Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for the ‘Postular’ Category

Píslarvætti Andrésar

     

Helgiskrín Andrésar í Patras

    

Daginn eftir var Jóhannes [skírari] þar aftur staddur og tveir læri­svein­ar hans. Hann sér Jesú á gangi og seg­ir: “Sjá, Guðs lamb.” Læri­svein­ar hans tveir heyrðu orð hans og fóru á eft­ir Jesú (Jh 1.35-36). Þeir voru nú hjá hon­um þetta síð­degi. Ann­ar þess­ara tveggja, sem heyrðu orð Jó­hann­es­ar og fóru á eft­ir Jesú, var Andrés, bróð­ir Símon­ar Pét­urs. Hann finn­ur fyrst bróð­ur sinn, Símon, og seg­ir við hann: “Við höf­um fund­ið Mess­ías!” Hann fór með hann til Jesú. Jesús horfði á hann og sagði. “Þú ert Símon Jó­hann­es­son, þú skalt heita Kefas” (Jh 1.40-­42). Þetta má heita upp­haf alls kristni­boðs, að Andrés leiddi bróð­ur sinn til Jesú. Og þar sem Andrés var ann­ar þeirra læri­sveina, sem fyrst voru kall­að­ir, hef­ur hann á grísku feng­ið auk­nefn­ið proto­kletos. Símon er á öðr­um stað sagð­ur Jónas­son (Mt 16.17), sem þá ætti senni­lega einn­ig við Andrés [orð­ið bróð­ir hef­ur fleiri en eina merk­ingu í Bibl­íunni, þótt naum­ast sé gert að álit­um varð­andi þessa menn]. Þeir voru frá Bets­aidu í Galíleu (Jh 1.44), störf­uðu sem fiski­menn (Mt 4.18; Mk 1.16) og áttu heima í sama húsi í Kaper­naum við Gen­es­ar­et­vatn­ið (Mk 1.29). Fé­lag­ar þeirra voru brœð­urn­ir Jakob og Jó­hann­es Sebed­eus­syn­ir, einn­ig fiski­menn í sama bœ. En þeir lögðu bát­um sín­um að landi, yf­ir­gáfu allt og fylgdu Jesú (Lk 5.10-­11). Þess­ir fjór­ir menn voru svo vald­ir í hóp hinna tólf post­ula, jafn­an hafð­ir fyrst­ir í upp­taln­ingu á þeim (Mt 10.2; Mk 3.16-­18; Lk 6.14; P 1.13).

Andrés og Filippus postular voru sér­stak­lega nefnd­ir, þeg­ar Jesús mett­aði 5.000 manns við Galíleu­vatn­ið (Jh 6.5-­13) og þeg­ar Grikk­ir nokkr­ir vildu fá að sjá hann (Jh 12.20-22). Jesús sagði fyr­ir eyð­ingu must­er­is­ins í Jerú­sal­em: “…Ekki mun eft­ir lát­inn steinn yf­ir steini, er eigi sé nið­ur brot­inn.” – Þá er hann sat á Olíu­fjall­inu gegnt helgi­dóm­in­um, spurðu hann eins­lega þeir Pétur, Jakob, Jó­hann­es og Andrés: “Seg þú oss, hve­nær verð­ur þetta? Og hvert mun tákn þess, að allt þetta sé að koma fram?” (Mk 13.2-­4). Hann svar­aði í löngu máli, hvers vænta skyldi og hvað bæri að varast.

Þótt Andrés sé ekki sérstaklega nafngreind­ur, hef­ur hann tek­ið þátt í síð­ustu kvöld­mál­tíð­­inni og orð­ið vitni að upp­ris­unni og upp­stign­ingunni.

Eusebius biskup [d. 339] vitnaði í Origenes [d. 254] og sagði Andrés hafa boð­að kristni í Skyþíu. Gregor­íus kirkju­fað­ir frá Naz­ianz­us [d. 390] nefndi Epir­us. Hiero­nym­us kirkju­fað­ir [d. 420] til­tók Achaía á Pelops­skaga. Theo­dor­et­us kirkju­fað­ir [d. 458] hafði Hell­as án frek­ari skil­grein­ing­ar. Nice­phor­us kirkju­sögu­rit­ari [d. 1335] kvaðst styðj­ast við eldri höf­unda [tók senni­lega allt, sem hver hafði fram­ar en hin­ir] og taldi Andrés hafa pré­dik­að í Cappa­docíu, Galat­íu og Biþyn­íu, síð­an í landi mann­æt­anna og eyði­mörk­um Skyþíu, einn­ig í borg­inni Byzant­ium, og þar hafi hann [ár­ið 38] út­nefnt heil­ag­an Stachys sem fyrsta bisk­up­inn [Andrés er álit­inn stofn­andi og vernd­ari kirkj­unn­ar í Kon­stant­ín­ópel og tal­inn fyrst­ur af patrí­örk­um henn­ar], en loks í Þrakíu, Make­doníu, Þessalíu og Achaíu.

Andrés er síðast talinn hafa átt heima í bœn­um Patras [Pátrai] í Grikk­landi. Þar var hann kross­fest­ur eft­ir skip­un land­stjóra, sem hét Aeg­eas eða Aeg­eat­es og hafði árang­urs­laust reynt að þvinga post­ul­ann til að til­biðja hina róm­versku guði.

Andrés var bundinn en ekki negldur á kross­inn, til að lengja þján­ing­una, og er sagð­ur hafa lif­að þann­ig í tvo eða þrjá daga og all­an tím­ann pré­dik­að fyr­ir fólk­inu. Kross hans er í mynd­list sýnd­ur sem bók­staf­ur­inn X, en heim­ild­ir fyr­ir því þekkj­ast ekki eldri en frá 10. öld. Þetta gerð­ist í stjórn­ar­tíð Nerós [d. 68], og Andrés dó 30. nóvem­ber ár­ið 60 [frek­ar en ár­ið 62], sem er messu­dag­ur hans. Í Martyro­log­ium Rom­an­um stend­ur: “Apud Patras, in Achaia, natal­is sancti Andreæ Apostoli, qui in Thracia et Scythia sacrum Christi Evangel­ium prædicavit. Is, ab Ægea Pro­nconsule com­prehen­sus, prim­um in carcere clausus est, deinde gravissime cæsus, ad ultim­um suspensus in cruce, in ea popul­um docens biduo super­vixit; et, rogato Domino ne eum sineret de cruce deponi, circumdat­us est magno splendore de cælo, et, abscedente post­modum lumine, emisit spiritum.”

Með tilskipun keisarans var helgur dómur Andrés­ar flutt­ur ár­ið 357 frá Patras til Kon­stant­­ín­­ópel og kom­ið fyr­ir í Post­ula­kirkj­unni. Í fjórðu kross­ferð lagði her­tog­inn af Fen­eyj­um, Enrico Dandolo, borg­ina und­ir sig, og stofn­að var lat­neskt keis­ara­dœmi, sem stóð lið­lega eina öld. Árið 1208 flutti kardínál­inn Pétur frá Capua helg­an dóm Andrés­ar frá Kon­stant­ín­ópel til hafn­ar­borg­ar­inn­ar Amalfi á Ítalíu, fyr­ir sunn­an Napolí. Þar hvíl­ir hann í hvelf­ingu und­ir altar­inu í dóm­kirkj­unni Sant’­Andrea. Sjó­menn á þeim slóð­um líta á Andrés sem vernd­ar­­dý­rling sinn, og á messu­degi hans eru ótal litl­ir fisk­ar úr silfri hengd­ir á styttu hans, sem bœn um og þökk fyr­ir góð afla­brögð. Tómas Palaio­logos gaf Piusi II. páfa helg­an dóm post­ul­ans ár­ið 1461. Vegna hættu á árás­um frá Tyrkj­um, flutti páfi haus­kúpu Andrés­ar í dýr­mætu skríni til Róm­ar 1462, og þar var henn­ar vel gætt. En í sam­kirkju­leg­um anda sendi Páll VI. páfi höf­uð­ið síð­an til grísk-­orþó­doxu kirkj­unn­ar í Patras 23. septem­ber 1964, ásamt vin­gjarn­legu bréfi á grísku. Það er geymt í Andrés­ar­kirkju, sem reist er á dauða­stað hans (sjá mynd). Enn er ótal­ið, sem Skot­ar hafa fyr­ir satt, að á fjórðu öld hafi heil­ag­ur Reg­ul­us frá Patras feng­ið op­in­ber­un, þeg­ar eng­ill bað hann að fara með hluta af helg­um dómi Andrés­ar til óþekkts stað­ar í norð­vestri. Hann gerði það og kom til Fife í Skot­landi. Þá birt­ist sami eng­ill­inn og bauð hon­um að nema stað­ar. Þar reisti heil­ag­ur Reg­ul­us kirkju, til að hýsa hinn helga dóm, og dvald­ist mörg ár við kristni­boð. Þessi stað­ur fékk nafn­ið St. Andrews, á aust­ur­strönd Skot­lands við sam­nefnd­an flóa. Þá er kross Andrés­ar sagð­ur varð­veitt­ur í klaustr­inu í Beaune, en þar var áð­ur her­toga­dœmi burg­und­ara, post­ul­inn helzti dýr­ling­ur þess ríkis.

Andrés er verndardýrlingur fiski­manna, fisk­sala, slátr­ara, námu­manna, sigl­inga­manna, vatns­bera og gam­alla jóm­frúa, en einn­ig á þess­um stöð­um: Skot­land, Rúss­land, Spánn, Hellas, Aust­ur­ríki neðra, Sikil­ey, Napoli, Brescia, Ravenna, Amalfi, Mantova, Bord­eaux, Brügge, Patras og Akaia. Hann þyk­ir góð­ur til áheita fyr­ir ham­ingju­samt hjóna­band og gegn barn­leysi, gigt, sær­ind­um í hálsi, krampa og heima­komu. Hann er vernd­ari fyr­ir ridd­ara­regl­ur, sem Filipp­us góði stofn­aði 1429, Jakob V. Skota­kon­ung­ur 1540 og Pét­ur mikli Rússa­keis­ari 1698. Á helgi­mynd­um er Andrés stund­um sýnd­ur með fiski­net eða fisk.

Verk Andrésar heitir rit, sem var skráð á 3. öld og seg­ir frá pínu og líf­láti post­ul­ans. Sag­an af hin­um heil­ögu post­ul­um Matt­eusi og Andrési er merki­leg bók, sem grein­ir frá kristni­boði hjá mann­æt­un­um í Hundaborg.

Helgimyndina að ofan gerði Bartolome Esteban Murillo ná­lægt 1680.

    

Don Luca Roveda @ Santi, beati e testimoni

Benedictus PP. XVI (ávarp 14. júní 2006)

Catholic Online

Ecumeníska patríarkið

Église Catholique en France

Encyclopedia of Ukraine

Heiligen-3s

Jacobus de Voragine (13. öld)

Jones, Terry @ Star Quest Production Network

Katholiek Nederland

Kathpedia

Keck, Karen Rae @ Saint Pachomius Library

MacRory, Joseph @ The Catholic Encyclopedia (1907)

Odden, Per Einar @ Den Katolske Kirke i Norge

Orthodox Wiki 

Santopedia

Stadlers Vollständiges Heiligenlexikon

Wikipedia (enska)

Wikipédia (franska)

Wikipedia (hollenzka)

Wikipedia (ítalska)

Wikipédia (portúgalska)

Wikipedia (spænska)

Wikipedia (þýzka)

Ökumenisches Heiligenlexikon

Read Full Post »

« Newer Posts