Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for the ‘Páfar’ Category

 

Þessi páfi hét upphaflega Ildebrando [Hildibrandur] og var kominn af fátæku fólki í Sorano í héraðinu Toscana á Ítalíu. Hann gerðist ungur Benediktsmunkur. Hann var á árunum 1045-1047 í þjónustu Gregoríusar páfa VI. Síðan er Hildibrandur talinn hafa gengið í klaustur [ef til vill Cluny]. En 1049 tók hinn nýkjörni Leó páfi IX. hann með sér til Rómar, vígði hann sem súbdjákna, útnefndi hann féhirði rómversku kirkjunnar, príor í Sankti Páls klaustrinu í Róm og ráðgjafa sinn. Næstu 24 ár gegndi Hildibrandur mörgum háum embættum og var ráðgjafi allra næstu páfa, en árið 1073 var hann sjálfur útnefndur páfi og tók sér nafnið Gregoríus. Hann ritaði Ólafi kyrra Noregskonungi bréf 1078 og bauð honum að senda efnilega menn til náms í Róm, til að styrkja kirkjuna í Noregi. Páfi snérist gegn þeim, sem enn neituðu gerbreytingu sakramentisins. Hann beitti sér við misjafnar undirtektir fyrir einlífi klerka. Hann barðist gegn öllu ráðslagi leikmanna, þar á meðal konunga og keisara, með eignir og embætti kirkjunnar (lotta per le investiture). Hann deildi við Hinrik IV. konung í Þýzkalandi [frá 1084 keisara] og þurfti að bannfæra hann og víkja honum úr embætti 1076 og aftur 1080. Gregoríus VII. dó í útlegð í borginni Salerno í héraðinu Campania á suðvestanverðri Ítalíu. Hann þótti atkvæðamikill í embætti. Hann jók vald páfastóls. Messudagur hans er 25. maí.

 

Catholic News Agency

Catholic Online

Per Einar Odden @ Den Katolske Kirke i Norge

Wikipedia (enska)

Wikipedia (ítalska)

Ökumenisches Heiligenlexikon

 

Auglýsingar

Read Full Post »

 

Pietro Angelerio fæddist í Sant’Angelo Limosano á Ítalíu. Hann gekk í klaustur, þegar hann var 17 ára. En til að njóta betra næðis til að ástunda guðrækni sína og meinlæti fluttist hann þaðan og gerðist einsetumunkur í helli á fjallinu Morrone, sem Pétur er stundum kenndur við. Það fór nú svo, að margir vildu leita á hans fund og gerast munkar, og leiddi það til þess, að Pétur stofnaði stranga munkareglu, sem taldist vera grein af Benediktsreglu. Henni stjórnaði hann um árabil, unz klaustur hennar voru orðin 36 og munkarnir 600, að hann sagði af sér, til að fá notið meiri einveru. Mjög á móti vilja sínum varð Pétur árið 1294, þá kominn um áttrætt, að fallast á kjör sem páfi, og tók hann sér nafnið Caelestinus V. Hann staðfesti eldri reglur um páfakjör og setti nýja reglu um afsögn páfa, sem hann notfærði sér í árslok 1294, og færði hann ýmsar ástæður fyrir því. Honum varð þess ekki auðið að gerast óbreyttur einsetumunkur, eins og hann hafði hugsað sér, því að næsti páfi hafði hann í stofufangelsi, svo að hann yrði ekki útnefndur mótpáfi. Á meðfylgjandi mynd er helgur dómur Caelestinusar færður í pallíum, sem Benedikt páfi XVI. notaði árið 2005 á innsetningardegi sínum í embætti páfa og gaf árið 2009 til þessara nota, en hann varð næstur til þess árið 2013 að segja af sér páfadómi. Messudagur Caelestinusar er 19. maí (í Noregi 22. nóvember).

 

Per Einar Odden @ Den Katolske Kirke i Norge

Wikipedia (enska)

Wikipedia (ítalska)

Ökumenisches Heiligenlexikon

 

 

Read Full Post »

 

Jóhannes var ítalskur maður, sem varð páfi árið 523, nokkuð hniginn að aldri. Honum gekk vel að viðhalda einingu kirkjunnar, bæði í vestri og austri, og hann virðist hafa verið vel virtur páfi. En þá var konungur á Ítalíu Þjóðrekur mikli [Þiðrik af Bern], sem bæði var Austgoti og játaði Aríusarvillu. Hann neyddi páfann til að fara á fund Justinusar keisara í Konstantínópel, til að krefjast fyllstu réttinda fyrir áhangendur Aríus. Það var hinum aldna Jóhannesi þvert um geð, en hann hlaut þó að fara, til að reyna að forða enn verri ósköpum fyrir kirkju og kristni á Ítalíu. Þegar sendinefndin kom til baka, varð konungur ævareiður, því að hún hafði ekki fengið öllum kröfum hans framgengt við keisarann. Hann lét sem fyrr ganga á illyrðum og harðræði við páfa. Ferðalagið og þessir erfiðleikar urðu til þess, að Jóhannes dó fáum dögum eftir að til Ítalíu kom. Hann var álitinn píslarvottur. Messudagur hans er 18. maí. Skamma stund fékk Þjóðrekur notið þess að hafa sálgað páfanum, því að þeir dóu sama ár.

 

Per Einar Odden @ Den Katolske Kirke i Norge

Wikipedia (enska)

Ökumenisches Heiligenlexikon

Read Full Post »

 

Á embættisárum Bonifatiusar páfa þurfti að fást við hungursneyð, pestir og náttúruhamfarir, auk þess sem Persar rændu Jerúsalem árið 614 og brenndu meðal annars Grafarkirkjuna. Bonifatius fékk leyfi keisarans til að breyta hinu mikla hofi allra rómversku goðanna, Pantheum í Róm, í kristna kirkju, sem hann vígði 13. maí 610 og helgaði sankti Maríu og píslarvottunum. Hann lét safna saman í katakombunum 28 vagnhlössum af beinum píslarvotta og koma þeim fyrir í steinþró undir háaltari hinnar nýju kirkju, sem venjulega er kölluð Santa Maria Rotonda. Það var uppruni þess, að farið var að halda allraheilagramessu hátíðlega. Bonifatius efndi til kirkjuþings árið 610. Dauðadagur hans var 8. maí, sem er á Íslandi messudagur hans, en víða annars staðar er messudagurinn 25. maí.

 

Per Einar Odden @ Den Katolske Kirke i Norge

Wikipedia (enska)

Ökumenisches Heiligenlexikon

Read Full Post »

 

Benedikt páfi var rómverskur maður, skólagenginn. Hann þótti Biblíufróður og tóna vel. Messudagur hans er 8. maí (í Noregi 7. maí).

 

Per Einar Odden @ Den Katolske Kirke i Norge

Wikipedia (enska)

Ökumenisches Heiligenlexikon

Read Full Post »

 

Agapetus páfi I. á messudag 22. apríl. Hann átti ekki alltaf næðissama daga en var einarður kirkjuhöfðingi. Mikinn hluta af páfadómi sínum dvaldi hann í Konstantínópel [sem nú kallast Istanbul og er í Tyrklandi].

 

Per Einar Odden @ Den Katolske Kirke i Norge

Wikipedia (enska)

Ökumenisches Heiligenlexikon

Read Full Post »

Pius V. hét upphaflega Antonio Ghislieri. Hann gerðist dóminikanabróðir. Sem páfi stofnaði hann heilaga bandalagið, sem sigraði heri Ottomanveldisins í afgerandi sjóorrustu við Lepanto árið 1571 og bægði hættunni af Tyrkjum frá kristnum Evrópulöndum. Pius þurfti mjög að fást við siðskiptin, bannfærði til dæmis Elísabetu drottningu í Englandi 1570. Hann beitti sér fyrir því að framkvæma þær umbætur, sem kirkjuþingið í Trent á Ítalíu [1545-1563] hafði ákveðið. Messudagur Piusar páfa er 30. apríl.

 

Benedict XVI – The Court of the Gentiles

Catholic News Agency

Catholic Online

Gretchen Filz @ The Catholic Company

Per Einar Odden @ Den Katolske Kirke i Norge

Wikipedia (enska)

Ökumenisches Heiligenlexikon

Read Full Post »

Older Posts »