar­nabas­ar er mjög forn [frá 70-80, áleit Lightfoot; frá 130, taldi Max­well Stani­forth], merki­legt rit og all­langt, varð­veitt á lat­ínu og í lengri gerð á grísku. Það er gagn­rýn­ið á Gyð­ing­dóm, ef til vill rit­að í Alex­andríu. Frœði­menn slá engu föstu um höf­und pist­ils­ins, sem var ekki tek­inn upp í Nýja testa­ment­ið en mik­ið not­að­ur í kirkj­unni [Reyn­ir Guð­munds­son ís­lenzk­aði hann 1999 og birti á vef kaþólsku kirkj­unn­ar]. 3) Verk Bar­nabas­ar er rit, sem ókunn­ur Kýp­ur­búi skráði á 5. öld og finnst eign­að guð­spjalla­mann­in­um Mark­úsi. Rit­ið er varð­veitt á frum­tung­unni grísku og einn­ig á lat­ínu. Það er ekki tal­ið hafa heim­ild­ar­gildi en er mjög reist á Post­ula­sög­unni. 4) Bar­nabas­ar­guð­spjall er álit­ið föls­un frá 15. öld, eft­ir ítalsk­an mann, sem tók Múha­meðs­trú (var­ast ber, að því er enn hald­ið á lofti inn­an þeirra trú­ar­bragða, því að það þyk­ir þeim hliðhollt).

Barnabas var ekki einn af hin­um tólf, og hann var ekki Páll. Var hann post­uli? Sum­ir and­mæla: 1) Stanislaus de Dunin Bor­kowski sagði nei, nema hvað Páll hefði leyft hon­um að taka þátt í post­ula­dómi sín­um, þeg­ar þeir störf­uðu sam­an. Bar­nabas hafi að minnsta kosti að­eins ver­ið post­uli í þeim skiln­ingi, að hann boð­aði fagn­að­ar­er­ind­ið fyr­ir þjóð­um, sem ekki höfðu heyrt það áð­ur. 2) Honoré Coppieters áleit Bar­nabas hafa ver­ið lægra sett­an læri­svein, sem hafi boð­að fagn­að­ar­er­ind­ið und­ir stjórn post­ul­anna eða átt þátt í út­breiðslu þess. Hann nafn­greindi sem aðra slíka læri­sveina Andron­icus og Junias (Rm 16.7) og Epa­phrodit­us (Fl 2.25), sem kall­að­ir hefðu ver­ið post­ul­ar [ólíkt Bar­nabasi, er næst­um ekk­ert um hina fyrri tvo vit­að og fátt um hinn þriðja].

Hieronymus kirkjufrœðari [d. 420] skráði hins veg­ar í De Viris Illustri­bus, að Bar­nabas hefði ver­ið vígð­ur sem post­uli heið­ingj­anna, ásamt Páli. Bar­nabas hefði rit­að Pist­il, sem væri mik­il­væg­ur til upp­lýs­ing­ar fyr­ir kirkj­una og væri tal­inn með apo­crypísk­um rit­um. Sam­starfi hans og Páls hafi um síð­ir lok­ið, út af læri­svein­in­um Jó­hann­esi, sem einn­ig nefnd­ist Mark­ús, en Bar­nabas hafi engu að síð­ur hald­ið áfram því ætl­un­ar­verki sínu að boða fagn­að­ar­er­ind­ið (6. kafli).

Clement frá Alexandríu [d. 215] áleit Bar­nabas hafa ver­ið einn af hin­um 70. Það tók Eusebi­us bisk­up upp. Þetta er at­hygl­is­vert en hef­ur naum­ast áhrif á hitt, hvort hann var síð­ar tal­inn með postulum.

Lúkas notaði orðið post­uli um Bar­nabas, án nokk­urs fyr­ir­vara (P 14.4, 14), og sagði Heil­ag­an Anda hafa skil­ið hann frá og kall­að hann til verks (P 13.2). Róm­versk-kaþólska kirkj­an tel­ur hann einn­ig í hópi post­ula, og hans er minnzt sem slíks í tíða­bók­um henn­ar, enda eru ritn­ing­ar­stað­ir hjá Lúk­asi skýr­ir og ber sam­an bæði við rit kirkju­feðra og hefð kirkj­unnar.

Heimildir um Bar­nabas eru frem­ur ríku­leg­ar, og hann kom mörgu gagn­legu til leið­ar, bæði sem kristni­boði, þátt­tak­andi í post­ula­fund­in­um og mál­svari Páls og Mark­ús­ar. Hann má því telj­ast í hópi merk­ustu manna í frum­kristn­inni og er mik­ils virt­ur í flest­um kirkjudeildum.

   

Acta Sanctorum (Iunii, tomus II, p. 421-460, prentað 1698)

Agasso, Domenico @ Santi, beati e testimoni

American Catholic

Benedictus PP. XVI (ávarp 31. janúar 2007)

Blackhirst, Rod @ La Trobe University, Australia

Butler, Alban (18. öld)

Catholic Information Network

Catholic News Agency

Catholic Online

Come and See (icons, books & art)

Église Caholique en France

Fenlon, J. F. @ The Catholic Encyclopedia (1907)

Gewalt, D. @ Biographisch-Biblio­graphisch­es Kirchen­lexikon

Heiligen-3s

Jacobus de Voragine (um 1260)

Jones, Terry H. @ Star Quest Production Network

Kathpedia

Keck, Karen Rae @ The Saint Pachomius Library

McNamara, Fr. Robert F. @ Irondequoit Catholic Communities

Mollen, Thomas @ Bistum Münster

Odden, Per Einar @ Den Katolske Kirke i Norge

Orthodox Church in America

Orthodox Wiki

Santopedia

Siervas de los Corazones Traspasados de Jesús y María

Stadlers Vollständiges Heiligen-Lexikon

Wikipedia (enska)

Wikipedia (franska)

Wikipedia (ítalska)

Wikipedia (portúgalska)

Wikipedia (spænska)

Wikipedia (þýzka)

Ökumenisches Heiligenlexikon

Read Full Post »

   

Bartólómeus

   

Margir en ekki allir frœðimenn álíta, að þessi post­uli hafi heit­ið fullu nafni Natanael Bar­tolmai (Natan­ael son­ur plœg­inga­manns­ins; en of lang­sótt er sú forna út­legg­ing, að nafn­ið þýði son­ur Tholomeus­ar, nefni­lega ein­hvers af Egypta­lands­kon­ung­um með því nafni). Í sam­stofna guð­spjöll­un­um og Post­ula­sög­unni er hann að­eins að finna í upp­taln­ingu á post­ul­um og kall­ast Bartólómeus (Βαρθολομαίος; Mt 10.3; Mk 3.18; Lk 6.14; P 1.13; í þess­um guð­spjöll­um tal­inn næst á eftir Filippusi). Í Jó­hann­es­ar guð­spjalli kem­ur það nafn ekki fyr­ir. En þar er að finna Natan­ael: Jes­ús hugð­ist fara frá Bet­an­íu til Galíleu, og Filipp­us hafði gerzt einn af fyrstu læri­svein­um hans. Filipp­us fann Natan­ael og sagði við hann: “Vér höf­um fund­ið þann, sem Móse skrif­ar um í lög­mál­inu og spá­menn­irn­ir, Jesú frá Nazaret, son Jós­efs.” – Natan­ael sagði: “Get­ur nokk­uð gott kom­ið frá Nazaret?” – Filipp­us svar­aði: “Kom þú og sjá.” – Jes­ús sá Natan­ael koma til sín og sagði við hann: “Hér er sann­ur Ísrael­íti, sem eng­in svik eru í.” – Natan­ael spyr: “Hvað­an þekk­ir þú mig?” – Jes­ús svar­ar: “Ég sá þig und­ir fíkju­trénu, áð­ur en Filipp­us kall­aði á þig.” – Þá seg­ir Natan­ael: “Rabbí, þú ert son­ur Guðs, þú ert kon­ung­ur Ísraels.” – Jes­ús spyr hann: “Trúir þú, af því að ég sagði við þig: ‘Ég sá þig und­ir fíkju­trénu’? Þú munt sjá það, sem þessu er meira.” Og hann seg­ir við hann: “Sann­lega, sann­lega segi eg yð­ur: Þér mun­uð sjá him­in­inn op­inn og engla Guðs stíga upp og stíga nið­ur yf­ir Manns­son­inn” (Jh 1.46-51). Jó­hann­es greindi á öðr­um stað frá birt­ingu Krists við Tíber­ías­vatn (öðru nafni Galíleu­vatn): Þar voru sam­an þeir Símon Pét­ur og Tóm­as, sem kall­að­ur var tví­buri, og Natan­ael frá Kana í Galíleu og þeir syn­ir Zebedeus­ar og tveir aðr­ir af læri­svein­um hans (Jh 21.2).

Eusebius biskup (d. 339) sagði í kirkju­sögu sinni frá guð­frœð­ingi, sem hét Pant­aen­us og fór frá Alex­andríu í kristni­boðs­ferð, lík­lega í upp­hafi þriðju ald­ar: “Full­yrt er, að hann hafi far­ið alla leið til Ind­lands, og þar virð­ist hann hafa sann­reynt, að guð­spjall Matt­eus­ar var kom­ið á und­an hon­um og í eigu sumra lands­manna, sem höfðu kynnzt Kristi. Bar­tólómeus, einn post­ul­anna, hafði pré­dik­að fyr­ir þeim og skil­ið eft­ir frá­sögn Matt­eus­ar á hinu upp­haf­lega aram­íska letri, og hún var enn varð­veitt, þeg­ar Pant­aen­us kom þang­að” (5. bók). Heit­ið Ind­land var að fornu not­að í lítt af­mark­aðri merk­ingu um fjar­læg lönd í austri, stund­um haft í fleir­tölu (…Indía­lönd eru þrjú: eitt er það er ligg­ur hjá Blá­landi, en ann­að ligg­ur hjá Serk­landi, en hið þriðja er við heims­enda…). Lík­lega hafði hóp­ur Gyð­inga setzt að á þess­um stað. Þeir voru læs­ir á aramísku. Ef taka á það bók­staf­lega, að Bartólómeus hafi skil­ið bók­ina eft­ir, fór hann leið­ar sinn­ar frá þessu svo­kall­aða Ind­landi en sett­ist þar ekki að. Hann er einn­ig sagð­ur hafa boð­að kristni í Mesópótamíu, Parþíu, Lycaoníu og eink­um Armen­íu, og í einu riti er bœtt við Eþíópíu og Arabíu.

Helgisagnir: Konungurinn í Armeníu hét Polim­us, og dótt­ir hans var hald­in ill­um anda, sem Bar­tólómeus rak út, og snér­ust kon­ung­ur og fjöl­skylda hans þá til kristni. En heiðn­ir prest­ar æstu brœð­ur kon­ungs upp á móti post­ul­an­um. Loks lét hinn heiðni kon­ung­ur Astyages (eða Astriges) hand­taka hann, flá hann lif­andi og loks kross­festa (eina gerð af sögn­inni má lesa í Sög­um úr Skarðs­bók, sem Ól­af­ur Hall­dórs­son gaf út 1967; sjá einnig Arsacid Dynasti hjá Wikipediu). Ef till gerð­ist þetta í borg­inni Derbent við vest­ur­strönd Kaspí­hafs, en ekki eru all­ar heim­ild­ir sam­hljóða (sjá hér). Elzta rit­ið um Písl­ar­vætti Bar­tólómeus­ar gæti ver­ið skráð ná­lægt ár­inu 500, of ungt til að vera burð­ar­mik­ið sem heimild. Einn­ig var til Guð­spjall Bar­tólómeus­ar, nú glat­að en finnst nefnt í forn­um heim­ild­um, fékk aldrei við­ur­kenn­ingu í kirkj­unni og þarf ekki að hafa ver­ið tengt post­ul­an­um nema að nafn­inu til.

Helgur dómur Bartólómeusar mun (ef til vill ár­ið 580) hafa bor­izt frá Armeníu til eyj­ar­inn­ar Lipari fyr­ir norð­an Sik­il­ey. Helgi­sögn hjá orþo­dox­um grein­ir, að heið­ingj­ar hafi ekki þol­að krafta­verk við gröf hans og fleygt kistu postul­ans í sjó­inn, sem hafi með Guðs hjálp bor­ið hana til Lipari. Á ní­undu öld réð­ust serk­ir á eyj­una, og var hinn helgi dóm­ur þá flutt­ur til Bene­vento. En Ottó III. keis­ari (d. 1002) fœrði hann til Róm­ar. Þar er hann enn í Basilica di San Bar­tolomeo all’Isola, sem er á eyju í Tíb­er. Höf­uð­leðr­ið [Schädel­decke] af post­ul­an­um barst með ein­hverj­um at­burð­um til Frank­furt am Main í Þýzka­landi og er varð­veitt í Kaiser­dom St. Bar­tholomäus. Á ell­eftu öld er Emma drottn­ing (kona Knúts ríka, d. 1035) sögð hafa gef­ið ann­an hand­legg post­ul­ans til kirkju í Canter­bury í Englandi, sem þó gæti þurft að taka með varúð.

Á helgimyndum er Bar­tólómeus sýnd­ur með slátr­ara­hníf og dreg­ur oft húð­ina á eft­ir sér (til dœm­is á Dóms­degi eft­ir Michel­angelo Buonarroti, sem mál­aði sína eig­in and­lits­drætti á húð­ina), en einn­ig er hann ein­att með bók (tákn post­ula). Hann er vernd­ar­dýr­lingur þeirra, sem fást við skinna­iðn­að, þar á með­al leð­ur­smiða, skinna­sala, skó­smiða, bók­bind­ara, hanzka­mak­ara, söðl­ara, skradd­ara, sút­ara og lit­ara, en einn­ig slátr­ara, bœnda, smala, bak­ara, vín­rækt­enda, námu­manna og gifs­lista­manna. Þá er hann í borg­inni Firenze hafð­ur í heiðri hjá fólki, sem sel­ur mat­ar­olíu, ost og salt. Hann er vernd­ar­dýr­ling­ur í Frank­furt am Main, Maastricht, Plzen, Alten­burg og bisk­ups­dœm­inu Liège. Hann þyk­ir góð­ur til áheita gegn tauga­veikl­un, krampa og húð­sjúk­dóm­um. Í róm­versk-kaþólsku kirkj­unni er messu­dag­ur heilags Bar­tólómeus­ar 24. ágúst en í orþó­dox­um kirkj­um 11. júní og 25. ágúst.

    

Agasso, Domenico @ Santi, beati e testimoni

American Catholic

Apostles.com

Basilica di San Bartolomeo all’Isola

Basilica di San Bartolomeo Apostolo in Benevento

Benedictus XVI (ávarp 4. október 2006)

BiblePath

Butler, Alban @ Sacrd Texts Arhive

Catholic News Agency

Catholic Online

Catholic-Pages

Église Catholique en France

Fenlon, John Francis @ The Catholic Encyclo­pedia (birt 1907)

Ferris, Tommy, @ The Twelve Apostles

Fratelli delle scuole Cristiane – La Salle

Greek Orthodox Archdiocese of America

Heiligen-3s

In illo tempore

Institute for Traditional Medicine

Jacobus de Voragine (13. öld) @ The Catholic Community Forum

Jones, Terry H. @ Star Quest Production Network

Katholiek Nederland

Kathpedia

Keck, Karen Rae @ The Saint Pachomius Library

Keifer, James @ Rowan University

Living Space @ Sacred Space, Ireland

Living Water Community

Mater Dei @ Diocese of Dallas, Texas

Mollen, Thomas @ Bistum Münster

Monastere Magnificat [schismatic]

Odden, Per Einar @ Den Katolske Kirke i Norge

Orthodox Church in America

Orthodox Wiki

Rabenstein, Katherine I. @ St. Patrick Catholic Church, Washington DC

Santopedia

Schmitt, C. @ Biographisch-Biblio­graphisches Kirchen­lexikon

Siervas de los Corazones Traspasados de Jesús y María

Stadlers Vollständiges Heiligen-Lexikon

St. Charles Borromeo Catholic Church @ Picayune, Mississippi

Velimirovich, Nikolai biskup @ Western America Diocese [Serbian Orthodox]

Wikipedia (enska)

Wikipédia (franska)

Wikipedia (hollenzka)

Wikipedia (ítalska)

Wikipédia (portúgalska)

Wikipedia (spænska)

Wikipedia (þýzka)

Ökumenisches Heiligenlexikon

    

  

Read Full Post »

 

 

Filippus postuli (eftir Philippe de Champaigne)

 

Filippus er í samstofna guðspjöllun­um og Post­ula­sög­unni sagður einn af hin­um tólf (Mt 10.3; Mk 3.18; Lk 6.14; P 1.13), en fleira grein­ir frá hon­um hjá guð­spjalla­mann­in­um Jó­hann­esi.

Næsta dag hugðist Jesús fara til Galíleu. Hann hitti þá Filipp­us og sagði við hann: “Fylg þú mér!” Filipp­us var frá Betsaidu, sömu borg og Andrés og Pétur. Filipp­us fann Natan­ael og sagði við hann: “Vér höf­um fund­ið þann, sem Móse skrif­ar um í lög­mál­inu og spá­menn­irn­ir, Jesú frá Nazaret, son Jósefs” (Jh 1.43-45). Þess hef­ur ver­ið get­ið til, að Filipp­us hafi áð­ur ver­ið læri­sveinn Jó­hann­es­ar skír­ara, eins og Andrés, og ver­ið fiski­mað­ur, eins og fyrstu læri­svein­arn­ir.

Kristur mettaði 5.000 manns við Galíleu­vatn­ið: Jesús leit upp og sá, að mik­ill mann­fjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filipp­us: “Hvar eig­um vér að kaupa brauð, að þess­ir menn fái að eta?” En þetta sagði hann til að reyna hann, því hann vissi sjálf­ur, hvað hann ætl­aði að gjöra. – Filipp­us svar­aði hon­um: “Brauð fyrir tvö hundruð den­ara nœgðu þeim ekki, svo að hver fengi lít­ið eitt.” Ann­ar læri­sveinn hans, Andrés, bróð­ir Símon­ar Pét­urs, segir þá við hann: “Hér er pilt­ur, sem er með fimm bygg­brauð og tvo fiska, en hvað er það handa svo mörg­um?” (Jh 6.5-9). Filipp­us er á sum­um helgi­mynd­um sýnd­ur með brauð, til minn­ing­ar um mett­un­ina.

Grikkir nokkrir voru með­al þeirra, sem fóru upp eft­ir til að biðj­ast fyr­ir á há­tíð­inni. Þeir komu til Filipp­us­ar frá Betsa­idu í Galí­leu, báðu hann og sögðu: “Herra, oss lang­ar að sjá Jesúm.” – Filipp­us kem­ur og seg­ir það Andrési. Andrés og Filipp­us fara og segja Jesú (Jh 12.20-22). Filipp­us og Andrés voru einu post­ul­arn­ir, sem hétu grísk­um nöfn­um, sem reynd­ar voru orð­in al­geng á með­al Gyð­inga, svo að það at­riði vís­ar ekki endi­lega á tengzl við Grikki. Ferða­menn­irn­ir gætu hafa snú­ið sér til Filipp­us­ar, ef hann var álit­inn standa Kristi ná­lægt. At­hygl­is­vert er, að post­ul­inn er kennd­ur við borg sína, eins og til að greina hann frá sam­nefnd­um manni.

Við síðustu kvöldmáltíðina tal­aði Krist­ur til post­ul­anna: Filipp­us seg­ir við hann: “Herra, sýn þú oss Föð­ur­inn. Það nœg­ir oss.” – Jesús svar­aði: “Ég hef ver­ið með yð­ur all­an þenn­an tíma, og þú þekk­ir mig ekki, Filipp­us? Sá sem hef­ur séð mig, hef­ur séð Föð­ur­inn. Hvern­ig seg­ir þú þá: ‘Sýn þú oss Föð­ur­inn’? Trú­ir þú ekki, að ég er í Föð­urn­um og Fað­ir­inn í mér? Orð­in, sem ég segi við yð­ur, tala ég ekki af sjálf­um mér. Fað­ir­inn, sem í mér er, vinn­ur sín verk…” (Jh 14.8-10).

Filippus var á meðal postulanna í loft­saln­um fyr­ir hvíta­sunnu (P 1.12-14). Hann hef­ur einn­ig séð Krist upp­ris­inn og orð­ið vitni að upp­stign­ing­unni.

Á þeim dögum, er lærisvein­um fjölg­aði, fóru grísku­mæl­andi menn að kvarta út af því, að hebresk­ir settu ekkj­ur þeirra hjá við dag­lega út­hlut­un. Hinir tólf köll­uðu þá læri­sveina­hóp­inn sam­an og sögðu: “Ekki hœf­ir, að vér hverf­um frá boð­un Guðs orðs til að þjóna fyr­ir borð­um. Finn­ið því, brœð­ur, sjö vel kynnta menn úr yð­ar hópi, sem full­ir eru anda og vizku. Mun­um vér setja þá yf­ir þetta starf. En vér mun­um helga oss bœn­inni og þjón­ustu orðs­ins.” Öll sam­kom­an gerði góð­an róm að máli þeirra, og kusu þeir Stef­án, mann full­an af trú og heil­ög­um anda, Filipp­us, Prókor­us, Níkanor, Tímon, Parmen­as og Nikolás frá Anti­okkíu, sem tek­ið hafði gyð­inga­trú. Þeir leiddu þá fram fyr­ir post­ul­ana, sem báð­ust fyr­ir og lögðu hend­ur yf­ir þá (P 6.1-6). Hér er sem sagt annar Filipp­us, einn af hin­um sjö, venju­lega kall­að­ur djákni.

Á þeim degi hófst mikil ofsókn gegn söfn­uð­in­um í Jerú­salem. All­ir dreifð­ust út um byggð­ir Júdeu og Sam­ar­íu nema post­ul­arn­ir (P 8.1). Þetta gerð­ist, þeg­ar Stef­án var grýtt­ur. Þeir sem dreifst höfðu, fóru víðs veg­ar og fluttu fagn­að­ar­er­ind­ið. Filipp­us fór norð­ur til höf­uð­borg­ar Sam­aríu og pré­dik­aði Krist þar. Menn hlýddu með at­hygli á orð Filipp­us­ar, þeg­ar þeir heyrðu hann tala og sáu tákn­in, sem hann gjörði. Marg­ir höfðu óhreina anda, og fóru þeir út af þeim með ópi miklu. Og marg­ir lama menn og halt­ir voru lækn­að­ir. Mik­ill fögn­uð­ur varð í þeirri borg. – Mað­ur nokk­ur, Símon að nafni, var fyr­ir í borg­inni. Hann lagði stund á töfra og vakti hrifn­ingu fólks­ins í Sam­aríu. Hann þótt­ist vera næsta mik­ill. All­ir flykkt­ust til hans, há­ir og lág­ir, og sögðu: “Þessi mað­ur er kraft­ur Guðs, sá hinn mikli.” En því flykkt­ust menn um hann, að hann hafði lengi heill­að þá með töfr­um. Nú trúðu menn Filipp­usi, þeg­ar hann flutti fagn­að­ar­er­ind­ið um Guðs ríki og nafn Jesú Krists, og létu skír­ast, bæði karl­ar og kon­ur. Meira að segja Símon tók trú. Hann var skírð­ur og gjörð­ist mjög fylgi­sam­ur Filipp­usi. Og er hann sá tákn og mik­il krafta­verk ger­ast, var hann frá sér num­inn. – Þeg­ar post­ul­arn­ir í Jerú­salem heyrðu, að Sam­aría hafði tek­ið við orði Guðs, sendu þeir til þeirra þá Pét­ur og Jó­hann­es. Þeir fóru norð­ur þang­að og báðu fyr­ir þeim, að þeir mættu öðl­ast Heil­ag­an Anda, því að enn var hann ekki kom­inn yf­ir neinn þeirra. Þeir voru að­eins skírð­ir til nafns Drott­ins Jesú. Nú lögðu þeir hend­ur yf­ir þá, og fengu þeir Heil­ag­an Anda. – En er Símon sá, að Heil­ag­ur Andi veitt­ist fyr­ir handa­yf­ir­lagn­ingu post­ul­anna, bauð hann þeim fé og sagði: “Gef­ið einn­ig mér þetta vald, að hver sá, er ég legg hend­ur yf­ir, fái Heil­ag­an Anda. – En Pét­ur svar­aði: “Þríf­ist aldrei silf­ur þitt né sjálf­ur þú, fyrst þú hugð­ist eign­ast gjöf Guðs fyr­ir fé (P 8.4-20). Hér mun aft­ur ræða um Filipp­us djákna, því að post­ul­arn­ir urðu eft­ir í Jerú­salem. Til að full­komna verk djákn­ans, voru síð­an tveir post­ul­ar send­ir til Sam­aríu, eins og þar hefði eng­inn þeirra áð­ur verið.

Er þeir höfðu nú vitnað og tal­að orð Drott­ins, sneru þeir aft­ur áleið­is til Jerú­salem og boð­uðu fagn­að­ar­er­ind­ið í mörg­um þorp­um Sam­verja. – En eng­ill Drott­ins mælti til Filipp­us­ar: “Statt upp og gakk suð­ur á veg­inn, sem ligg­ur of­an frá Jerú­salem til Gasa.” Þar er óbyggð. Hann hlýddi og fór. Þá bar að mann frá Eþíópíu. Hann var hirð­mað­ur og höfð­ingi hjá Kandake, drottn­ingu Eþíópa, og sett­ur yf­ir alla fjár­hirzlu henn­ar. Hann hafði far­ið til Jerú­salem til að biðj­ast fyr­ir (P 8.25-27). Nú seg­ir frá, hvern­ig Filipp­us boð­aði þess­um manni kristni og skírði hann í vatni nokkru. En er þeir stigu upp úr vatn­inu, hreif andi Drott­ins Filipp­us burt. Hirð­mað­ur­inn sá hann ekki fram­ar og fór fagn­andi leið­ar sinn­ar. En Filipp­us kom fram í Asdód, fór um og flutti fagn­að­ar­er­ind­ið í hverri borg, unz hann kom til Sesar­eu (P 8.39-40). Enn virð­ist eiga við Filipp­us djákna, því að þessi frá­sögn er í beinu fram­haldi af at­burð­un­um í Sam­aríu og eng­in ákenn­ing, að nú eigi við post­ul­ann með sama nafni.

Vér komum til Ptóle­mais frá Týrus og luk­um þar sjó­ferð­inni. Vér heils­uð­um brœðr­un­um og dvöld­umst hjá þeim einn dag. Dag­inn eft­ir fór­um vér það­an og kom­um til Sesar­eu, geng­um inn í hús Filipp­us­ar trú­boða, sem var einn af þeim sjö, og dvöld­umst hjá hon­um. Hann átti fjór­ar ógift­ar dœt­ur, gœdd­ar spá­dóms­gáfu (P 21.7-9). Hér á greini­lega við Filipp­us djákna, sem enn var í Caesareu.

Polycrates biskup í Efesus rit­aði bréf til Victors bisk­ups í Róm. Þar í er þetta: “Í Asíu sofa skær­ar leið­ar­stjörn­ur, sem munu rísa upp á efsta degi, á að­ventu­degi Drott­ins, þeg­ar Hann mun koma í dýrð frá himn­um og leita uppi alla dýr­linga sína – svo sem Filipp­us, einn hinna tólf post­ula, sem sef­ur í Hiera­polis ásamt tveim­ur dœtr­um sín­um, sem alla ævi voru ógift­ar, en enn ein dótt­ir hans lifði í hin­um Heil­aga Anda og hvíl­ir í Efes­us…” Þessa til­vitn­un skráði Eusebius í kirkju­sög­unni (3. bók). Victor mun hafa ver­ið páfi í ná­lægt ára­tug frá ár­inu 189.

Filippusi postula og Filippusi djákna er oft bland­að sam­an, og svo gæti ver­ið í bréf­inu, sem Poly­crates bisk­up rit­aði. Að minnsta kosti er tor­tryggi­legt, að báð­ir hafi haft í heim­ili sínu upp­komn­ar en ógift­ar dœt­ur. Séra John L. Mc­Kenzie SJ greindi þá í sund­ur, eins og gert er að fram­an, áleit ekk­ert vit­að um seinni ár post­ul­ans og kenndi hon­um eng­ar dœtur.

Helgisögn segir, að postulinn hafi boð­að kristni í suð­aust­ur Asíu og Skythíu, ef til vill einn­ig í Frygíu, og ver­ið kross­fest­ur árið 81, á dög­um Domiti­an­us­ar keis­ara. Þetta er þó óvíst. Og ekki er held­ur óum­deild sögn­in í Aurea Legenda, að post­ul­inn hafi með löngu vopni rek­ið burt dreka úr must­eri stríðs­guðs­ins Mars.

Helgur dómur Filippusar barst til Kon­stantín­ópel og Róm­ar. Einn­ig eru hlut­ar hans sagð­ir finn­ast í Troyes, Köln, Prag, Andechs, París, Tou­louse og víðar. Á helgi­mynd­um er post­ul­inn oft sýnd­ur ásamt krossi, af fleiri en einni gerð, til að minn­ast písl­ar­vætt­is. Hann er vernd­ar­dýr­ling­ur í Dieppe, Uru­guay, Luxem­bourg, Speyer, Sorrent, Brabant og Philippe­ville og hjá fólki í ull­ar­iðn­aði, sút­ur­um, köku- og kæfu­gerð­ar­mönn­um, kaup­mönn­um og hatta­saum­ur­um. Messu­dag­ur hans á seinni ár­um er 3. maí (áð­ur 1. maí; hins veg­ar alla tíð 14. nóvem­ber í aust­ur­kirkj­um; fleiri dag­setn­ing­ar þekkjast).

Verk Filippusar heitir rit, sem var skráð á grísku á 5. öld eða fyrr og fjall­ar um fá­heyrð krafta­verk. Með­al ann­ars opn­ar post­ul­inn jörð­ina með sær­ing­um, svo að hún gleyp­ir 7.000 manns, og set­ur þá Jesús of­an í við hann og frest­ar inn­göngu hans í Para­dís um 40 daga. Varla eru þess­ar frá­sagn­ir óbrengl­aðar. Einnig finnst gömul Filippusarsaga, sem þarf að lesa með varúð.

  

Den Katolske Kirke i Norge (Per Einar Odden)

Santi, beati e testimoni (Domenico Agasso)

Catholic Online

Biographisch-Bibliographisches Kirchenlexikon (Wolfgang Weiß)

Patron Saints Index

Ökumenisches Heiligenlexikon

Wikipedia (enska)

Wikipedia (spænska)

Kathpedia

Benedictus XVI (ávarp 6. september 2006)

Catholic Encyclopedia (J. P. Kirsch, birt 1911)

St Pachomius Library

Robert McNamara

Alban Butler

Santopedia

Heiligen-3s

Catholic Ireland

The Twelve Apostles… (Tommy Ferris)

Read Full Post »

 

Bab Kisan í Damaskus 1

 

Bab Kisan í Damaskus 2

 

 

Með þessari færslu fylgja tvær myndir af fornu borgarhliði í Damaskus á Sýrlandi, sem nú kallast Bab Kisan. Inni í því er kapella, sem er helguð Páli postula. Á þessum stað komst hann undan á flótta, eins og segir í Nýja testamentinu:

“Að allmörgum dögum liðnum réðu Gyðingar með sér að taka hann af lífi. En Sál fékk vitneskju um ráðagjörð þeirra. Þeir gættu borgarhliðanna nótt og dag til að ná lífi hans. En lærisveinarnir tóku hann um nótt og komu honum út fyrir borgarmúrinn með því að láta hann síga ofan í körfu” (Postulasagan 9.23-25).

“Í Damaskus setti landshöfðingi Areta konungs vörð um borgina til þess að handtaka mig. En gegnum glugga var ég látinn síga út fyrir múrinn í körfu og slapp þannig úr höndum hans” (Síðara Korintubréf 11.32-33).

Read Full Post »

Older Posts »