Feeds:
Færslur
Athugasemdir

                              

Sem móðir hans sá af sinni vizku með Guðs for­sjá, hve dýrð­leg­ur kenni­mað­ur Þor­lák­ur mátti verða, af sín­um góð­um hátt­um, ef nám hans gengi fram, þá réð­ust þau mœð­gin í hinn æðsta höf­uð­stað í Odda, und­ir hönd Eyj­ólfi presti1 Sæ­mund­ar­syni, er bæði hafði höfð­ing­skap mik­inn og lær­dóm góð­an, gæzku og vits­muni nœg­ari en flest­ir aðr­ir, og heyrð­um vér hinn sæla Þor­lák það vitni bera hon­um, að hann þótt­ist trautt því­lík­an dýrð­ar­mann reynt hafa sem hann var, og sýndi hann það síð­an, að hann vildi eigi hjá sér láta líða þau heil­ræði um sinn meist­ara, sem til gaf hinn sæli Páll post­uli sín­um læri­svein­um, tal­andi svo2 til þeirra [að] þeim áheyr­end­um: “Ver­ið þér eft­ir­líkj­ar­ar mín­ir sem eg er Krists,” af því að svo bar oft til, þá vér hœld­um hans góð­um hátt­um, að hann kvað það vera sið­venj­ur Eyj­ólfs, fóstra síns, Sæ­mund­ar­son­ar. Gerði hann það mak­lega, þótt hann virði hann mik­ils í sinni um­ræðu, því að það var hon­um að launa.

                          

Eyjólfur virði Þorlák mest allra sinna læri­sveina um það allt, er til kenni­mann­skap­ar kom, af því að hann sá af sinni vizku og hans með­ferð, sem síð­ar reynd­ist, að hann mundi fyr­ir þeim öll­um verða um það, sem síð­ar segir.

                        

Þorlákur tók vígslur3 þegar á unga aldri all­ar, unz hann var djákn, af Magn­úsi4 bisk­upi, en hann var þá fimm­tán vetra gam­all, er bisk­up and­að­ist. En því fóru vígsl­ur hans skjótt fram, að það fundu yf­ir­boð­arn­ir, að hann hug­leiddi sjálf­ur og gætti í út­horn5 þess vanda, er fylgdi hverri vígslu, þeirri er hann tók. Og svo skjótt sem fram fór nám hans og vígsl­ur, þá lét hann til sín að fyr­ir­boði koma með ráð­inni stað­festu alla mann­kosti, þá er vígsl­un­um áttu til að heyra. Lét hann sér það í hug koma, með­an nám var minna og vígsl­ur smærri, er Isi­dor­us6 bisk­up mæl­ir, spak­ur og heil­ag­ur, að bæði er nyt­sam­legt að nema margt og lifa rétti­lega, en ef eigi má bæði senn verða, þá er enn dýrð­legra að lifa vel. Hann gætti þess og, þótt meir fylgdi lít­il­læti og þjónk­un hin­um smærri vígsl­um, að hann hélt öll­um mann­dyggð­um þeim, er fylgja áttu hin­um minni vanda, þá er hann var haf­inn á hina hærri palla7 vanda og virð­ing­ar með hin­um stœrri vígsl­um. Sú var þá hans iðja, er hann var á ung­um aldri, að hann var löng­um að bók­námi, en að riti oft­lega, á bœn­um þess á milli, en nam, þá er eigi dvaldi ann­að, það er móð­ir hans kunni kenna hon­um, ætt­vísi og mann­frœði8.

                          

1Eyjólfur prestur, sonur Sæmundar fróða, var goð­orðs­mað­ur í Odda á Rang­ár­völl­um. Hann dó 1158.

2Talandi svo á við Fyrra Korintubréf 11.1 (imitatores mei estote sicut et ego Christi).

3Vígslur: Ostiarius, lector, exorcista, acolythus og sub­diacon­us hétu þær vígsl­ur, sem voru und­an­fari djákna­vígslu. Séra Jón Skagan nefndi ártalið 1145, að þá hafi foreldrar Þorláks brugðið búi á Hlíðarenda (Saga Hlíðarenda í Fljótshlíð, bls. 26), og síðar hefur það tæplega verið, því að varla tók hann neina vígslu fyrr en hann kom í Odda og fékk tilsögn hjá séra Eyjólfi. Nokkrum árum fyrir 1145 kemur einnig til álita.

4Magnús Einarsson var Skálholtsbiskup á ár­un­um 1134 – 1148. Hann fórst í bœj­ar­bruna í Hít­ar­dal, og alls létu þar líf­ið 72 menn. Þor­lák­ur hef­ur ekki ver­ið eldri en á 16. ári, þeg­ar hann tók djákna­vígslu, sem fylg­ir all­mik­il ábyrgð. Hann hef­ur þótt bráð­ger og vel menntur.

5Í úthorn: Í öllu (úthorn = útjaðar).

6Isidorus Hispalensis var lengi erki­bisk­up í Sevilla á Spáni og dó árið 636. Kirkj­an á Spáni tók hann í helgra manna tölu ár­ið 1063, og hann er vernd­ar­dýr­ling­ur lands­ins. Árið 1722 út­nefndi Inno­cent­ius páfi XIII. hann kirkju­frœð­ara. Isidor­us var af­kasta­mik­ill rit­höf­und­ur. Ekki er hand­bært, hvað­an til­vitn­un­in er, sem þó er áhuga­vert. Rit eft­ir hann voru síð­ar en á rit­un­ar­tíma sög­unn­ar varð­veitt á Hóla­stað og í klaustr­un­um í Við­ey og á Möðru­völl­um (Bok­samling­er på Is­land 1179 – 1490, bls. 53), en á all­mörg­um öðr­um stöð­um gæti þau hafa ver­ið að finna, eink­um mennta­setr­um, því að þau geyma svo marg­vís­leg­an fróðleik.

7Pallur: Staða (eiginlega: bekkur; flet).

8Ættvísi og mannfrœði: Þess er beinlín­is get­ið í heim­ild­um, að Þor­lák­ur hafi lát­ið sér annt um fá­tœka frænd­ur sína. Að mestu er órann­sak­að, hvort frænd­semi kann að varða nokkru um sam­skipti hans við fjar­skyld­ari frænd­ur, sem nokk­uð áttu und­ir sér. Al­mennt mun þekk­ing á þessu sviði hafa skipt máli á tíma Þor­láks, þegar ætt­ar­sam­fé­lag var enn mik­il­vœg­ur hluti af þjóð­fé­lags­byggingu.

                   

Þessi kafli er hluti af Þorláks sögu hinni elztu.

                          

Auglýsingar

                              

Faðir Þorláks var Þórhallur1 en móðir Halla2. Þau voru vin­sæl og vel að sér. Hann var far­mað­ur, áð­ur hann setti bú, en hún var feng­söm3 og for­vitra4. Þau voru bæði góðr­ar ætt­ar5 og göf­ugra manna fram í kyn. En það má nú auð­sýnt vera, að Guð hef­ur það fag­ur­lega við oss efnt, er hann hét fyr­ir munn Davíðs6 spá­manns, að bless­að mundi verða kyn rétt­látra manna, og má sjá, að það hef­ur nú fag­ur­lega fyllzt og fram kom­ið í lífi hins sæla Þor­láks biskups.

                            

Frændur7 Þorláks hinir nánustu voru rétt­lát­ir og ráð­vand­ir, höfðu fjöl­skyldu mikla en fjár­hlut ónóg­an. Þor­lák­ur var þá ung­ur að aldri, er þau brugðu búi8 sínu, fað­ir hans og móð­ir. Hann var ólík­ur flest­um ung­um mönn­um í sinni upp­fœð­ingu, auð­ráð­ur og auð­veld­ur í öllu, hlýð­inn og hug­þekk­ur hverj­um manni, fá­lát­ur og fá­lynd­ur um allt, nýt­ur og nám­gjarn þeg­ar á unga aldri. Hann nam salt­ara9, áð­ur en sund­ur skilja yrði börn móð­ur hans og föð­ur, en lít­ið hafði hann bók­nám ann­að í fyrstu. En svo var hann þeg­ar at­huga­sam­ur á unga aldri, að mörg­um vitr­um mönn­um fund­ust orð um hann. En þótt hann hefði eigi mik­ið nám á barns­aldri, þá gekk fyr­ir það í hans hátt­um sem hann hefði ná­lega allt það num­ið, sem þá mátti hon­um bet­ur sama en áð­ur. Hann þýdd­ist eigi leika né laus­ung. Var hann vak­ur10 og vel stillt­ur og lét þess snemma á kenna, að hann mundi það heil­ræði þýð­ast vilja, er Davíð kenn­ir11 í salt­ara, að mað­ur skuli hneigja sig frá illu og gera gott, leita frið­ar­ins og fylgja honum.

                                  

1Þórhallur var Þor­láks­son.

2Halla var Steina­dótt­ir.

3Fengsamur: Duglegur að sjá fyrir sér.

4Forvitri: Forspár.

5Góð ætt: Í bein­an karl­legg var Þor­lák­ur bisk­up kom­inn af Katli ein­henda Auð­un­ar­syni, sem bjó á Á og nam Rang­ár­velli ytri. Á með­al ann­arra nafn­kunnra for­feðra í föð­ur­ætt­inni má nefna Þor­gils örra­beins­stjúp Þórð­ar­son í Trað­ar­holti í Flóa, sem er að­al­persón­an í Flóa­manna sögu, og Þór­odd goða Eyvind­ar­son á Hjalla í Ölfusi, sem kem­ur all­víða fyr­ir. Úr móð­ur­ætt Þor­láks má nefna Sturlu Þjóð­reks­son á Stað­ar­hóli í Saur­bœ, sem var nefnd­ur Víga-Sturla, Þor­kel Geit­is­son í Krossa­vík í Vopna­firði, sem er kunn­ur úr Vopn­firð­inga sögu, Loft hinn gamla Ormsson, sem nam land í Gaulverjabæ í Flóa, og Ein­ar Eyj­ólfs­son, sem bjó á og var kennd­ur við Þverá í Eyja­firði. Sjá nán­ar í Ís­lenzk­um forn­rit­um XVII, bls. 465 – 466.

6Fyr­ir munn Davíðs: Sálm­arn­ir 112.2 (gen­eratio rector­um bene­dicetur; núm­er sálms­ins áð­ur 111)

7Frændi: Þetta orð gat merkt mjög ná­kom­ið fólk. Til dœm­is má finna dœmi, að fað­ir kall­ar son sinn frænda. Fyrst for­eldr­ar Þor­láks eru nefnd­ir í beinu fram­haldi, er ekki frá­leitt, að einn­ig eigi við þau.

8Brugðu búi: Faðir Þorláks finnst ekki nefndur oft­ar í sög­unni. Ef til vill vissi höf­und­ur henn­ar ekki, hvað um hann varð. Þór­hall­ur hafði ver­ið far­mað­ur, og þeir týnd­ust stund­um í sigl­ing­um á milli landa, svo að einn mögu­leiki sé nefndur. En þurft getur að bregða búi út af fá­tœkt, veik­ind­um eða hverju öðru. Séra Jón Skagan setti fram hugmynd um foreldra Þorláks: “Ef til vill hafa þau lagt jörðina að Hlíðarenda eða leigur hennar í námskostnað sonarins að Odda og verið þar síðan próventumenn. Víst er um það, að Hlíðarendi kemst um þessar mundir í eigu eða umráð Oddaverja…” (Saga Hlíðarenda í Fljótshlíð, bls. 26). Því miður er ekki vitað, hve mikinn hluta af þessu höfuðbóli Þórhallur hafði undir eða hvort það var eignarland hans.

9Saltari á við Davíðs­sálmana. En aldur Þorláks á þess­um tíma er ekki vit­að­ur, svo að fátt verð­ur álykt­að um það nám, nema hann fékk guð­rækn­is­legt uppeldi.

10Vak­ur: snar­ráð­ur; fjör­ug­ur.

11Davíð kenn­ir: Sálm­arn­ir 34.15 (de­verte a malo et fac bon­um in­quire pac­em et persequere eam; áð­ur 33. sálmur).

                         

Þessi kafli er hluti af Þorláks sögu hinni elztu.

                           

Þann tíma, er stýrði Guðs kristni Anaklet­us1 páfi, en kon­ung­ar voru yf­ir Nor­egi Magn­ús Sig­urð­ar­son2 og Har­ald­ur gilli3, þá var fœdd­ur í hér­aði því á Ís­landi, er Fljóts­hlíð heit­ir, Þor­lák­ur hinn helgi, á bœ þeim, er heit­ir að Hlíð­ar­enda, á því ári, sem Þor­lák­ur bisk­up Run­ólfs­son and­að­ist4. Eigi bar af því nöfn þeirra sam­an, að hann væri eft­ir Þor­láki bisk­upi heit­inn5, held­ur af því, að sá, er allt veit og öllu stýr­ir, vildi þá virð­ing gera Þor­láks bisk­ups hins fyrra, að hans nafn væri jafn­an elsk­að og dýrk­að af öll­um þeim mönn­um, er síð­an hef­ur auð­ið orð­ið að heyra og vita dýrð hins sæla Þor­láks bisk­ups. Hef­ur al­mátt­ug­ur Guð þá dýrð veitt nafni hins sæla bisk­ups, sem fyrr sagði Salómon6 hinn spaki, að betra væri gott nafn en mik­il auð­æfi, en það var þá sann­lega gott, er helg­að var und­ir heil­agri skírn, en bless­að síð­an með bisk­ups­legri tign. Hef­ur sá orðs­kvið­ur í þessu sann­azt, að það er spáð, er spak­ir mæla, að það nafn verð­ur nú mörg­um gulli betra, þeim er á hann heita í sín­um nauð­synj­um. Það sann­ast nú og eigi síð­ur í þessu máli, sem í öðr­um stað7 seg­ir heil­ög ritn­ing, að betra er gott nafn en dýrð­leg smyrsl, af því að nú ber oft þá raun á, að nú verð­ur oft­lega það skjótt gert8 af ákalli hans nafns, er hvorki hef­ur áð­ur mátt heilt verða af smyrsl­um né af lækn­ing­um þeim, er menn hafa áð­ur með far­ið og til leitað.

                               

1Anakletus II. var mót­páfi í Róm á ár­un­um 1130 – 1138.

2Magn­ús Sig­urð­ar­son blindi var kon­ung­ur 1130 – 1135 og 1137 – 1139.

3Har­ald­ur gilli Magn­ús­son var kon­ung­ur 1130 – 1136.

4Andaðist: Þor­lák­ur bisk­up Run­ólfs­son dó 31.1. 1133, sem í Kon­ungs­annál er sagt fœð­ing­ar­ár heil­ags Þor­láks Þór­halls­sonar.

5Heitinn: Hinn sæli Þor­lák­ur hef­ur ver­ið heit­inn eft­ir eða í höf­uð­ið á afa sín­um í föð­ur­ætt, sem forn­rit­um ber ekki sam­an um, hvort var Þór­halls­son eða Berg­þórs­son, og er þó einn mað­ur­inn, ókunn­ur nema sem lið­ur í ætt­ar­tölum.

6Sagði Salómon í Orðs­kvið­un­um 22.1 (melius est nomen bonum quam divitiae multae).

7Í öðr­um stað á við Prédik­ar­ann 7.1 (melius est nomen bonum quam unguenta pretiosa; á fyrri tíð tölu­sett sem 2. vers).

8Gert: ann­ar rit­hátt­ur grœtt.

                  

Þessi kafli er hluti af Þorláks sögu hinni elztu.

                    

Þorlákur helgi (stytta í Kristskirkju í Reykjavík)

                   

Ófullgert (lesendur mega gjarn­an gera at­huga­semd­ir við skýr­ing­ar í köfl­un­um eða til­taka fleiri at­riði, sem ástœða kann að vera til að skýra út).

                  

Bókinni er hér skipt í eftirfarandi kafla:

1. Fœddur Þorlákur biskup

2. Frá æskuárum Þorláks

3. Frá námi Þorláks

4. Prestvígsla Þorláks og utanför

5. Bónorðsför Þorláks og vitrun

6. Þorlákur dvaldist í Kirkjubœ á Síðu

7. Þorlákur varð ábóti í Þykkvabœ

8. Klausturstjórn Þorláks ábóta

9. Þorlákur ábóti kjörinn til biskups

10. Biskupsefni fór utan

11. Vígður Þorlákur til biskups

12. Af stjórnsemi Þorláks biskups

13. Frá guðrækni og bœnahaldi biskups

14. Af ölmusugjöfum og siðvendni biskups

15. Af stjórnsemi Þorláks biskups

16. Frá háttum Þorláks biskups

17. Draumur Þorláks biskups

18. Andlát Þorláks biskups

19. Frá greftri Þorláks biskups

                  

                        

Mynd:S rosalia.jpg

                          

Rosalia mey er verndardýrlingur í heimaborg sinni, Palermo á Sikiley. Hún var góðrar ættar, fékk ung löngun til að helga sig kristinni trú og gerðist einsetukona, ef til vill nunna af reglu heilags Basilíusar. Helgisaga greinir, að tveir englar hafi fylgt henni að helli uppi á Monte Pellegrino, og þar hafi hún sezt að en dáið 4. september 1165. Sums staðar er ártalið haft 1166.

Árið 1624 geysaði drepsótt í Palermo, og þá á Rosalia að hafa birst veikri konu, sagt henni frá hellinum og ráðlagt að sækja líkamsleifar sínar og bera þær í helgigöngu inn í Palermo. Það var gert, og drepsóttin rénaði. Urbanus páfi VIII. lýsti árið 1630 yfir helgi þessarar meyjar. Messudagar hennar eru 15. júlí og 4. september.

                       

Borrelli, Antonio @ Santi, beati e testimoni

Odden, séra Per Einar @ Den Katolske Kirke i Norge

Wikipedia (íslenzka)

                     

Hálfum mánuði síðar varð sá at­burð­ur þar að hinni sömu ferju og þar, er ferj­an er vön á ánni að vera. Þá var hinn sami mað­ur á ferj­unni sem fyrr var nefnd­ur, er Stein­þór hét. En hann var öl­musu­góð­ur og arm­vit­ug­ur við fá­tœka menn að því öllu, er hann hafði fœri á. Enn voru marg­ir fá­tœk­ir menn við ána og máttu eigi yf­ir kom­ast, af því að ís var á ánni og eigi geng­ur. En skip­inu mátti og eigi við koma. Tók þá að gráta fá­tœk­is­lið­ið, er það mátti eigi sœkja til þess skjóls, er það hafði lengi til spar­azt. Hon­um gekkst þá hug­ur við, ferju­mann­in­um, og kall­aði hann og mælti: “Kost­ið þér og grát­ið eigi,” kvað hann. “Heit­um vér held­ur á hinn sæla Þor­lák bisk­up og syngj­um fimm sinn­um Pater noster til glorie hon­um, og má hann yð­ur þeg­ar láta yf­ir kom­ast, er hann vill.” Síð­an sungu þau. En eft­ir það þá féll nið­ur ís­inn um þvera ána, og litlu breið­ari vök­in en skip­inu mátti róa. Og lá ís­inn síð­an nokk­ur dœg­ur ógeng­ur, bæði upp og nið­ur frá, til vitn­is þess­ar­ar jar­tein­ar, að all­ir mættu sjá, þeir er til komu. Fór þá hver síð­an leið­ar sinn­ar, lof­andi og dýrk­andi Guð al­mátt­ug­an og hinn sæla Þor­lák biskup.

Síðar, sjá 45. kafla. Armvitugur: hjartagóður. Kosta: freista, reyna. Pater noster: Fað­ir­vor­ið. Gloria: dýrð. Ferj­ur voru á Hvítá við Auðs­holt og Iðu, báð­ar skammt frá Skál­holti. Sjá einn­ig Þor­láks sögu yngri, 146. kafla [2002].

Þessi kafli er hluti af Jarteinabók Þorláks biskups frá 1199.

                                  

                                              

Sá atburður varð í Skálaholti, er mik­ils er verð­ur. Þar fóru menn á ferju­skipi yf­ir á þá, er Hvítá heit­ir. Var sá mað­ur á ferj­unni, er Stein­þór heit­ir, og flutti yfir ána prest þann, er syngja skyldi í þing sín. En fá­tœk­ir menn voru við ána og vildu gjarn­lega í Skála­holt fara, af því að þar var þeim meira skjól en hvar ann­ars stað­ar. En veð­ur var á hvasst og mjög kalt, og var skip­ið soll­ið og freð­ið, en áin var mik­il, og var breitt yf­ir að róa. En ferju­mað­ur var í skinn­brók­um mikl­um og þétt­um. Þeir fóru á skip hin­ir snauðu menn tíu, en ferju­mað­ur hinn ell­efti. En þá kom hinn tólfti mað­ur og sté þeg­ar á skip­ið, er sá kom til, og bar síð­an skip­ið frá landi og á djúp. En þeg­ar er vind­ur kom að, þá fyllti skip­ið, en síð­an sökk nið­ur.

Eft­ir það kom skip­ið upp og svo menn­irn­ir flest­ir lífs, og kom­ust nokkr­ir á kjöl. En flest­ir fengu á hann og báðu hann tœn­að­ar, ferju­mann­inn, og fór þá í kaf allt sam­an, og héldu þeir hon­um niðri, unz Stein­þór komst úr því fat­inu í kafi, er héldu á flest­ir. Eft­ir það kom Stein­þór upp, og hafði hann þá drukk­ið mjög og var þrek­að­ur mjög af kulda, og komst hann þá enn í skip­ið upp og fékk ár­ina, en fullt var skip­ið og mar­aði uppi um stund­ar sak­ir, en fyr­ir var djúp­ið að mest­um hluta. Komu þá upp hjá hon­um menn­irn­ir og flest­ir all­ir ör­end­ir. Vænti hann þá og ekki sér lífs.

En með­an skip­ið mar­aði uppi, hét Stein­þór á Guð og hinn sæla Þor­lák bisk­up til þess, að hann skyldi koma til þess lands, er nær var Skála­holti, og lík hans skyldi finn­ast, þótt hon­um væri ekki lífs auð­ið. Síð­an fór hann nið­ur til grunna og var svo þung­ur í vatn­inu sem stein­ar væru við hann bundn­ir, er skinn­brœk­urn­ar voru full­ar vatns. Hann ætl­aði að vaða í kaf­inu, með­an hann vissi til sín, til þess lands, er hann vildi koma, og lét ár­straum­inn falla á síðu sér. En svo var djúp­ið mik­ið, að það var jafn­skjótt, er hann kom til grunna, og þá var þrot­ið ör­endi hans.

Þá varð fá­kunn­leg­ur hlut­ur. Hann þótt­ist sjá sem hönd manns í kafi, og sóp­aði vatn­inu frá and­liti hans, og tók hann önd í kafi, svo að hann drakk eigi, og fór svo þrisv­ar. Taka vildi hann hönd­um það, er hann þótt­ist sjá, og mátti hann eigi. Eft­ir það tók áin að grynn­ast þar, er hann var kom­inn, og grufl­aði hann til lands og mátti hvorki standa né ganga, þá er hann hitti menn. En þó varð hann heill fárra nótta.

Hið sama kvöld var far­ið eft­ir Stein­þóri og á leit líka. Þá fund­ust lík tveggja mœðgna og í föt­um þeirra silf­ur­sylgja sú, er þær höfðu sagt áð­ur, að þær skyldu fœra Þor­láki bisk­upi. Þessi at­burð­ur gerð­ist á degi ár­tíð­ar Klængs biskups.

Fengu á: héldu sér í. Tænaður: liðsinni. Grunn: botn. Þrjóta ör­endi: þurfa að draga and­ann. Fá­kunn­leg­ur: óal­geng­ur. Dag­ur ár­tíð­ar Klængs: 28. febr­úar er lík­lega dauða­dag­ur þessa bisk­ups, sem and­að­ist ár­ið 1176. Ferj­ur voru á Hvítá við Auðs­holt og Iðu, báð­ar skammt frá Skál­holti. Sjá einn­ig Þor­láks sögu yngri, 145. kafla [2002].

Þessi kafli er hluti af Jarteinabók Þorláks biskups frá 1199.