Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for the ‘Norðurlönd’ Category

Gizur er hjá kaþólsku kirkjunni í Noregi talinn til helgra manna, og hans er sömuleiðis getið við messudaginn 28. maí hjá hinu þýzka  Ökumenisches Heiligenlexikon, en það var dauðadagur Gisurar. Hann menntaðist í klausturskóla í Herfurðu í Westfalen í Þýzkalandi. Hann var á Alþingi 1081 kjörinn biskup eftir föður sinn, Ísleif Gizurarson, og fór Gizur til Rómar á fund Gregoriusar páfa VII., sem féllst á kjör hans og sendi hann til að fá vígslu í Magdeburg í Þýzkalandi, sem gerðist 4. september 1082. Gizur settist að á föðurleifð sinni, Skálholti í Biskupstungum, sem hann gaf árið 1096 til að vera biskupsstóll. Hann gekkst árið 1097 fyrir setningu tíundarlaga. Hann tók Norðurland undan biskupsdæmi sínu árið 1104, svo að þar yrði sérstakt biskupsdæmi, og var biskupssetrinu valinn staður á Hólum í Hjaltadal.

Ari fróði var kunnugur Gizuri og sagði í Íslendingabók: „Gizurr byskup, sonr Ísleifs, var vígðr til byskups at bæn landsmanna á dögum Óláfs konungs Haraldssonar, tveim vetrum eftir þat, er Ísleifr andaðist. Þann var hann annan hér á landi, en annan á Gautlandi. En þá var nafn hans rétt, at hann hét Gisröðr. Svá sagði hann oss. […] Gizurr byskup var ástsælli af öllum landsmönnum en hverr maðr annarra, þeira er vér vitim hér á landi hafa verit. Af ástsælð hans ok tölum þeira Sæmundar, með umbráði Markús lögsögumanns, var þat í lög leitt, at allir menn tölðu ok virtu allt fé sitt ok sóru, at rétt virt væri, hvárt sem var í löndum eða í lausaaurum, ok gerðu tíund af síðan. Þat eru miklar jartegnir, hvat hlýðnir landsmenn váru þeim manni, er hann kom því fram, at fé allt var virt með svardögum, þat er á Íslandi var, ok landit sjálft ok tíundir af gervar ok lög á lögð, at svá skal vera, meðan Ísland er byggt. – Gizurr byskup lét ok lög leggja á þat, at stóll byskups þess, er á Íslandi væri, skyldi í Skálaholti vera, en áðr var hvergi, ok lagði hann þar til stólsins Skálaholtsland ok margra kynja auðæfi önnur bæði í löndum ok lausum aurum. – En þá er honum þótti sá staðr hafa vel at auðæfum þróazt, þá gaf hann meir en fjórðung byskupsdóms síns til þess, at heldr væru tveir byskupsstólar á landi hér en einn, svá sem Norðlendingar æstu hann til. En hann hafði áðr látit telja búendr á landi hér, ok váru þá í Austfirðingafjórðungi sjau hundruð heil, en í Rangæingafjórðungi tíu, en í Breiðfirðingafjórðungi níu, en í Eyfirðingafjórðungi tólf, en ótalðir váru þeir, er eigi áttu þingfararkaupi at gegna of allt Ísland. […] Þat var ok it fyrsta sumar, er Bergþórr sagði lög upp, þá var Gizurr byskup óþingfærr af sótt. Þá sendi hann orð til alþingis vinum sínum ok höfðingjum, at biðja skyldi Þorlák Runólfsson, Þorleikssonar, bróður Halls í Haukadali, at hann skyldi láta vígjast til byskups. En þat gerðu allir svá sem orð hans kómu til, ok fekkst þat af því, at Gizurr hafði sjálfr fyrr mjök beðit, ok fór hann útan þat sumar, en kom út it næsta eftir ok var þá vígðr til byskups. – Gizurr var vígðr til byskups, þá er hann var fertögr. Þá var Grégóríús septimus páfi. En síðan var hann inn næsta vetr í Danmörku ok kom of sumarit eftir hingat til lands. En þá er hann hafði verit tuttugu ok fjóra vetr byskup, svá sem faðir hans, þá var Jóan Ögmundarsonr vígðr til byskups fyrstr til stóls at Hólum. Þá var hann vetri miðr en hálfsextögr. En tólf vetrum síðar, þá er Gizurr hafði alls verit byskup þrjá tigi ok sex vetr, þá var Þorlákr vígðr til byskups. Hann lét Gizurr vígja til stóls í Skálaholti at sér lifanda. Þá var Þorlákr tveim vetrum meir en þrítögr, en Gizurr byskup andaðist þrjátigi náttum síðar í Skálaholti á inum þriðja degi í viku fimmta kalend. Junii [28. maí].“ Fleira segir frá Gizuri í bókinni Hungurvaka.

 

Per Einar Odden @ Den Katolske Kirke i Norge

Wikipedia (íslenzka)

Wikipedia (þýzka)

Auglýsingar

Read Full Post »

 

Eiríkur sat að löndum 1156-1160. Eiríkur konungur og Henrik Uppsalabiskup efndu 1157 til krossferðar gegn Finnum, sem heyrðu undir Svía en voru að mestu heiðnir og gerðu þessi misseri árásir inn í Svíþjóð. Þeir komust klakklaust til Finnlands og hittu liðsafnað heimamanna í suðvestanverðu landinu. Konungur bauð þeim frið og biskup átrúnað góðan. Hvoru tveggja var hafnað, og kom þá til orrustu. Konungur hafði betur, og tók svo biskup Finnana, sem eftir lifðu, og skírði þá. Hann hélt kyrru fyrir í landinu. En konungur sigldi heimleiðis og endaði ævi sína vorið 1160 sem heilagur píslarvottur, þegar hann var að ganga frá messu og Magnús Henriksson drap hann. Þann Magnús drap Karl Sörkvisson síðan 1161. Eiríkur konungur var maður siðvandur og grandvar í öllu dagfari og réttnefndur faðir þegna sinna, skráði Páll Melsteð. Eiríkur er verndardýrlingur Svíþjóðar. Hann á messudag 18. maí.

 

Catholic Dormitory

Per Einar Odden @ Den Katolske Kirke i Norge

Wikipedia (sænska)

Ökumenisches Heiligenlexikon

 

Á málverkinu sjást konungur og biskup sigla áleiðis til Finnlands.

 

Hér mæta konungur (kórónaður á aftara skipinu) og biskup (með mítur á fremra skipinu) safnaði Finna.

 

Hauskúpa og kóróna Eiríks IX.

Eiríkur IX. hauskúpa og kóróna

Read Full Post »

 

Þetta klaustur heyrir til Ordo fratrum praedicatorum, og í því eru sex bræður. Þeir eru: séra Joseph Mulvin subpríor (f. 1948), séra Arne Dominique Fjeld (f. 1934), séra Jon Atle Wetaas príor (f. 1958), séra Ellert Dahl (f. 1928), bróðir Gérard-Marie Ketterer (f. 1938) og  séra Haavar Simon Nilsen; auk heldur sá sjöundi utan klaustursins, séra Aage Hauken (f. 1947). Á efri myndinni standa bræðurnir fyrir framan klaustrið sitt. Neðri myndin er úr klausturkapellunni, þegar séra Haavar Simon vinnur eilífðarheit reglunnar.

 

St. Dominikus Kloster, vefur klaustursins

 

Read Full Post »

 

Klaustrið var stofnað 1990 sem dótturklaustur frá Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. Það er í borginni Tromsø, sem er nyrst á Hálogalandi, norður undir Finnmörku. Það var í fyrstu í bráðabirgðahúsnæði, en fljótt var byrjað að reisa eiginlegt klaustur, sem var vígt 23. ágúst 1998. Nunnureglan heitir Ordo Carmelitarum Discalceatorum. Síðasta orðið þýðir skólaus. Reglan þykir ströng.

 

Curia Generale del Carmelo Teresiano

Karmellittklosteret “Totus Tuus” Tromsø, vefur klaustursins

Wikipedia (enska)

 

Read Full Post »

 

Munkeby kloster í Lifangri [Levanger] í Þrándheimi var stofnað seint á tólftu öld og starfrækt í nokkra áratugi, heyrði til reglu Sistersíana. Nýtt klaustur var stofnað í Munkeby 14. september 2009, heyrir til hinni ströngu reglu Sistersíana [Ordo Cisterciensium Strictioris Observantiae] og er dótturklaustur frá Abbaye de Cîteaux í Frakklandi. Munkar í þeirri reglu eru kallaðir Trappistar. Í Munkeby eru að staðaldri fjórir munkar. Þeir framleiða ost, sem þykir góður.

 

Munkeby Mariakloster, vefur klaustursins

Munkeby Mariakloster, síða klaustursins á Facebook

Munkeby Mariaklosters Blogg

Wikipedia (norska)

 

 

 

Read Full Post »

                      

Eftir jól voru menn send­ir úr Skál­holti eft­ir bisk­ups­efni, og fór hann aust­an á langa­föstu1 og með hon­um Jón Lofts­son2, er þá var mest­ur höfð­ingi á Ís­landi, og komu þeir til stað­ar­ins í Skál­holti hálf­um mán­uði fyr­ir páska, og var þar Giz­ur Halls­son3 fyr­ir. Þar voru og aðr­ir menn, þeir er bisk­ups vin­ir voru og for­sjár­menn hér­aðs­ins voru. Tók þá Þor­lák­ur við for­ráð­um stað­ar­ins, og var þá þeg­ar mik­il skuld gerð til þeirra nauð­synja, er bú­ið þurfti að hafa. Hann hafði þá þeg­ar mikla skap­raun, bæði af við­ur­vist manna og öðr­um óhœg­ind­um, þeim er hann átti um að vera, og bar hann þær all­ar þol­in­móð­lega. Klæng­ur bisk­up lá í rekkju með litl­um mætti, og Þor­lák­ur var þá í Skál­holti, af því að menn vildu eigi, að hann fœri ut­an, fyr­ir sak­ir ófrið­ar4 þess, er þá var milli Nor­egs og Ís­lands, er mál­um var ósætt, þeim er gerzt höfðu landa í milli af víg­um og fjár­upp­tekt­um, og dvaldi hann þar um nokk­urra vetra sakir.

                      

En er Klængur biskup andað­ist5 og að því kom, að hon­um þótti nauð­syn til, að eigi væri leng­ur bisk­ups­laust í Skál­holti en þá hafði ver­ið, þá lét hann eigi leng­ur letj­ast ut­an­ferð­ar. Kom það fyr­ir ekki, þótt hann væri latt­ur ut­an­ferð­ar fyr­ir ófrið­ar sakir.

                 

Hann tók til orða Pálsmessu6 post­ula: “Eigi skul­uð þér skelf­ast ótta vondra manna,” sagði hann. Var [hann] þá síð­an ut­an til­bú­inn, og vildi hann bæði hafa lít­ið fé, af því7 sem aðr­ir hafa haft, og eigi mik­ið föru­neyti, og greidd­ist vel um hans ferð, unz þeir komu við Noreg.

                 

1Langafasta árið 1175. Páskadag­ur mun hafa ver­ið 13. apríl.

2Jón Loftsson (1124 – 1197) var goð­orðs­mað­ur og djákni í Odda. Hann hafði lengi hald­ið Ragn­heiði syst­ur Þor­láks sem frillu (ann­ar son­ur þeirra f. 1155).

3Gizur Hallsson (d. 1206) var goð­orðs­mað­ur og djákni í Hauka­dal, síð­ar lög­sögu­maður.

4Ófriður: Í Konungsannál segir við ár­ið 1170 Bar­dagi í Saur­bœ og við ár­ið 1172 Brenna í Saur­bœ en við ár­ið 1175 Víg Helga prests Skafta­son­ar. Átt mun við Saur­bœ á Kjal­ar­nesi. Helgi var veg­inn á al­þingi fyr­ir að hafa brennt skip fyr­ir Páli Aust­manni, og sótti Þor­varð­ur Þor­geirs­son vígs­mál­ið á hend­ur Aust­mönn­um, sem urðu að selja hon­um sjálf­dœmi, svo að ekki yrðu drepn­ir. Ann­ars er fátt um þess­ar deil­ur vit­að eða hversu víð­tœk­ar þær urðu. Í bréfi Ey­steins erki­bisk­ups, sem prent­að er í DI I, bls. 218 – 223 (þar fœrt til árs­ins 1173), er vik­ið að mál­inu: “Svo og það, sem þér haf­ið af­gert við kon­ung­inn og við lands­lýð hans, þá leið­rétt­ist það við hann, þótt marg­ir verði við bót­ina skip­ast, þar sem fá­ir hafa misgert.”

5Andaðist: Klængur dó 28. febrúar 1176. Þor­lák­ur þjón­ust­aði hann í bana­legu og stóð yf­ir greftri hans, stendur í 11. kafla Hung­ur­vöku.

6Pálsmessa: Helzt gæti átt við 30. júní 1177. Ás­dís Eg­ils­dótt­ir las ekki Páls­messu, eins og Guð­brand­ur Vig­fús­son gerði, held­ur Páls, og hefði þá Þor­lák­ur vitn­að til orða post­ul­ans, en ekki er sú til­vitn­un auð­fundin.

7Af því: Miðað við það.

             

Þessi kafli er hluti af Þorláks sögu hinni elztu.

Read Full Post »

                       

Sem ráð og líf hins heilaga Þor­láks skein með slík­um blóma síns hrein­líf­is og gæzku og fag­ur­legr­ar for­sjár ann­arra ráðs, sem nú var frá sagt, þá lét al­mátt­ug­ur Guð til þess rýma, sem hann hafði áð­ur fyr­ir hug­að, að hans veg­ur skyldi magn­ast og vaxa úr því sem þá var. En það varð með þeim hætti, að þá er Klæng­ur bisk­up gerð­ist mjög aldri orp­inn1, þá tók hann van­heilsu mikla, opn­uð­ust fœt­ur2 hans, og gerð­ist hann þá mjög van­fœr til síns embætt­is fyr­ir van­heilsu sak­ir. En hann hafði þá leyfi þeg­ið3 af Ey­steini erki­bisk­upi til þess, að mað­ur væri til bisk­ups kos­inn eft­ir hann. Fór Klæng­ur bisk­up til al­þing­is þá4 og sótti að vini sína, að mað­ur yrði ráð­inn til ut­an­ferð­ar, og voru þá lagð­ar stefn­ur til.

                   

Það sama sumar fór til al­þing­is svo sem send­ur af Guði Þor­lák­ur ábóti fyr­ir þær sak­ir, að hon­um þótti nauð­syn til bera, af því að hann var aldrei van­ur heim­an að fara nauð­synja­laust. Þá er um­ræða tókst um þetta mál, þá voru þrír menn und­ir kosn­ing nefnd­ir, þeir er bezt þóttu til falln­ir af öll­um, og var einn af þeim Þor­lák­ur ábóti. Ann­ar ábóti hét Ög­mund­ur5, hinn mesti skör­ung­ur. Þriðji var prest­ur, er Páll6 hét, lær­dóms­mað­ur mik­ill og hinn mesti bú­þegn7. Bar það fag­urt vitni hverj­um þeirra, að þess fýst­ist hver mest, er kunn­ast­ur var. En þess kenndi að um Þor­lák, að hann hafði sig eigi mjög upp haf­ið í metn­aði þeim, er sjálf­virð­ing8 heit­ir, og hrós­aði9 hann meir góð­gern­ing­um sín­um í Guðs aug­liti en manna, og kost­gæfði hann enn meir að vera af­bragð ann­arra manna í sinni gœzku en sýn­ast svo fyrir aug­um skyn­lít­illa manna. Og varð svo af því, að mörg­um þótti hann sér ókunn­ast­ur þeirra, er þá voru í vali, og var það af því vor­kunn­legt, að hann hafði mörg­um mönn­um ver­ið eigi all­ná­læg­ur að hér­aða­vist­um og heim­ili. Þor­lák­ur var fá­mál­ug­ur á þeim fundi, en marg­ir voru aðr­ir fjöl­orð­ir, þeir er þessi stór­mæli horfðu mið­ur til handa en honum.

                    

Var þá eftir leitað við Þor­kel Geira­son, er reynd­ur var að rétt­yrði en kunn­ast ráð Þor­láks af vitr­um mönn­um og göfg­um, hver skör­ung­ur Þor­lák­ur væri eða hve mik­ill orða­mað­ur10 hann væri.

             

En Þorkell svaraði: “Meir kost­gæf­ir Þor­lák­ur,” seg­ir hann, “að gera allt sem bezt en mæla sem flest.”

                    

Þau svör féllu mönnum vel í skap, og lögðu marg­ir þá þeg­ar meiri ást­ar­hug til Þor­láks, er þeir heyrðu svo verð­leg­an vitn­is­burð hans hátta af svo vitr­um manni og vel stillt­um. Urðu þau mála­lok, að kosn­ing­ur var lagð­ur und­ir Klæng bisk­up, að hann skyldi kjósa af þeim, er í vali voru. En hann kaus Þor­lák til ut­an­ferð­ar og að taka bisk­ups­vígslu eft­ir sig og þann vanda all­an, er því fylgdi11.

                  

Herra Þor­lák­ur ábóti fór af þingi aft­ur í kan­oka­set­ur sitt en bað Klæng bisk­up, að hann skyldi hafa for­ráð stóls og stað­ar þau miss­eri. En þá gerð­ust fjár­hag­ir óhœg­ir í Skál­holti. Urðu af­vinn­ur12 mikl­ar en til­lög lít­il. Var hann eigi fœr til yf­ir­far­ar, og tók­ust af all­ar gjaf­ir, og mátti þá eigi lengi svo fram flytj­ast öll miss­eri, að eigi þyrfti þá stórra við­fanga13.

                          

1Mjög aldri orpinn: Klængur var nærri sjö­tug­u (fœdd­ur 1102, að ætlan Páls Eggerts Óla­son­ar, en 1105, að ætl­an Ás­dís­ar Egils­dóttur og Boga Th. Melsteð).

2Opnuðust fœtur: Fékk fótasár.

3Þá leyfi þegið: Bréfið er prentað í DI I, bls. 218 – 223, þar fœrt til árs­ins 1173: “…bisk­ups kosn­ing og, ef þér vilj­ið á heilu ráði standa, þá frest­ið eigi, og lát­ið hann ut­an koma að sumri að vísu, því bæði þrot­ar Klæng bisk­up móð og mátt, og skul­uð þér ekki leng­ur þar ætla til þjón­ustu­gjörð­ar. En þér sjá­ið vand­lega fyr­ir kosn­ingu yð­ar, [að taka] þann til höfð­ingja, er þér ætl­ið helzt munu sálu yð­ar vilja til Guðs stýra, hvað sem er þeir leggja í móti heil­ræð­um hans, er mis­verk hitta.” Björn Þórð­ar­son leiddi lík­ur að því, að erki­bisk­up hefði vikið Klængi frá vegna barn­eign­ar­brots (Saga I, bls. 289 – 346).

4Þá: Árið 1174, stendur í Konungsannál og Lögmanns­annál.

5Ögmundur Kálfsson gaf aleigu sína til að stofna klaust­ur í Flat­ey á Breiða­firði ár­ið 1172. Hann gerð­ist sjálf­ur fyrsti ábót­inn. Það var kan­oka­set­ur af reglu Ágúst­ín­us­ar (DI I, bls. 280 – 282). Klaustr­ið var flutt 1184 að Helga­felli á Snæ­fells­nesi. Ög­mund­ur drukkn­aði 1189.

6Páll Sölvason var prestur í Reykholti í Borg­ar­firði. Hann var goð­orðs­mað­ur, laun­get­inn og eig­in­gift­ur, svo að und­an­þág­ur þurfti, ef hann hefði átt að ná bisk­ups­vígslu. Páll dó 1185. Frá hon­um seg­ir í Sturlungu. Sjá einnig hér.

7Búþegn: Bóndi. Páll var vel efnum búinn.

8Sjálfvirðing: Sjálfsálit.

9Hrósaði: Vann (sbr. hrósa sigri).

10Orðamaður: Mælskumaður.

11Fylgdi: Hér er í yngri gerð sögunnar við­bót, að Þor­lák­ur hafi ver­ið kjör­inn á Pét­urs­messu [29. júní], Klæng­ur vilj­að af­henda hon­um stað­ar­for­ráð þá þeg­ar, sem ekki gekk þó eft­ir, og bisk­ups­efni í fyrstu fœrzt und­an kosn­ing­unni. Fleiri helg­ir menn voru ófús­ir að taka við slíkri mann­virðingu.

12Afvinnur: Útgjöld. Bogi Th. Melsteð skráði um Klæng: “Það er látið mikið af gestrisni hans, fjölmennum veislum og stórum fjegjöfum við vini hans. Hann átti og gjafavíxl við hina stærstu höfðingja í öðrum löndum, þeim er í nánd voru, og af slíkum hlutum varð hann vinsæll, bæði utanlands og innan, segir sagan. Þurfti ógrynni fjár til alls þessa… svo að höfundur Hungurvöku undrast, hvernig biskup fékk staðist þetta, og að aldrei skyldi verða þar skortur á nauðsynjum” (Íslendinga saga III, bls. 235).

13Viðföng: Nauðsynjar, forði, vistir.

                       

Þessi kafli er hluti af Þorláks sögu hinni elztu.

                             

Read Full Post »

Older Posts »