Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for the ‘Helgistaðir’ Category

María mey birtist konu, sem hét Adele Brise (1831-1896), og fól henni að biðja fyrir syndurum og kenna börnum trúna.

 

Catholic Online

Catholic Priest – In Persona Christi

National Shrine of Our Lady of Good Help

WGN Chicago

Wikipedia (enska)

 

 

 

Auglýsingar

Read Full Post »

Lindin á Hellnum

Í alla staði er ágætt, að fólk geri alsælli Maríu Guðs­móð­ur vand­að­ar stytt­ur sem víð­ast, ef það er í góðu skyni gert og með við­eig­andi hætti, til dœm­is á fögr­um og frið­sæl­um stað, til að gera bœn sína til henn­ar frammi fyr­ir stytt­unni. Og vel er, að menn minn­ist sem oft­ast Guð­mund­ar góða (d. 1237), ekki sízt við lind­ir eða brunna, sem hann bless­aði með mikl­um árangri. Einnig er gott að hug­leiða, hve mik­ils hann virti Maríu mey, sem kaus að birt­ast hon­um í Nor­egi ár­ið 1226 en vís­ast oftar.

Við Hellna á Snæfellsnesi er ágæt lind, sem lengi var köll­uð Gvend­ar­brunn­ur, því að bisk­up­inn var tal­inn hafa bless­að hana. Án þess gert sé lít­ið úr þeirri ætl­an, verð­ur að spyrja, hver er elzta heim­ild­in? Svo gerð­ist það fyr­ir ekki svo mörg­um ár­um, að al­mennt var far­ið að kalla þessa upp­sprettu Lífs­lind en litlu síð­ar Maríu­lind, því að Guðs­móð­ir hefði birzt Guð­mundi bisk­upi á þess­um stað, að sögn ár­ið 1230. Þar hef­ur henni ver­ið reist stytta (sjá mynd­ina). Þetta finnst kall­að­ur helg­ur stað­ur. En aft­ur verð­ur að spyrja að elztu heim­ild. Eru það frá­sagn­ir fólks, sem fœdd­ist á 19. og 20. öld­um? Þótt það hefði ungt heyrt sögn frá gömlu fólki, og all­ir hafi vilj­að fara rétt með svo mik­ils­verð­an at­burð, eru varla dœmi hér­lend­is um vafa­lausa munn­lega geymd, sem nær sjö og hálfa öld. Kann til að mynda nokk­ur að segja frá orð­um eða gerð­um Snorra Sturlu­son­ar á þess­um sama tíma, nema ráð­fœra sig við Sturl­ungu? Síð­ari tíma opin­ber­un af guð­dóm­legri náð hef­ur ekki heyrzt nefnd, svo að at­hygl­in hlýt­ur að bein­ast að forn­um heim­ild­um, sem segi þetta bein­lín­is eða geri það lík­legt. Hverj­ar gætu þær verið?

Víst væri ástœða til að gleðjast mjög, ef svo mik­ils­verð­ur helgi­stað­ur er á Helln­um. En jafn víst er, að al­sæl María mey og Guð­mund­ur góði kunna því ekki vel, ef skakkt væri far­ið með heil­aga hluti, eins þótt vera ætti þeim til veg­semd­ar. Þessi pist­ill verð­ur með ánægju dreg­inn til baka, ef forn­ar heim­ild­ir reyn­ast vera fyrir hendi. Þang­að til það er ótví­rætt, virð­ist því mið­ur betra að fara með lönd­um og álykta ekki neitt um birt­ingu meyj­ar­inn­ar á Helln­um. En hvetja má fólk til að gera bœn sína til henn­ar, þar og hvar­vetna ann­ars stað­ar, oft á hverj­um degi, ekki sízt með þess­um orð­um: “Heil sért þú, María, full náð­ar. Drott­inn er með þér. Bless­uð ert þú með­al kvenna, og bless­að­ur er ávöxt­ur lífs þíns, Jesús. Heil­aga María, Guðs móð­ir, bið þú fyr­ir oss synd­ug­um mönn­um, nú og á dauða­stundu vorri. Amen.”

Sjá nánar:

Helga Halldórsdóttir: Öll erum við menn. Hafnarfirði 1986

Lesbók Morgunblaðsins 11. júlí 1998 (Sæbjörn Valdimarsson)

Lesbók Morgunblaðsins 22. ágúst 1998 (Kristinn Kristjánsson)

Morgunblaðið 1. desember 1998 (Sæbjörn Valdimarsson)

Morgunblaðið 12. desember 1998 (Guðrún G. Bergmann)

Morgunblaðið 16. desember 1998 (Kristinn Kristjánsson)

(allar blaðagreinarnar má lesa á vefnum www.timarit.is)

                       

Read Full Post »

                   

Mikjáll enginn með sverð

                     

Mikjáll engill birtist á Garganofjalli

                    

Kirkja heilags Mikjáls á Garganofjalli

                     

Bergur Sokkason (d. 1350) var Benedikts­munk­ur á Þing­eyr­um en flutt­ist það­an í klaustr­ið á Munka­þverá og var þar tví­veg­is ábóti. Hann rit­aði sögu Mikjáls eng­ils, til að lesa á há­tíð­um hans, og hér fer á eft­ir sá hluti henn­ar, sem fjall­ar um Monte Sant’­Angelo sul Garg­ano. Þetta var og er enn mjög fræg­ur stað­ur. Far­ið er eft­ir I. bindi af Heil­agra manna sög­um (12.-22. kafli), sem Carl Rik­ard Ung­er gaf út 1877, nema frá­gang­ur er felld­ur að síð­ari tíma hætti. Til sam­an­burð­ar má nota Acta Sanct­or­um, 8. bindi inn­an septem­ber­mán­að­ar (út­gef­ið 1762). Hefst nú frá­sögn Bergs ábóta:

12. kafli: Virðing og lofleg minn­ing hins sæla Mikha­el­is dýrk­an­leg öll­um heimi tek­ur efni og und­ir­stöðu af guð­legri mildi og þar með af kynn­ing kirkju þeirr­ar, er nefnd­ur ást­vin­ur guðs vann í verki og helg­aði sínu nafni. Þessi kirkja byrj­ar og skær­lega byrl­ar allri ver­öld nafn og virð­ing Mikha­el­is. Þetta must­eri er eigi prýtt eða pent­að, telgt eða tíg­ul­sett, held­ur er það skrýtt eng­il­legri ást og al­vöru, fá­tœkt í formi en harla ríkt í him­nesk­um krafti. Þetta hið mæta must­eri smíð­aði Mikha­el í ein­um fjalls­hvirfli, eigi með upp­reist­um veggj­um eða hárri þekju, held­ur er það sem einn hell­ir klapp­að­ur í bjarg­inu, og því er nú svo orð­ið, að Mikha­el ann meira hjart­ans must­eri en háu stein­smíði, meira sannri góð­fýsi en skyggð­um pílár­um eða væn­um gler­glugg­um. En hversu kirkja þessi kom í vit­orð heil­agr­ar kristni, skal segja þessu næst í guðs nafni.

13. kafli: Sepontus heitir borg, er stend­ur út á Pul með­al sjáv­ar þess, er Sinus Adriat­icus heit­ir, og fjalls þess, er menn kalla Garg­an­um. Fjall­ið stend­ur xii míl­ur brott af borg­inni. Það er stór­lega hátt [852 metr­ar], vax­ið ut­an með lág­um skógi og fögr­um grös­um, eink­an­lega þeim meg­in, sem að vissi borg­inni Seponto. Í þeim fjalls­hvirfli er Mikha­els must­eri, og í því must­eri er sú bók, er svo vott­ar af sinni fundn­ing og upp­hafi, að í greindri borg Seponto var forð­um einn harla rík­ur mað­ur, Garg­an­us að nafni. Hann átti marga hjörð, naut og sauði, svín og yxn, göm­ul og yngri. Með ým­is­leg­um hætti lagði hann und­ir sinn rík­dóm fjall­ið Garg­an­um og lét þar ganga hjörð­ina í hög­um góð­um. Var því fjall­ið kennt við nafn ríka manns. Er þó sú grein í með­al, að heiti fjalls­ins skal seint leiða en manns­nafn­ið skjótt. Nú ber svo til á nokkru sumri [ná­lægt ár­inu 490], sem smali ríka manns geng­ur í fjall­inu Garg­ano, að grað­ung­ur einn hafn­ar venju­legu sam­lagi sinna kumpána og fer mjög einn samt um sum­ar­ið, svo að bland­ast ekki við önn­ur naut. Líð­ur svo tími, þar til um haust­ið, að ríki mað­ur læt­ur skoða hjörð­ina og heim reka. Er þá sakn­að grað­ungs, er get­ið var áð­ur. Hvar fyr­ir burgeis­inn hef­ir uppi mik­ið fjöl­menni sveina sinna og sjálf­an sig, fer fram í fjall­ið og leit­ar, sem list var til, allt þar til að hann sjálf­ur herr­ann kem­ur upp í [bls. 694] fjalls­ins koll og sér um langt, hvar grað­ung­ur­inn stend­ur fyr­ir hell­is­dyr­um nokkr­um. Verð­ur hann svo reið­ur þess­ari sýn, að hann set­ur ör á streng og ætl­ar að skjóta í gegn­um grað­ung­inn og umbuna hon­um svo ein­ferð­ir sín­ar og óspekt. En er skeyt­ið kem­ur á apl­ann, snýr því á ann­an veg en mað­ur hugði, því að svo fór til að jafna sem sterk­asti vind­byl­ur kœmi á móti og kast­aði aft­ur sömu leið. Stefndi á bónda miðj­an og snar­aði í gegn­um hann. Og er borg­ar­menn Sepont­ini sjá þessi ný­orð­in tíð­indi, hræð­ast þeir ákaf­lega og þora eigi nær að koma, skynda sem mest aft­ur í borg og segja bysk­upi [heil­ag­ur Lor­enzo Maior­ano], hversu gjörzt hef­ur. Og með því að bysk­up var bæði vit­ur mað­ur og góð­ur fyr­ir guði, neyt­ir hann spöku ráði og kall­ar sam­an borg­ar­menn í höf­uð­kirkju stað­ar­ins, kunn­ugt ger­andi, hvað fram hef­ir far­ið litlu áð­ur með leynd­um guðs dómi í bráðu líf­láti ríka manns. Grein­ir hann og und­ir­stöðu þessa hlut­ar. En hvað þetta allt sam­an hef­ir þýða, seg­ir hann af him­nesku sæti leit­andi: “Því býð eg þriggja nátta föstu um alla borg­ina með bœna­haldi, að al­mátt­ug­ur guð virð­ist birta sinni kristni það, er hann sér nauð­syn­legt í þessu máli.”

14. kafli: Sem allir hlýða gjarnan sín­um föð­ur bysk­up­in­um og hafa svo lengi fast­að, öðl­ast herra bysk­up á þriðju nótt föst­unn­ar mik­inn fagn­að, því að hon­um birt­ist í sýn göf­ug­leg­ur herra með him­neskri birtu and­lits­ins og ljóm­andi feg­urð klæð­anna, svo tal­andi til hans sem hér má heyra: “Vel tókst yð­ur og vit­ur­lega, að það, er leynt var fyr­ir mönn­um, báð­uð þér guð auð­sýna, því að eigi má jarð­nesku hug­skoti ljóst verða það stór­merki, sem í því leyn­ist, er mað­ur­inn var gegn­um graf­inn sjálfs síns hand­skot­inu. Vit­ið án efa, að þetta er gjört með mín­um vilja, því að eg, Mikha­el höf­uð­eng­ill, er jafn­an stend í aug­liti guðs, hefi skip­að, að sá stað­ur í fjall­inu skal vera hreinn og heil­ag­ur, frjáls af allri saurg­an og blóðs­út­hell­ing, mér til dýrk­un­ar val­inn á jarð­ríki. Vildi eg sýna með þessu tákni, að eg er vernd­ari stað­ar þessa og álít­ari allra góðra hluta, þeirra er þar ger­ast með réttri trú og góð­fýsi.” Eft­ir svo tal­að hverf­ur sýn­in brott frá bysk­ups aug­liti. Má svo spyrja, ef lík­ar, úr vitr­an þess­ari, hversu hinn sæt­asti Mikha­el sagð­ist jafn­an standa fyr­ir guðs aug­liti, þar sem hann var á sagð­an tíma hér á jarð­ríki fyr­ir aug­um bysk­ups Sepont­ini, því að það má eigi skilja eft­ir lík­am­legri stað­setn­ing, að eng­ill sá, sem eigi var í öll­um stöð­um senn, megi bæði standa á himni fyr­ir guðs aug­liti og vera þó hing­að send­ur á jarð­ríki. En þessi spurn­ing verð­ur auð­veld­lega leyst, ef vér hugs­um, að [bls. 695] guð er í öll­um hlut­um og þó með engu móti inni strengd­ur, og hann er um alla fram og hvergi úti lukt­ur. Renna því engl­arn­ir fyr­ir ómælt víð­erni hans guð­dóm­legr­ar ná­vist­ar, hvort sem þeir renna til him­ins eða jarð­ar, og þó að þeir séu eigi í öll­um stöð­um, þá er hann þó þeim ná­læg­ur í öll­um stöð­um, og því mega þeir hvergi fara frá hans aug­liti. Rík­ir svo sann­leik­ur í orð­um sæls Mikha­el­is, því að hann er hinn hæsti guðs er­indreki.

15. kafli: Nú er þar til að taka, sem bysk­up vakn­ar, ger­andi sönn­um guði lof og dýrð fyr­ir sína mildi. Kall­ar hann enn sem fyrr sam­an all­an borg­ar­lýð fram til kirkju um morg­un­inn, grein­andi þeim með guð­hræðslu, hvað hann hef­ir heyrt og séð um nótt­ina. Síð­an nefn­ir hann ágæt­ustu menn borg­ar­inn­ar til ferð­ar með sér upp á fjall­ið Garg­an­um. Og er þeir komu þar, sem hæst var, finna þeir tvær dyr í fjall­inu, aðr­ar til suð­urs, aðr­ar til norð­urs. Voru þær stœrri, er stóðu til norð­urs. Sjá þeir, að frammi fyr­ir norð­ur­dyr­un­um eru gráð­ur nokkr­ar, áð­ur nálg­ist dyrn­ar og hurð­ina sjálfa, en uppi yf­ir pöll­un­um lýkur bjarg­ið sínu rjáfri á þann hátt sem eitt for­hús. En er Sepont­ini koma hér inn í fram að sjálfri hurð­inni, þora þeir eigi fyr­ir augu sín að for­vitn­ast lengra, því að svo bar mikl­um ótta og heil­ag­leik yf­ir þenn­an stað, að enginn dirf­ist fram­ar ganga en hon­um er nefni­lega lof­að. Koma borg­ar­menn af Seponto frá þeim degi jafn­an upp á fjall­ið að biðja sér guð misk­unn­ar og hinn helga Mikha­el­em. Standa þeir dag­lega fyr­ir dyr­um úti, því að enn var þeim eigi lof­að að ganga inn í sjálft musterið.

16. kafli: Nærri þessum tíð­ind­um ger­ist það, að sú heið­in þjóð, er Nea­polite kall­ast, stríð­ir upp á Sepont­um og sezt um borg­ina [her á veg­um býz­anska keis­ar­ans, en ekki er hand­bært, af hvaða þjóð­erni eða hve vel trú­að­ur; hinir kristnu heima­menn voru hins veg­ar af kyni Lang­barða]. Höfðu heiðn­ir menn liðs­afla miklu meiri, svo að borg­in var skjótt upp­gef­in þeirra valdi eft­ir lík­ind­um. Því gef­ur herra bysk­up það ráð sín­um borg­ar­mönn­um, að þeir beiði þriggja nátta frest af heið­ingj­um til ráða­gjörð­ar, hvort þeir skulu borg­ina upp gefa eða verja, með­an þeir mega. Og sak­ir þess að Nea­polite þykj­ast einn veg í hendi hafa ráð borg­ar­manna, hvern veg sem þeir taka, gefa þeir dval­ir þess­ar. Það geng­ur þeim og ann­að til, er þeir fresta at­göngu borg­ar­inn­ar, að þeim þyk­ir vel standa, þó að Sepont­ini bíði svo meira skaða fjár og sœmda, að þeir taki fyr­ir fram þriggja nátta kvöl í velti­legu hjóli sinn­ar ráða­gjörð­ar. En í þess hátt­ar brögð­um blekkj­ast heið­ingj­ar eigi lítt, því að all­an tíma þenn­an nátt með degi standa Sepont­ini í liðs­drætti, eigi af jarð­nesk­um hér­uð­um, sem vita má, því að þeir voru inni strengd­ir af her Nea­polit­ar­um, held­ur er [bls. 696] þessi Iið­safn­að­ur af him­nesk­um ríkj­um. Því að bysk­up þeirra býð­ur svo, að meiri og minni skal halda þriggja nátta föstu um alla borg­ina og biðja full­ting­is al­máttk­an guð og helg­an Mikha­el­em, að hann veiti þeim nokkra ásjá, svo að þeirra frelsi og föð­ur­leifð­ir legg­ist eigi und­ir heið­inn dóm. Því­lík er fram­ferð krist­inna manna, að vaka til guðs og biðja misk­unn­ar. En Nea­polite fara leið aðra. Þeir fást alla þessa daga í leik­um stór­um og þjón­ust­um guða sinna, að þeir efl­ist því fram­ar móti kristn­um mönnum.

17. kafli: Sem yfir stendur hin þriðja nótt föst­unn­ar og hin næsta fyr­ir bar­dag­ann, birt­ist Mikha­el Sepont­ino bysk­upi í ann­an tíma, svo segj­andi: “Fagn­ið þér, því að heyrð­ar eru bœn­ir yð­ar. Því bú­ist á morg­un rösk­lega fram í stríð og byrj­ið orr­ustu á fjórðu stund dags. Skul­uð þér þá prófa mitt full­tingi, svo að fögr­um sigri mun­uð þér fagna eiga.” En er bysk­up vakn­ar af vitr­an þess­ari, syng­ur hann lof hin­um sæla Mikha­eli, birt­andi lýðn­um þá feg­in­sögu, að ráð­inn er sig­ur í orr­ustu. Ger­ist nú þeg­ar gleði mik­il í fólki guðs, svo að lang­ar til bar­dag­ans. Og þeg­ar árla bú­ast þeir og her­klæð­ast hvat­lega. Eru þá og heið­ingj­ar bún­ir og hafa fylkt fyr­ir ut­an múr­ana. Sem hér er kom­ið, að hvor­ir tveggju eru bún­ir til at­göngu, sjá kristn­ir menn, að þoka mik­il líð­ur nið­ur yf­ir hæsta hluta fjalls­ins Garg­ani. Hér með heyra þeir gný­reið­ir mikl­ar, því­líkt sem pipri fjall­ið allt, en út af þok­unni fylgja eld­ing­ar sem örv­ar gló­andi fram í flokk Nea­polit­ar­um, svo að eng­in hlíf má við standa. Fyllt­ist vel á þeim degi spá­saga Davíðs, er bann tók svo til orðs at lofa guð: Qui facit angelos suos spiritus et min­istres suos flamm­am ignis etc. Hér þarf eigi langt um, ut­an þeg­ar í stað brest­ur flótti á heið­ingj­um, því að örv­ar Mikha­el­is urðu snar­ar og harla mann­skæð­ar, svo að þar fyr­ir ruf­ust all­ar fylk­ing­ar. Renn­ur nú hver sem harð­ast má, en Mika­el og hans menn reka flótt­ann með mik­illi ákefð og harð­fengi. Sóttu heið­ingj­ar rétt mátu­lega kaup­ferð til Sepont­um á þeim degi, því að nú eru þeir dreifð­ir, hrakt­ir og drepn­ir, sum­ir með eldi, sum­ir með járni. En þeir, sem líf­ið þiggja, kom­ast sem nauð­ug­leg­ast aft­ur í borg sína, Nea­polim, barð­ir og sprengd­ir af mœði, höfðu lát­ið lið mik­ið og frítt. Það til marks, að fyrir örv­um Mikha­el­is ein­um sam­an höfðu fall­ið vi hundruð manna, en það að auk allt, er Sepont­ini höfðu drep­ið brúk­um nið­ur sem bú­smala. Og er sú auma þjóð kem­ur skiln­ing á, hver kraft­ur stóð með kristn­um mönn­um, kasta þeir villu­klæð­um en skrýð­ast [bls. 697] heil­agri trú. Fengu þeir með þeirri að­ferð líf­ið, að þeir voru barð­ir til batn­aðar.

18. kafli: Eftir þennan ágæta sig­ur, venda Sepont­ini aft­ur með fagn­aði til borg­ar sinn­ar og dvelj­ast lít­inn tíma, áð­ur þeir heim­sækja sinn her­toga, Mikha­el höf­uð­eng­il, fram í Garg­an­um, þess er­ind­is að offra hon­um mak­leg­ar lof­gjörð­ir fyr­ir þá mátt­ugu hönd, er hann tjáði þeim í sinni nauð­syn. Og er þeir koma árla upp á fjall­ið, fram fyr­ir þær norð­ur­dyr, er áð­ur voru greind­ar, sjá þeir þá ný­lundu, að í bjarg­inu frammi fyr­ir for­kirkju eru ný­kom­in tvö fót­spor, því­líkt sem mað­ur hefði stig­ið í kram­an snjó. Skilja þeir, að þetta er elsku­mark Mikha­el­is til vernd­ar og ná­lægð­ar við þann heil­ag­an stað. Reisa Sepont­ini þar síð­an veg­legt must­eri og setja alt­ar­ið þar, sem spor­in voru. Tók sú kirkja nafn af fót­spor­um Mika­el­is og var köll­uð Appo­donia. Aðra kirkju efla þeir til aust­urs frá must­er­inu Mikha­el­is, til lofs og dýrð­ar sæl­um Petro höfð­ingja post­ul­anna. Í þeirri kirkju voru ölt­uru tvö, ann­að vígt og helg­að guðs móð­ur Marie, en ann­að sæl­um Jó­hanni bapt­ista. En must­eri Mikha­el­is stóð sem áð­ur lukt og læst, því að menn þorðu ekki að gera, fyrr en guð birti. Hafði bysk­up Sepont­in­us marg­an trakt­at­um af þvísa efni með sínu vild­asta ráði, hvort hann skyldi treysta upp at ljúka og vígja must­er­ið, ef guð bann­aði eigi. En það verð­ur statt i ráða­gjörð­um, að hann ger­ir sendi­menn með bréf­um til herra páf­ans i Rom­am. Í bréf­um skrif­ar hann greini­lega all­an hátt af þeim stór­merkj­um Mikha­el­is, er um stund hafa les­in ver­ið, biðj­andi postul­leg­an herra, að hann segi, hversu bezt er ger­andi í sögð­um vanda. Sem gjör er boð­skap­ur­inn, taka sendi­boð­ar or­lof og ráða i veg. Ber þeim svo giftu­lega til, sem von var, að herra páf­inn hef­ir far­ið í móti þeim eigi minna en fimm tugi mílna fyr­ir ein­hverja kirkj­unn­ar sök. Þessi róm­verski bysk­up heit­ir Silvest­er páfa­nafni og viður­kvæmi­lega, því að hann hafði forð­um þol­að ófrið og of­sókn­ir guðs óvina og flú­ið und­an í fjall Sarepte [frem­ur mun eiga við heil­ag­an Gelas­ius PP. I, hann stóð einn­ig í ströngu við óvini guðs], sem gjörði hinn fyrsti Silvest­er páfi, er kristn­aði Kon­stant­in­um hinn mikla keis­ara. Var þessi guðs mað­ur lík­ur hin­um fyrra, heil­ag­ur og rétt­vís, mild­ur og lít­il­lát­ur. Því fá sendi­menn bysk­ups af Seponto blíð­ar við­tök­ur á páf­ans garði og eru gjarn­an heyrð­ir og án dvöl með sín­um er­ind­um fag­ur­lega greidd­ir. Koma þeir aft­ur í Sepont­um, ber­andi sín­um bysk­upi bréf af herra páf­ans curia, hver upp brot­in og yf­ir­les­in halda því­lík­an skiln­ing af máli Mikha­el­is með­al ann­arra greina: Ef það er, seg­ir herra páf­inn, guð­leg skip­an og for­sjón, að must­er­is­vígsla Mikha­el­is veit­ist fyr­ir dauð­legs manns þjón­ustu [bls. 698], byrj­ar að því­líkt em­bœtti ger­ist á þann sama dag, sem Mikha­el birti sín stór­merki fyr­ir þá sig­ur­veg­ara­gjöf, er þér skrif­uð­uð til vor í bréf­um yð­ar. En ef herra stað­ar­ins lík­ar bet­ur öðru vísi, sýn­ist oss sem hans vald og vilji sé fram­ast biðj­andi til birt­ing­ar yf­ir þvísa máli á þeim sama degi. Því er það vort ráð, að vér og þér bjóð­um vor­um borg­ar­mönn­um þriggja nátta föstu móti þeim sign­aða degi, næst er hann kem­ur, biðj­andi heil­aga þrenn­ing, að þær gjaf­ir, sem hann virð­ist veita fyr­ir hinn hæsta þjón síns al­mætt­is vilja, leiddi hann út til æski­legs enda. Svo segir virðu­leg­ur herra páf­inn, og hans ráð er fyllt og fram­kvæmt í alla grein. En þann tíma, sem yf­ir stend­ur hin síð­asta nótt föst­unn­ar, birt­ist hinn bless­aði Mika­el Sepont­ino bysk­upi í þriðja sinn með dýrð mik­illi, svo mæl­andi: “Eigi er þörf,” seg­ir hann, “að þér víg­ið það must­eri, er eg smíð­aði, því að eg sjálf­ur helg­aði mín handa­verk. Nú gang­ið inn á morg­un með mínu or­lofi. Er þá mitt að sýna, hversu eg hefi helg­að þann sama stað fyr­ir sjálf­an mig. Þú skalt syngja þar messu á morg­un og gefa öll­um lýð þjón­ustu, en eg, patron­us stað­ar­ins, skal nærri standa og offra guði yð­ar þjón­ustu. Skul­uð þér og héð­an í frá oft­ar vitja stað­ar­ins fyr­ir mína þökk og vin­áttu.”

19. kafli: Nú sem byskup vaknar af hinni þriðju vitr­an, þakk­ar hann vor­um herra sína marg­falda misk­unn. Seg­ir hann sín­um borg­ar­mönn­um, hvað hinn heil­agi Mikha­el hef­ir sýnt hon­um, og býð­ur að fjöl­menna sem mest upp á fjall­ið. Þar með skip­ar hann mönn­um til að flytja sér­hverja hluti, er há­tíð­inni til heyrðu og þjón­ustu­gjörð­inni. Fer bysk­up og klerk­ar hans í önd­verðu lið­inu með bœn­um og lof­söng­um. En all­ur meg­in­her­inn fer síð­ar með sönnu ást­ríki, synda iðr­an og rétt­um við­bún­aði, og árla dags koma þeir fram gang­andi að suð­ur­dyr­um kirkju, gera þar letan­ias fyr­ir úti, áð­ur þeir lyki upp dyr­un­um. Síð­an ganga þeir inn með guð­leg­um ótta. Verð­ur þá í fyrstu fyr­ir þeim því­líkt sem eitt skot fra suðri til norð­urs móti þeim dyr­um, er fyrr voru greind­ar, og fyrr en þang­að kœmi, finna þeir til aust­urs sjálf­ar must­er­is­dyrn­ar, ganga inn og lit­ast um, sjá að must­eri þetta er einn hell­ir, bæði óslétt­ur um rjáf­ur og veggi, svo að hvass­ir hyrnu­stein­ar stóðu hvar­vetna. Eigi var og hærra í mörg­um stöð­um en höf­uð manns tók upp und­ir þekj­una, en sums stað­ar því hærra, að mað­ur mátti varla taka upp hendi sinni. Eigi var hún og meiri vexti en hún tók með skot­inu v hundruð manna. Til suð­urs í must­er­ið sjá þeir virðu­legt alt­ari, fag­ur­lega prýtt með rauðu klæði, er hinn bless­aði patron­us Mikha­el [bls. 699] hafði gef­ið kirkju og offr­að alt­ar­inu á henn­ar vígslu­degi. Varð nú fagn­að­ur mik­ill í húsi guðs, því að all­ir dá­söm­uðu það him­neska lít­il­læti, sem enn af nýju birt­ist í verki þessu, því að hvar­vetna var að sjá dal um hól, klett­ur við klett, en allt að einu var stað­ur­inn svo heil­ag­ur og guði kær, að eigi má orð­um skýra. Í hverri vors herra skip­an það gef­ur skilja, að hinn bless­aði Mikha­el elsk­ar meir sálu­hjálp sannr­ar góð­fýsi en skyggð­an marm­ara með steindu rafi. Söng bysk­up­inn þar messu nefn­an dag og gaf þjón­ustu öll­um lýð. Var þar inn­an kirkju vatn nóg til allr­ar þjón­ustu, því að berg­ið var sveitt vatni, en til norð­urs frá alt­ar­inu féll nið­ur úr þekj­unni smátt og fag­urt vatn, eigi óð­ara en deildi stór­um drop­um. Var þar síð­an sam­ið til gler­ker eitt harla vænt og fest und­ir drop­ann með silf­ur­strengj­um. Gekk lýð­ur­inn þar til jafn­an um gráð­ur nokkr­ar, þá er þjón­ust­an gafst í must­er­inu. Þá vatns­rás kalla Sepont­ini stillam. Af því bless­aða vatni veit­ir Mikha­el mörg­um manni skjóta heilsu af ým­is­leg­um krank­dómi. Riðu­sjúk­ir menn koma þar, kreppt­ir og lík­þrá­ir, vesl­ir og van­mátt­ug­ir, og finna svo mik­inn kraft af húsi Mikha­el­is, að sum­ir kom­ast eigi upp á fjall­ið, áð­ur þeir verða heil­ir. Eru þar í veggn­um graf­in stein­lík­ön til minn­ing­ar, sem þeir urðu heil­ir, á þann hátt form­er­uð sem hátt­að­ur var krank­dóm­ur þeirra. Eink­an­lega stend­ur hinn mæt­asti Mikha­el í því­lík­um heilsu­gjöf­um á sinn hátíð­ar­dag tertio kalend­as Octo­bris [29. septem­ber], því að þá sœk­ir til must­er­is­ins af mörg­um álf­um Italie meiri fjöldi en vant er, og er þá hinn hæsti guðs er­ind­reki því ná­læg­ari með sín­um brœðr­um, engl­un­um, sem fleiri koma sam­an í rétt­um bœnum.

20. kafli: Sem vér höfum Sepontino bysk­upi frá vik­ið og hans son­um um hríð í voru máli, er nú grein­andi, að eft­ir messu­em­bœtt­ið fag­ur­lega flutt vendu menn heim með fagn­aði til síns góss og her­bergja. En sá góði mað­ur bysk­up­inn veitti Mikha­eli svo skyld­uga þjón­ustu dag frá degi. Þar var reist­ur bœr og kenni­menn skip­að­ir að officera kirkju. Eng­an tíma sagð­ist þar óttu­söng­ur fyrr en ljóst var af degi, því að svo mik­il ógn stóð af must­er­inu um nœt­ur, að eng­inn mað­ur þorði inn að koma. Og það er eigi und­ar­legt fyr­ir þá grein, að svo segja sann­orð­ir menn, að á hverja nótt flytj­ist þar messu­em­bœtti án dauð­legra manna full­ting­is og ná­kvæmd. Hef­ir svo vitr­azt, að skip­að­ur þjónn kirkju skal til reiðu láta hvern dag að kveldi bakst­ur og vín með öðr­um messu­föng­um, hvað er styrk­ir eitt ævin­týri, svo framt sem guði lík­aði og hon­um virð­ist eigi of­sagt vera. [bls. 700]

21. kafli: Svo er sennilega lesið af ein­um háleit­um bysk­upi, að Bon­us hét. Hann bar traust til sak­ir sinna ágætra verð­leika að vaka um nótt í must­eri Mikha­el­is, því að sjálf­ur guð og hinn sæli Mikha­el dœmdu hann þess mak­leg­an. Þessi hinn heil­agi Bon­us var ætt­að­ur og upp­fœdd­ur í Frakk­landi, mik­ill ágæt­is­mað­ur í sín­um bysk­ups­dómi, því að það gæzku­nafn, er hann bar á lík­am­an­um, fyllti hann dag­lega með sœmi­leg­um sið­um og and­leg­um framn­ing­um, varð­veit­andi sig sjálf­an og sér á hendi fólg­inn lýð und­ir réttu lög­máli og heil­ög­um guðs boð­orð­um, ber­andi sér í hönd­um log­andi tortís [kynd­il] góðra verka til eft­ir­dœm­is sín­um und­ir­mönn­um. En með því að fyrr­sögð kirkja hins sign­aða Mikha­el­is er nú stór­lega fræg orð­in um heim­inn, sóttu hana, sem fyrr greindi, ótölu­leg­ir lýð­ir karla og kvenna af fjar­læg­um hér­uð­um, og jafn­vel bysk­up­arn­ir sjálf­ir, því að þessi stað­ur var eink­an­lega til þess kos­inn af guði, að menn þægi þar rétt­ar bœn­ir. Sign­að­ur Bon­us bysk­up ferð­ast heim­an af sín­um bysk­ups­stól með gló­andi góð­fýsi og góðu föru­neyti fram til must­er­is heil­ags Mikha­el­is. Og er hann geng­ur inn í must­er­ið með öðr­um mönn­um til aft­an­söngs um kveld­ið, dvelst heil­ag­ur Bon­us einn samt eft­ir í must­er­inu, tak­andi sér leyni­leg­an stað und­ir ein­um hell­is­skúta að óvit­andi varð­halds­mönn­um kirkj­unn­ar. Vak­ir hann þar um nótt­ina, góð­fús­ari í guðs lofi en vér meg­um sem verð­ugt er frá segja. Hann minn­ist á og inn­virðu­lega eft­ir leit­ar, hvað hann hef­ir hæsta guði í móti gjört í um­liðnu lífi, græt­ur það allt og sýt­ir af öllu hjarta, biðj­andi sæl­an Mikha­el höf­uð­eng­il, að hann offri hans bœn­ir og þægi hans tár í aug­liti hins hæsta dóm­ara. Nú sem komið er mið­nœtti og bysk­up­inn starf­ar í greindri góð­fýsi, heyr­ir hann fagr­an söng­hljóm upp í loft­ið með svo und­ar­leg­um sæt­leika, að eng­ar jarð­leg­ar radd­ir máttu við jafn­ast. Þessi skemmt­an­ar­sýn ná­læg­ist hvern tíma frá öðr­um must­er­ið, þar til að bysk­up­in­um gef­ur sjá, að guð­legt ljós geisl­ar hvar­vetna inn um þekj­una. Hér eft­ir, sem ljós­ið renn­ur fyr­ir, fara him­nesk­ir flokk­ar heil­agra engla, ber­andi sig­ur­merki fyr­ir sín­um höfð­ingja með fögr­um söng og sæt­um hljóð­um. Hér með sér hinn sign­aði Bon­us að fara skín­andi borg­ar­menn him­neskr­ar Jerú­sal­em leið­andi sín í mill­um sjálfa drottn­ingu him­ins og jarð­ar, mey og móð­ur, hina sætu Mari­am, hana sœm­andi og alla vega veg­sam­andi með svo fríðri fylgd og til­skip­uðu föru­neyti, sem engu má við jafna eft­ir jarð­leg­um hætti. Nú sem virðu­legt sæti er fyr­ir­bú­ið og drottn­ing allra höf­uð­engla og heil­agra manna hef­ir nið­ur setzt, ganga fram í kór­inn fyr­ir há­sæt­ið nokkr­ir af frú­ar­inn­ar hirð­sveit­um, biðj­andi [bls. 701] hana lít­il­lát­lega með kné­falli, að hún skipi til nokk­urn mann að flytja messu­em­bœtti. En guðs móð­ir María svar­ar svo þeirra máli: “Ber­ið þau mín orð Bono bysk­upi, að hann skrýð­ist og syngi messu, því að hon­um ber eg það vitni, að hann er mak­leg­ur svo ágætr­ar þjón­ustu.” Virðu­leg­ur mað­ur guðs bysk­up­inn, sem hann heyr­ir frú­ar­inn­ar orð því­lík, blikn­ar hann og pipr­ar all­ur af hræðslu, fœr­andi sig út und­ir bjarg­ið sem mest, því að hann vill lífs gjarn­an fel­ast fyr­ir frú­ar­inn­ar sendi­mönn­um. Sé þar ger­ist há­leitt stór­merki, það er vott­aði hans heil­ag­leik, því að bjarg­ið gaf hon­um rúm og laut und­an hon­um, svo sem hann hall­að­ist í kram­an snjó, og sér merki þess. En þó að bjarg­ið hlýddi hans heil­ag­leik, þá vinn­ur bysk­upi eigi þörf, því að drottn­ing­ar­inn­ar sendi­boð­ar eru stór­lega fund­vís­ir, svo að rétt ganga þeir að hið gegnsta, hvar er bysk­up ligg­ur und­ir bjarg­inu, þó að mjög lágt og leyni­lega, grípa hann hönd­um þeg­ar í stað og leiða fram í her­berg­ið og must­er­ið og skrýða hann him­nesk­um klæð­um, svo sem bysk­upi til heyr­ir. Sem hann er skrýdd­ur, leiða þeir hann fram fyr­ir alt­ari og gera messu­em­bœtti eft­ir kristn­inn­ar formi. Hver dauð­legra manna megi það virða, hversu mikla sœmd og æru al­mátt­ug­ur guð veitti sín­um virkta­vin Bono bysk­upi hér þeg­ar í dauð­leg­um lík­ama: Hann stóð jarð­nesk­ur milli him­neskra krafta, prýdd­ur him­nesk­um skrúða, tak­andi alla þjón­ustu mess­unn­ar af lít­il­látri und­irorpn­ing höf­uð­feðr­anna og spá­manna og ann­arra guðs ást­vina. Nærri var stödd hans þjón­ustu­gjörð sjálf drottn­ing allra hluta hin mild­asta María og bjóð­andi hon­um há­tíð­lega messu að syngja. Svo var til skip­að þjón­ustu­mönn­um, að höf­uð­feð­ur og spá­menn bera fram kaleik, vín og vatn, og hella á hend­ur hon­um, post­ul­ar greiða til hand­klæði, písl­ar­vott­ar búa til reyk­elsi sam­tempr­að him­nesku timiamate. En engl­ar, ját­ar­ar og meyj­ar syngja hun­ang­leg­um rödd­um út mess­una. Og er guðs mað­ur bysk­up­inn hef­ir al­gjört guð­legt em­bœtti með eink­an­legri ást og gló­andi góð­fýsi, gef­ur gim­steinn allra meyja, hin sæt­asta guðs móð­ir mær María, hon­um þökk fyr­ir, og í elsku­mark fyr­ir þjón­ustu­gjörð­ina gef­ur hún sign­uð­um Bono bysk­upi eitt him­neskt klæði, það er hann þigg­ur með meiri ást og lít­il­læti en nokk­ur tunga megi skýra sín­um fram­burði. Eft­ir svo gjört, sem nú var greint, líð­ur þessi him­neski flokk­ur upp í loft­ið heim til him­in­rík­is, en bysk­up vak­ir það sem eft­ir var nœt­ur­inn­ar, lof­andi guð al­mátt­ug­an og hans bless­aða móð­ur fyr­ir þá misk­unn, sem hon­um var veitt í sinni vöku; geng­ur síð­an um morg­un­inn út af must­er­inu kall­andi til sín rétt­vísa menn og [bls. 702] guð­fúsa og seg­ir þeim greini­lega all­an event­um, hvað hann hef­ir heyrt í must­er­inu, séð og gjört á þeirri nótt. Þar með sýn­ir hann lít­il­lát­lega það him­neska klæði, sem her­bergi heil­ags anda hafði hon­um gef­ið, biðj­andi alla menn fagna með sér og gleðj­ast af svo miklu stór­merki.

22. kafli: Eftir þessa hluti fyllta fer heil­ag­ur Bon­us heim til síns bysk­ups­stóls, ger­andi guði þakk­ir af þeim hlut­um, sem hon­um höfðu að bor­izt í þess­ari ferð. Flýg­ur það og skjót­lega víða um heim­inn, hví­líka sœmd­ar­för Bon­us bysk­up hafði far­ið til must­er­is heil­ags Mikha­el­is. Og fyr­ir þá sök, að marg­ur er sá virð­ing­ar­gjarn, sem eigi er í líf­inu til fulls vand­virk­ur eða at­hug­ull, þá frétt­ir þetta og einn bysk­up, sá er miklu var lægri að verð­leik­um en hann mætti nokk­uð sam­jafn­ast Bono bysk­upi, og lyft­ir heim­an sœmi­legri ferð af sín­um bysk­ups­stóli með gnóg­um kosti og ríku föru­neyti, þess erindis að prófa, ef hann öðl­að­ist nokk­uð líkt því, sem les­ið er af hin­um fyrra bysk­upi. Nú sem hann kem­ur fram í heil­agt fjall hins sæla Mikha­el­is, slær hann lang­tjaldi sínu og sit­ur glað­ur um dag­inn hjá kumpán­um sín­um. Og fyr­ir þá sök, að hann vill óþyrst­ur ganga til vök­unn­ar, drekk­ur hann vín svo djarf­lega, að hann er mjög sljófg­að­ur bæði í sam­vizku og sönn­um góð­vilja, en þó allt eins geng­ur hann í must­er­ið síð um kvöld­ið, ólíkt til­bú­inn og hinn fyrri bysk­up. Sá þung­ur af tár­um og iðr­un­ar góð­fýsi, en þessi svefn­þung­ur af vist og víni. En þó að þessi bysk­up byggi sig eigi til vök­unn­ar svo sem skyldi, gjörði al­mátt­ug­ur guð og heil­ag­ur Mikha­el við hann mikla misk­unn­semi með fá­heyrð­um hætti. Hann vín­drukk­inn sofn­ar í muster­inu en vakn­ar um morg­un­inn eigi þar, held­ur heima að sjálfs síns bysk­ups­stóli og í sinni svefn­skemmu. Nú sem hann lýk­ur aug­um upp, sign­ar hann sig, og hversu við veit, fær hann eigi skil­ið, því að hann kenn­ir blauta sæng og sér kunn­ugt her­bergi, en man þó full­gjörla, í hverj­um stað hann var næst um kvöld­ið. Sem hann hef­ir lengi undr­að sjálf­an sig, geng­ur hann út af her­berg­inu og lit­ast um, sér þjón­ustu­menn sína þar í garð­in­um og heils­ar á þá, og hygg­ur sig þó senni­lega vill­ast í þess­um hlut­um öll­um, þar til að eft­ir stund liðna hverf­ur hann aft­ur til sjálfs síns og setzt nið­ur hjá sín­um mönn­um, segj­andi þeim lít­il­lát­lega, hversu hinn góð­gjarni guð hef­ir um hann gjört stór­merki­lega og misk­unnsam­lega. Héð­an af er virð­andi, hversu hinn góði Mikha­el er yf­ir­vætt­is mild­ur fyr­ir hvern, er svo dá­sam­leg­ar jartein­ir verða, því að hann þyrmdi sögðum bysk­upi mis­ger­andi og lét hann til síns [bls. 703] her­berg­is heil­an aft­ur hverfa, held­ur vilj­andi að hann leið­rétt­ist en fyr­ir­fœr­ist eigi í sínu mis­verki. Nú til þess að eng­inn mað­ur ætli þessa hluti ósanna vera, sem vér sögð­um, þá viti fyr­ir víst, að það klæði, sem guðs móð­ir gaf Bono bysk­upi, varð­veit­ist fyr­ir ut­an spell og fölv­an allt til þessa dags í einni fag­urri borg, er Clarus Mons heit­ir. Sú borg stend­ur í því hér­aði er Vern­on­is kall­ast [eiga virð­ist við hið forna bisk­ups­dœmi Cler­mont í hér­að­inu Au­vergne í Frakk­landi]. Klæð­ið geym­ist í kirkju guðs móð­ur heil­agr­ar Marie, og fær eng­inn jarð­leg­ur mað­ur skiln­ing á komið, hvers vefn­að­ar eða nátt­úru það er ut­an eða inn­an. Og enn til styrkt­ar um þetta er svo skrif­að, að virðu­leg­ur herra, herra Herbert bysk­up af Nor­vík hafi séð og hönd­um far­ið þetta klæði.

Málverkið með þessum kafla er eftir Domenico Cresti, gert 1602, og sýn­ir heil­ag­an Mikjál eng­il birt­ast á Garg­ano­fjalli. Heil­ag­ur Lor­enzo bisk­up krýp­ur í for­grunni. Högg­mynd­in sýn­ir eng­il­inn með reitt sverð, en óvin­ur­inn ligg­ur fyr­ir fót­um hans. Ljós­mynd­in er úr kirkju þeirri, sem heil­ag­ur Mikj­áll smíð­aði sjálf­ur á fjallinu.

                       

Santuario SanMichele Arcangelo

Wikipedia (enska)

Wikipedia (ítalska)

               

Read Full Post »

                   

Mikjáll engill

       

Mont St. Michel

       

Árið 709 birtist heilagur Mikjáll erkiengill bisk­upn­um í Avranches í Nor­mandí, sem hét Au­bert og síð­ar var tek­inn í helgra manna tölu. Eng­ill­inn vildi láta reisa kirkju og helga sér á ör­fir­is­ey þar nærri. Hann fól bisk­up­in­um að sjá til þess, sem var erf­itt verk­efni, og bisk­up var í fyrstu ekki einu sinni viss um, að vitr­un hans væri sönn. En Mikj­áll birt­ist hon­um öðru sinni og loks í þriðja sinn, til að árétta fyr­ir­mæli sín. Kirkj­an reis, og síð­ar var einn­ig sett þar Bene­dikts­klaust­ur, auk þess sem píla­grím­ar flykkt­ust þang­að. Klaustr­ið stend­ur enn, og lagð­ur hef­ur ver­ið ak­veg­ur út í eyj­una, svo að ekki þarf leng­ur að vaða sand­bleyt­ur eða setja sig í hættu út af sjáv­ar­föllum.

Bergur Sokkason (d. 1350) var Benedikts­munk­ur á Þing­eyr­um en flutt­ist það­an í klaustr­ið á Munka­þverá og var þar tví­veg­is ábóti. Hann rit­aði sögu Mikj­áls eng­ils, til að lesa á há­tíð­um hans, og hér fer á eft­ir sá hluti henn­ar, sem fjall­ar um Mont Saint-Mich­el. Þetta var og er enn mjög fræg­ur stað­ur. Far­ið er eft­ir I. bindi af Heil­agra manna sög­um (23.-28. kafli), sem Carl Rik­ard Ung­er gaf út 1877, nema frá­gang­ur er felld­ur að síð­ari tíma hætti. Til sam­an­burð­ar má nota Acta Sanct­or­um, 8. bindi inn­an septem­ber­mán­að­ar (út­gef­ið 1762). Hefst nú frá­sögn Bergs ábóta:

23. kafli: Greint hefir verið um hríð, hversu bless­að­ur Mikha­el prýð­ir aust­ur­álfu heims­ins með kröft­um og jar­tein­um þeim, sem guði ein­um eru mátt­ug­leg og fylli­lega kunn­ug. Því skal boða þessu næst, hversu drott­inn allr­ar mildi dreif­ir sinni óum­ræði­legu misk­unn yf­ir vest­ur­álf­una fyr­ir ást og með­al­göngu síns kær­asta sendi­boða Mikha­el­is, herra höf­uð­engl­anna, til þess að eitt og hið sama efni verði öll­um ljóst í hverri álfu heims­ins, að rétt­trú­að­ir menn eru skip­að­ir í sam­lag engl­anna, sem fyrr var skrif­að í þessu máli. Því eru him­nesk­ir and­ar send­ir í þjón­ustu fyr­ir þeirra skuld, er arf­tœk­ir verða himna­rík­is fyr­ir sár og mildi vors ljúfa lausn­ara. Les­ið var með nokk­urri grein, hversu Mikha­el kaus sér virð­ing­ar­stað á háu fjalli, Gargano, en nú skal af segja og heyra í öðr­um stað, hversu hann vill dýrk­an sína gera láta með ólík­um hætti. Þessi stað­ur, er nú skal af segja, stend­ur fyr­ir ut­an haf í vest­ur­álfu heims. Hann er kom­inn mjög und­ar­lega og leyni­lega. Hann stend­ur með­al tveggja ósa þeirra vatns­falla, er ann­að heit­ir Seia en ann­að Sennuna. Út­haf­ið sjálft girð­ir að fyr­ir ut­an svo hart að flóð­un­um inn í báða ós­ana, að sjór­inn geng­ur á lág­lend­in báð­um meg­in fyr­ir of­an stað­inn, svo að þá er í ein­um flóa stend­ur, þá er í miðju sem eitt lít­ið ey­land, það er kirkju­helgi Mikha­el­is bann­ar, að sjór­inn meini. Svo segja gaml­ir menn og sann­orð­ir, að þetta nes með­al ann­ars væri að fornu vax­ið með þykkri jörð og stór­um skógi, svo að voru víða ein­setu­manna byggð­ir, því að svo var leyni­lega kom­inn stað­ur­inn bæði sak­ir þykk­leika merk­ur­inn­ar og fjar­lægra mannabyggða. Skóg­dýra­fjöldi var þar og mik­ill hjá ein­setu­mönn­um, sem víða er títt í eyði­mörk­um. Og með­an drott­inn vildi svo vera láta, að ein­setu­menn byggðu þenn­an stað, skip­aði hann svo sínu ein­valdi, að einn prest­ur af þorpi því er Auster­ian­us heit­ir færði þeim lík­am­lega vist, [bls. 704] því að í sjálfri mörk­inni var eng­in ögn mat­fanga. Gjör­ist það í fyrstu, sem skilj­an­legt er, eigi öðru vísi en í stór­merki birt­ing­ar Mikha­el­is af guðs hálfu til kenni­manns­ins, að hon­um er stað­ur­inn sýnd­ur og sagð­ur, og hvað hann bygg­ir, eða hversu hann skal hjálpa með dag­legri hugg­an þeirra lífi, sem þar eru. Fór svo lang­an tíma, að prest­ur­inn tók asna sinn hvern dag og fœrði ein­setu­mönn­um vist­ir. Var á þeim dög­um, er þetta gjörð­ist, for­lendi mik­ið milli merk­ur­inn­ar og hafs­ins, eigi minna en vi vikur.

24. kafli: En þá er guð vildi um venda þess­um stað og búa til virð­ing­ar Mikha­eli sín­um sæla vin, geng­ur sjór­inn á land­ið og ryð­ur jörð­ina alla fyrst upp að skóg­in­um, en síð­an fell­ir hann mörk­ina og kem­ur mönn­um á flótta, gref­ur brott gras­rót alla og ger­ir sem einn slétt­an sand alla leið upp í milli ánna, svo langt sem guð vildi skipa. Nær í miðju plássi stend­ur einn klett­ur, er guð hugði til eft­ir­kom­andi hluta. Og er vor herra Jesús Krist­ur hef­ur stað­inn með svo nýj­um hætti til bú­ið, er segj­anda, að í þeirri borg er Abrinc­us [Avranches] heit­ir var ágæt­ur bysk­up Auð­bert­us [Aubert] að nafni – sú borg stend­ur sex míl­ur brott af greind­um stað – var bysk­up henn­ar mjög heil­ag­ur mað­ur, sem guð virð­ist sýna hon­um og hinn ágæti Mikha­el, því að nokkra nótt, sem bysk­up sef­ur í sinni sæng, birt­ist hon­um bless­að­ur Mikha­el með skín­andi dýrð him­neskr­ar birtu og mæl­ir á þann hátt, sem hér fylg­ir: “Auð­bert bysk­up, heyr hvað eg segi þér. Í þeim stað, er nú kall­ast Arenna, skaltu láta kirkju reisa mér til sœmda, því að eg er Mikha­el höf­uð­eng­ill. Hefi eg þenn­an stað kos­ið og bless­að mér til virð­ing­ar í þess­ari álfu heims nærri borg yð­ar, og svo sem mín dýrk­an ger­ist í aust­ur­álf­unni á háu fjalli Garg­ano, svo veit­ist mér lof hér með yð­ur í lág­um stað á sjáv­ar­sandi.” Eft­ir svo tal­að vakn­ar bysk­up og hugs­ar inn­virðu­lega, hvað fyr­ir hafði bor­ið, ótt­ast fyr­ir lít­il­læt­is dyggð, að hann muni gabb­að­ur í svefni fyr­ir um­sát leyni­legs óvin­ar, sem synd­ug­um mönn­um kann oft til bera. Því hug­leið­ir hann post­ul­ans ráð, er svo tal­ar: próf­ið þér and­ana seg­ir hann, hvort þeir eru af guði. Fyr­ir því­lík­ar og aðr­ar hugs­an­ir dvel­ur bysk­up að full­gera boðna hluti, þar til er hann fær vitr­an aðra með sama hætti, er nú þó mun stríð­ara áminnt­ur, að hann hafi sig frammi og al­geri það, sem hon­um var boð­ið. En bysk­upi fer svo, þó að hann væri heil­ag­ur mað­ur og mjög kær guði, sem hinn heil­agi Gregor­ius páfi vott­ar af spá­mönn­um, að þeir höfðu nokk­urn tíma spá­dóms­anda og nokk­urn eigi, sem guð vildi skipa þeim til lít­il­læt­is varð­veizlu, að þeir [bls. 705] kenndi því gjör, hvað þeir tóku í gjöf eða hvað af sjálf­um sér. Þessu líkt ger­ist með Abrinc­ensi bysk­upi. Hann fær eigi skil­ið smá­smugu­lega grein and­anna, því að hans hjarta sljóvg­ast í mann­leg­um veik­leik, sak­ir þess að fremri gifta er hon­um und­an dreg­in í þetta sinn. Er hann þó senni­lega mjög hrædd­ur fyr­ir þess­ar tvær áminn­ing­ar, er hann of­reyni sig eigi, það er guði heyr­ir. Því legg­ur hann jafn­an bœn­ir mjúk­ar og lít­il­læti, að vor herra Jesús Krist­ur þyrmi hans hindr­an og tor­tryggð, en greiddi þetta mál til æski­legs enda.

25. kafli: Rétt í þann tíma sem Abrincensis bysk­up hef­ir tek­ið sagð­ar áminn­ing­ar tvær að tölu, ber svo til í sagðri pro­vincia, að einn grað­ung­ur er leyni­lega tek­inn brott frá hjörð­inni eins bónda. En sá er tók, ger­ir það meir sak­ir fornr­ar óvin­áttu en þjóf­legr­ar sjálfs síns girnd­ar. Því leið­ir hann það skraut­lega naut, er bezt var allra með hjörð­inni, brott í þann stað, sem hann hugði að aldrei skyldi finn­ast. En með því að oft­lega kem­ur sam­an góð­ur vilji guðs og ill­ur vilji manns­ins, þá leið­ir þessi mað­ur grað­ung­inn til fylgsn­is fram í þann stað, er vér greind­um fyrr af, og hann kem­ur út með­al ann­arra fram á sand­ana. Sér hann, hvar klett­ur stend­ur í miðju. Hér til fer hann og skoð­ar bjarg­ið uppi og niðri, hvort hann fyndi skúta nokk­urn eða helli að binda naut­ið og fela, og er hann hef­ir rann­sak­að, finn­ur hann í of­an­verðu stór­lega mikla dæld, svo að það er hið bezta leyni, ef hann fær grað­ung­in­um upp kom­ið. Það kost­ar hann og fær gjört; fer síð­an fram á sand­inn og próf­ar, hvort hann sæi nokk­uð til grað­ungs­ins upp í berg­ið, og sér eigi. Því snýr hann brott og þyk­ist hafa all­vel leik­ið. Hygg­ur hann sig hlut­laus­an af stuld, en veit fyr­ir víst, að grað­ungs­ins hvarf ger­ir ríka manni mikla hug­sótt og marg­an rekst­ur hans að leita síð og snemma. Og rétt fór, sem hann gat, ríka manni ligg­ur illa og leit­ar í fremstu lög, gefst eigi upp fyrr en úti eru all­ar von­ir, trú­ir víst, að hans ger­semi sé orð­in spell­virkja bráð, og harm­ar það, því að bóndi var mjög ágjarn. En hvað grað­ungs grein­ir þess­ar hafa merkja í máli Mikha­el­is, er þessu næst til veg­ar vikjandi.

26. kafli: Sem hér er komið, fær Abrincensis bysk­up þriðju vitr­an i harð­ari punkt en fyrr, því að Mikha­el höf­uð­eng­ill birt­ist hon­um stríð­ur og óg­ur­leg­ur með ávít­un­ar­orð­um fyr­ir þá sök, er hann óhlýðn­að­ist tveim áminn­ing­um. Býð­ur hon­um nú í stað að byrja sagð­an guðs vilja og eigi nokkra minnstu tálm­an á gera, ger­ir og í mik­illi rögg­semd, að svo mik­ið skal hann afl­að hafa í sinni hindr­an, að af þeim stað, er kirkjan reis­ist, skal hann sína fœt­ur hvergi brott hræra, fyrr en must­er­ið er gjört til lykta. Við þess [bls. 706] hátt­ar stríð­yrði svo mik­ils höfð­ingja verð­ur bysk­up ákaf­lega hrædd­ur í svefn­in­um, og þó svo með guðs vilja að hann fær afl að spyrja þeirra hluta, sem hon­um þótti mest þörf á vera. Hann seg­ir svo: “Herra minn sæli, hvar er sá stað­ur í því tak­marki, er Arena kall­ast og yð­ar kirkju­smíði sé til­heyri­leg­ur?” Hinn bless­aði Mikha­el svar­ar: “Nærri því bjargi, er bund­inn grað­ung­ur hef­ir í sín­um kolli, og stend­ur á miðj­um sandi, skaltu reisa mitt must­eri.” Bysk­up spyr þá enn : “Hvað er, herra minn, hvar skal eg af taka við­ur­kvæmi­legt form þessa húss í vídd eða breidd eða hæð að þín­um vilja?” Hinn bless­aði Mikha­el svar­ar: “Áð­ur grað­ung­ur­inn var upp­leidd­ur í klett­inn, gekk hann um­berg­is í hring á sand­in­um, svo vítt sem þú skalt kirkju reisa. Verð­ur þá mjög kringl­ótt, á lík­an hátt og eg smíð­aði í Garg­ano. Vil eg þar láta eft­ir mynda og gera ræf­ur lágt, sem staðn­um til heyr­ir. Lát þér og í hug koma, að grip­ur­inn sé aft­ur gold­inn þeim sem á, síð­an þú hef­ir séð og skil­ið hans fyr­ir­ætl­aða þjón­ustu.” Eft­ir þetta svo tal­að vakn­ar bysk­up bæði feg­inn og ótta­sleg­inn, lof­andi guð og göf­ug­leg­an Mikha­el­em með hymn­um og lof­söngv­um yf­ir þrenn­um þess­um vitr­un­um. Birt­ir hann nú sín­um lýð, hvað hon­um hef­ir sýnt ver­ið af guði og hin­um sæla Mikha­eli, og býð­ur í stað, að hans menn bú­ist sem hvat­leg­ast fram til stað­ar­ins. Tek­ur hann sér til fylgd­ar hina fríð­ustu klerka sinn­ar kirkju, gang­andi fram lít­il­lát­lega með hymn­um og psalm­odia, þeg­ar hann nálæg­ist þann bless­aða stað. Og sem hann kem­ur þar, sér hann öll merki, sem hon­um var ját­að: bjarg og naut bund­ið, fóta­traðk og fá­séna must­er­is reis­ing því­líka. Ger­ir hann nú hvat­lega boð tveim meg­in út í frá yf­ir hvora­tveggju á Siam og Senun­am [helztu vatns­föll á svæð­inu eru nú köll­uð Coues­non, Sée og Sélune], að menn komi að sjá og heyra sann­an guðs vilja. Og sak­ir þess að Mikha­el höf­uð­eng­ill er harla vin­sæll með­al góðra manna, eru þeir bún­ir til mœðu og erf­ið­is, er herra Auð­bert­us vill þeim bjóða. Því hef­ir bysk­up það upp­haf, með­an lið er næst, að hann læt­ur ryðja stað­inn og grafa til grund­vall­ar. En þann tíma sem þeir hyggja að pláss­inu kirkj­unn­ar, standa þar stein­ar tveir jarð­fast­ir í miðju harla stór­ir, er miklu fara hærra en smíð­inu heyrði. Því býð­ur bysk­up, að grafa skal um­berg­is og treysta góð átök, seg­ir að þess­ir stein­ar skulu fara út í grund­völl­inn sjálf­an. Hér þarf eigi langt um. Brot eru til sam­in, treyst er og áknú­ið með allri list og klók­skap, og sitja stein­ar sem áð­ur. Fær bysk­upi þetta mik­ils áhuga, því að starfs­menn fyr­ir leggj­ast og fá [bls. 707] ekki að gjört, hvar fyr­ir mæt­um Mikha­eli er hugs­anda að gera gott ráð fyr­ir, svo að eigi falli verk­ið hon­um til sœmdar.

27. kafli: Nokkur rikur burgeis var í ein­hverju hér­aði svo fjar­lægu brott af Abrinko, að þar höfðu eigi kom­ið þessi fagn­að­ar­tíð­indi, og eigi hafði þar birt­ur ver­ið boð­skap­ur bysk­ups um liðs­afla. Þessi ríki mað­ur hét Baiuno, stór­lega vold­ug­ur og mik­ils hátt­ar upp yf­ir alla sína frænd­ur og hér­aðs­menn. Hann sit­ur í þeim höf­uð­bœ, er Icius heit­ir. Hann átti tólf syni. Voru þeir all­ir stór­ir menn og sterk­ir. Höfðu þeir all­ir sam­an feðg­ar svo sem kon­ungs­vald yf­ir lýðn­um og ná­læg­um hér­uð­um. Því leit­ar sæll Mikha­el þang­að styrks og birt­ist ríka manni á næstu nótt eft­ir, sem Auð­bert­us bysk­up er fyr­ir lagð­ur og hans menn. Hann bless­að­ur tal­ar þá: “Þú ríki Baiuno,” seg­ir hann, “hef­ir mik­ið vald og lán af guði fyr­ir marg­hátt­að eft­ir­læti fjár og frænda­styrks. Því rís upp og tær þitt afl í mína tign, því að eg er Mikha­el höf­uð­eng­ill. Ber þig árla á morg­un fram í liðs­drátt og kom sem fyrst með son­um þín­um og vin­um á fund Auð­berti bysk­ups. Ger það, sem hann býð­ur, því að hann er minn um­boðs­mað­ur.” Eft­ir svo tal­að, vakn­ar ríki mað­ur og ger­ir guði þakk­ir, hef­ir í sömu stund fjöl­menni uppi og fer með öll­um skunda fram til Arenn­am á fund Auð­berti bysk­ups, segj­andi hon­um þá vitr­an, sem nú var les­in. Verð­ur bysk­up har1a feg­inn af þeim hlut, því að nú er fund­inn vott­ur ann­ar yf­ir orð­um og vilja Mikha­el­is. Seg­ir bysk­up Baiun­oni, hvar kom­ið er starfi og sveita þeirra kump­ána í þarf­laust að svo búnu um þrjá daga. Því seg­ir hann, að ríki mað­ur og syn­ir hans skulu gera sína þjón­ustu og veita stein­um átak eft­ir boði Mikha­el­is. Og án dvöl sem þeir koma og prófa stein­ana, eru þeir með guðs vilja svo létt­ir og velti­leg­ir, hvert er lík­ar, sem eigi hefði þeir grjót­leg­an þunga stein­legr­ar nátt­úru. Söng nú all­ur lýð­ur lof Mikha­eli fyr­ir auð­séna misk­unn og stór­merki. Geng­ur nú herra bysk­up glað­ur að verki með sín­um hús­körl­um, skip­andi ýms­ar sýsl­ur sér­hverj­um, sem hann sér bezt bera. Og þann tíma sem grund­völl­ur er graf­inn, fyllt­ur og til bú­inn, svo við út og inn sem bysk­upi þyk­ir hœfa þeirri kirkju­stöðu, er heil­ag­ur Mikha­el hafði hon­um vitr­að, ger­ist enn með nokkr­um hætti efa­semd og ótti í hans góð­fúsa hug­skoti, hvort efn­ið vel þjóni boð­orði Mikha­el­is. Hér yf­ir ótt­ast hann og bið­ur guð styrkt­ar um sína gjörð, ef hon­um lík­ar, að svo standi. Og á næstu nótt birt­ist hon­um sýn þeirri lík, er les­in er forð­um af [bls. 708] Gídeoni, að dögg him­ins sté nið­ur yf­ir ann­an hlut jarð­ar­inn­ar en ann­an eigi, hér með hljóð­ar rödd í bysk­ups­ins eyra svo mæl­andi: “Lát dögg­fall­ið ráða grund­vell­in­um, en þurr­lendi jarð­ar sé vöxt­ur og víð­erni kirkju.” Og eft­ir svo sagt vakn­ar bysk­up ótta­laus í öllu efni og full­ur af fagn­aði, læt­ur reisa til must­er­is þeg­ar á næsta degi, og geng­ur síð­an svo greint með heil­agri fljót­virkni, að bysk­up sér, ef guð lof­ar, að svo er sem gjört. Því hugs­ar hann fram­leið­is, at enn skort­ir mik­ið á, sak­ir þess að það nýja must­eri hef­ir enga heil­aga dóma hins mæta Mikha­el­is. Þyk­ir hon­um það mjög í móti. Og af þessu efni hugs­ar hann dag­lega, þar sem hann sit­ur á því sama bjargi, sem fyrr var greint í sög­unni, því að vel hélt hann hvorn tveggja boð­skap Mikha­el­is, fylgja smíð­inni stað­fast­lega og hvergi brott fara, og það ann­að, sem fyrr var sagt, að hann skyldi grað­ung­inn aft­ur senda sín­um herra. Ber það bjarg vitni, seg­ir sá er sög­una dikt­aði, að Auð­bert­us bysk­up sat á því dag­lega og fyr­ir sagði must­er­is­smíð Mikha­el­is. Því að nærri því sæti, er hann kaus sér í bjarg­inu, stend­ur til ei­lífr­ar minn­ing­ar það sama let­ur, er hann skrif­aði með sín­um fingri í sjálf­um stein­in­um allt eitt og á kröm­um snjó.

28. kafli: Til lofs og dýrðar sinu há­leita nafni birt­ist Mikha­el Abrinc­ensi bysk­upi í fimmta sinni með ít­ar­legri sýn, svo mæl­andi: “Rek brott all­an ekka þíns hjarta, því að eg kann gefa þér heilt ráð að fá mína helga dóma. Gjör tvo brœð­ur guð­hrædda aust­ur á Pul [hér­að­ið Apul­ia á suð­aust­an­verðri Ítal­íu] til kirkju minn­ar í Garg­an­um. Fá þeim góða fylgd, svo að þeir megi vel fara, en eg skal svo um ganga, að þeir fái er­indi það, er þér líki. Ertu því skyld­ari að fagna oss sem bezt öll­um sam­an og ganga út í móti oss þann tíma, er vér kom­um aft­ur úr þess­ari ferð.” Eftir svo greint af guðs vin Mikha­eli, vakn­ar bysk­up og breyt­ir í öllu, sem hon­um var boð­ið, fá­andi brœðr­un­um vænt skip með rösk­um liðs­mönn­um. Fara þeir og fram koma í allri far­sæld, sem þeir mundu kjósa, ganga af skipi og sœkja fjall­ið Garg­an­um, finna kirkju Mikha­el­is og biðja þann sign­aða herra blíðra er­ind­is­loka. Var í þenn­an tíma skip­að­ur einn virðu­leg­ur ábóti fyr­ir þjón­ustu­gjörð á fjalli Mikha­el­is. Tek­ur hann sendi­boð­un­um með öll­um góð­vilja, heyr­andi gjarn­an þeirra er­indi. En sak­ir þess að hann skil­ur brœðr­anna bœn og bysk­ups orð­send­ing ofbjóða því valdi, er Sepont­in­us bysk­up veitti hon­um yfir kirkju, sœk­ir hann heim [bls. 709] sinn herra og tjá­ir hon­um greini­lega, hvað gjörzt hef­ir í vest­ur­álf­unni, og að sendi­boð­ar eru þang­að komn­ir þess er­ind­is að þiggja heil­aga dóma hins sæla Mikha­el­is. Og er bysk­up Sepont­in­us heyr­ir því­lík tíð­indi, offr­ar hann nóg­leg tár og lof al­máttk­um guði, er veita virð­ist mann­leg­um veik­leik hjálp og heil­agt full­tingi fyr­ir bœn og bless­an þeirra sömu, er þjóna eilíf­lega fyr­ir hans veld­is­hring. Eft­ir það er bysk­up og ábóti hafa gjört sitt ráð með til­lög­um Mikha­el­is, fara þeir báð­ir samt upp á fjall­ið og bjóða sendi­mönn­um í kirkju Mikha­el­is að heyra sin er­ind­is­lok. Og að hljóði gefnu, tal­ar því­lík orð bysk­up af Seponto: “Bless­að­ur sé vor herra Jesús Krist­ur Maríu­son, er oss hef­ur sent af vest­ur­álf­unni góð og gleði­leg tíð­indi, að hinn mæt­asti kirkju­drott­inn vor, Mikha­el höf­uð­eng­ill, hef­ir þar kjör­ið sér með sannri birt­ing ann­an virð­ing­ar­stað. Og til heil­agr­ar þeirrar kirkju prýði vilj­um vér gjarn­an alla ást­úð frammi láta, sem hinn bless­aði Mikha­el hef­ir oss boð­ið. Því skulu þeir brœð­ur, sendi­boð­ar Mikha­el­is, þiggja æski­legt er­indi og taka með þeim reliqui­is, er æðst­ar mega finn­ast í fjalli Mikha­el­is, þeim skil­mála með sett­um, að svo sem sami höf­uð­eng­ill himna­rík­is lýsti vorn stað og yð­ar sjálfs síns virð­ing með birt­ing og bless­uð­um kosn­ingi, svo skal milli vorra staða ei­líf­lega standa elsku­band og ást­ríki í sönn­um guði og eink­an­leg­um föð­ur vor­um Mikha­eli.” En er bysk­up hef­ur sín orð til enda gjört, falla sendi­boð­ar fram í lít­il­læti, þakk­andi með hjarta og munni, hversu drott­inn him­ins og jarð­ar gjörði far­sæl­an þeirra veg. Geng­ur þá bysk­up til með guð­leg­um ótta og sníð­ur part af þeim sama rauða dúk, er há­leit­ur Mikha­el hafði með prýtt það sama kirkj­unn­ar alt­ari, er hann smíð­aði, sem fyrr greindi í sög­unni. Hér með legg­ur bysk­up upp­höggv­inn hlut af þeim marmara­steini, er heil­ag­ur Mikha­el stóð á fyr­ir norð­ur­dyr­um, sem fyrr var sagt. Taka sendi­menn þess­ar mæt­ustu gjaf­ir glað­ari en gull, virkt­um varð­veit­andi fram­ar en feg­ursta topaz­ion, en gefa bysk­upi Sepontino og ábóta Mikha­el­is glaða þökk og góð­an dag fyr­ir tígu­lega trakt­er­an sér veitta, ráð­andi síð­an í veg svo vel og giftu­lega, að geng­ur að sólu, koma fram með heilu og höldnu ger­andi orð Abrin­censi bysk­upi, að þeir eru land­fast­ir með sannri far­sæld allra sinna er­inda. Verð­ur bysk­up [bls. 710] þeirri sögu fegn­ari en frá megi segja, því að nú gang­ast góð tíð­indi glöð í móti, og fagn­að­ir kyssa fagn­aði, því að rétt á sama degi er must­er­ið al­gjört í Arena, sem hann fregn­aði heim­komu sendi­boð­anna. Því býð­ur hann í stað, að til hans komi ágæt­ustu menn rík­is­ins bæði kirkju og kúrie að sœma sinni ná­lægð þann há­leita the­saur, er í var kom­inn þeirra land­skap. En hvað má segj­ast af þess­ari fylgd og ferð, er öll hljóð­aði með himna­söng hjart­an­legr­ar cant­ilene móti sæl­um Mikha­eli. All­ar ná­læg­ar álf­ur syngja lof með fagn­aði, flokk­um renn­andi fyr­ir og eft­ir, snauð­ir og sæl­ir, kall­ar og kon­ur, yngri og eldri, all­ir kveikt­ir ein­um eldi að virða, dýrka og lofa þann há­leita höfð­ingja him­neskr­ar her­ferð­ar, er þeim veitti guð­lega for­sjála gjöf til ei­lífra fagn­aða. Ei má grein­ast sú and­leg gleði, er guðs vin­ir þágu á þeim degi, er heil­ag­ir dóm­ar Mikha­el­is bár­ust inn í nýja must­eri, því að alla vega út í frá var kvikt og lif­andi til jar­teina­gjörð­ar í krafti al­mátt­ugs guðs, svo að á sjálf­um veg­in­um tóku sýn xii blind­ir menn, og um­fram ein kona af þeim bœ er Auster­iakus heit­ir. Hún hafði lát­ið með stríð­um augna­verk bæði sín augu, svo að tóm­ir voru augna­stað­irn­ir, að því há­leit­ari yrði heið­ur Mikha­el­is í henn­ar heilsu­bót. Þessi kona var í fylgd með heil­ög­um dóm­um af því hér­aði, er hún átti heima, og jafn­framt sem ferð­in kem­ur öll sam­an nið­ur að slétt­lendi sand­anna, tek­ur kon­an ljós en kast­ar myrkr­um, undr­andi sína nótt hafa brott flú­ið und­an nýj­um degi skærr­ar sýn­ar. Og eigi veitt­ust guð­leg­ar jar­tein­ir fyr­ir dýr­leg­ar gjaf­ir Mikha­el­is að­eins á þeim degi, held­ur skína þar dag­lega bjart­ir geisl­ar krafts og stór­merkja út til beggja handa í lof og dýrð vor­um grœð­ara og hans mæt­asta er­ind­reka, því að jar­teina­rás hef­ir ekk­ert tak­mark í þeim stað, hvar fyr­ir all­ur heim­ur vest­ur­álf­unn­ar flyt­ur og fer til þessa brunns, finn­andi skæra drykki af lífs­keldu Mikha­el­is. Þessi stað­ur er svo heil­ag­ur, að þar fremst ekk­ert ver­ald­legt verk, og þeim ein­um heyr­ir þessi stað­ur, er guði unna og hon­um iðu­lega þjóna. Því flyt­ur þessi stað­ur marg­an mann til ei­lífra fagn­aða, að brenn­andi ást kraft­anna rík­ir þar í must­er­um and­anna. Þessi há­leiti stað­ur fékk nýtt nafn, síð­an hann efld­ist, og er kall­að­ur Tumba. Það þýð­ir að voru máli sem eitt leiði, því að ef langt sér til stað­ar­ins, er því líkt á sitt form, sak­ir þess að lágt er [bls. 711] hús­að, sem fyrr seg­ir, en stað­an hrós­ar eigi sak­ir lág­lend­is. Tvisvar á hverj­um degi læt­ur guð haf­ið vægja og veita góð­fús­um lýð lið­ug­an gang til lofs og dýrð­ar Mikha­eli, en þess í með­al bann­ar sjór­inn alla til­ferð. Verða hans byggð­ir því betri og ná­læg­ari guði sem þær eru heim­in­um fjar­læg­ari og meir frá byrgð­ar hans sukki og ósóma.

            

Huddleston, Gilbert @ The Catholic Encyclopedia (1911)

Wikipedia (enska)

Wikipedia (franska)

Wikipedia (þýzka)

Read Full Post »

Lanciano

       

 Sakramentið í Lanciano

      

SANTUARIO DEL MIRACOLO EUCARISTICO - LA NAVATA DELLA CHIESA

         

Snemma á áttundu öld söng prestsvígður munk­ur af reglu heil­ags Basil­íus­ar messu í bœn­um Lanci­ano, sem er á aust­an­verðri Ítalíu. Munk­ur­inn ef­að­ist um, að host­ían og vín­ið breytt­ust í raun og veru í lík­ama og blóð Krists, þeg­ar inn­setn­ing­ar­orð­in eru les­in. Hon­um var ljóst, hve al­var­leg­ur efi hans var, og hann baðst oft fyr­ir, að hann mætti fá full­vissu. Í þess­ari messu gerð­ist svo það, að um­breyt­ing­in varð sýni­leg. Host­ían fékk ásýnd holds og vín­ið ásýnd blóðs. Hann kall­aði kirkju­gest­ina strax sam­an, til að sjá, hvað hafði gerzt, og nú var hinn­ar helg­uðu evkar­istíu ekki neytt, held­ur hún varð­veitt, svo að all­ir mættu sjá hana.

Þetta hold og blóð Krists er enn til sýn­is í kirkj­unni. Það hef­ur ekki breytzt á 1.300 ár­um, og þó hef­ur eng­um efn­um eða neinu öðru ver­ið beitt, til að varð­veita það óbreytt. Það hef­ur nokkr­um sinn­um ver­ið rann­sak­að, síð­ast ár­ið 1971 með beztu mögu­legu tœkni. Odoardo Linoli pró­fessor í há­skól­an­um í Siena stjórn­aði þeirri rann­sókn. Stað­fest var, að hold­ið er raun­veru­legt manns­hold, úr hjarta­vöðva, og blóð­ið raun­veru­legt manns­blóð úr blóð­flokkn­um AB, með öll­um venju­leg­um frum­efn­um. Kirkj­an hef­ur úr­skurð­að, að þetta er satt. Raun­veru­leg um­breyt­ing verð­ur í hverri ein­ustu kaþólskri messu, þótt hún sé ekki sýni­leg á þenn­an hátt. Blóð­ið í Lanciano skipt­ist af sjálfu sér í fimm köggla, jafn­marga sár­um Krists.

Jón Rafn Jóhannsson gaf upplýsingar um at­burð­inn í Lanciano. Hann rit­aði sjálf­ur um þetta grein á vef­inn kirkju.­net ár­ið 2006.

       

Lord, Bob & Penny @ Miracle of the Rosary Mission

Real Presence Eucharistic Education and Adoration Association

Santuario del Miracolo Eucaristico

Tardif, Thérèse

Wikipedia (enska)

Wikipedia (ítalska)

Wikipedia (portúgalska)

Zenit (2005)

.         

Read Full Post »

    

Núrsía

   

cras04

   

Benediktsmunkarnir í Núrsíu

     

Tvíburarnir Benedetto og Scolastica fœdd­ust ár­ið 480 í Norcia í hér­að­inu Perugia á Mið-­Ítalíu [Umbria]. Þau urðu frum­kvöðl­ar klaust­ur­lífs á Vest­ur­lönd­um. Allt frá 10. öld var reglu­legt klaust­ur­hald í þess­um bœ, unz Napol­eon Bona­parte rak munk­ana burt 1810. Þeir áttu ekki aft­ur­kvæmt.

Prestur að nafni Cassian Folsom (1955-) stofn­aði 1998 ásamt tveim­ur kunn­ingj­um sín­um til munk­líf­is í Róm, þótt efni væru lít­il. Þeir komu sér fyr­ir í þröngri íbúð, inn­rétt­uðu eitt herberg­ið sem kap­ellu og fœrðu skömmu síð­ar út kví­arn­ar með því að leggja und­ir sig bíl­skúr sem svefn­stofu. Þeir gengu undir Bene­dikts­reglu. Þeir líta svo á, að stofn­skrá henn­ar sé ein af gjöf­um hins Heil­aga Anda.

En nú kom upp á árinu 2000, að unnt væri að sam­eina þetta tvennt: munka­lausa klaustr­ið í Norcia og klaust­ur­lausu munk­ana í Róm. Það gekk eft­ir, starf­ið bless­að­ist og munk­um hef­ur fjölg­að að mun. Þeir hafa eign­azt klaust­ur­rúst í hálfr­ar klukku­stund­ar göngu­leið frá bœn­um. Ætl­un­in er að end­ur­reisa hana, því að þar er betra næði og stœrra at­hafna­svæði. En jafn­framt hyggj­ast þeir áfram hafa að­set­ur inni í Norcia.

Munkarnir hafa sett upp snot­urt vef­set­ur. Þang­að má með­al ann­ars sœkja fagr­an söng, auk held­ur að panta hljóm­disk, sem þeir gáfu út vor­ið 2004 með tón­list til að nota á messu­dög­um Bene­dikts [11. júlí] og Skolast­iku [10. febr­úar]. Einn­ig sést, hvern­ig þeir verja deg­in­um, sem hefst með tíða­söng snemma á 5. tím­an­um. Klaustr­ið tek­ur á móti ferða­löng­um. Það hef­ur um­sjón með helgi­haldi í basilík­unni í Norcia, og þar er mess­að bæði á latínu og ítölsku. Í hvelf­ingu und­ir henni er að finna merki um hús heil­ags Benedikts.

Heilagur Gregorius mikli sagði frá Bene­dikt og Skolast­iku, sjá 2. bók af Dia­log­unum.

     

Read Full Post »

  

Hús Ananíasar í Damaskus (Wikimedia Commons)

   

Versin 1-19 í 9. kapítula Postulasög­unn­ar hljóða svo: En Sál blés enn ógn­um og mann­dráp­um gegn læri­svein­um Drott­ins. Gekk hann til æðsta prests­ins og beidd­ist bréfa af hon­um til sam­kund­anna í Dam­ask­us, að hann mætti flytja í bönd­um til Jerú­sal­em þá, er hann kynni að finna og væru þessa veg­ar, hvort held­ur karla eða konur. En þeg­ar hann var á ferð sinni kom­inn í nánd við Dam­ask­us, leiftr­aði skyndi­lega um hann ljós af himni. Hann féll til jarð­ar og heyrði rödd segja við sig: "Sál, Sál, hví of­sœk­ir þú mig?" – En hann sagði: "Hver ert þú, herra?" – Þá var svar­að: "Ég er Jes­ús, sem þú of­sœk­ir. En statt upp og gakk inn í borg­ina, og þér mun verða sagt, hvað þú átt að gjöra." Föru­naut­ar hans stóðu orð­laus­ir. Þeir heyrðu að vísu raust­ina, en sáu eng­an. Sál reis á fœt­ur, en þeg­ar hann lauk upp aug­un­um, sá hann ekk­ert. Þeir leiddu hann við hönd sér inn í Dam­ask­us. Þrjá daga var hann sjón­laus og át hvorki né drakk. – Í Dam­ask­us var læri­sveinn nokk­ur, sem hét An­an­ías. Við hann sagði Drott­inn í sýn: "An­an­ías." – Hann svar­aði: "Hér er ég, Drott­inn." – Drott­inn sagði við hann: "Far þeg­ar í stræti það, sem kall­að er Hið beina, og í húsi Júd­as­ar skaltu spyrja eft­ir manni frá Tars­us, er heit­ir Sál. Hann er að biðja. Og hann hef­ur í sýn séð mann, An­an­ías að nafni, koma inn og leggja hend­ur yf­ir sig, til þess að hann fái aft­ur sjón." – An­an­ías svar­aði: "Drott­inn, heyrt hef ég marga segja frá manni þess­um, hve mik­ið illt hann hef­ur gjört þín­um heil­ögu í Jerú­sal­em. Og hér fer hann með vald frá æðstu prest­un­um að fœra í bönd alla þá, sem ákalla nafn þitt." – Drott­inn sagði við hann: "Far þú, því að þenn­an mann hef ég val­ið mér að verk­fœri til þess að bera nafn mitt fram fyr­ir heið­ingja, kon­unga og börn Ísra­els, og ég mun sýna hon­um, hversu mik­ið hann verð­ur að þola vegna nafns míns." – Þá fór An­an­ías af stað, gekk inn í hús­ið og lagði hend­ur yf­ir hann og mælti: "Sál, bróð­ir, Drott­inn hef­ur sent mig, Jes­ús, sá er birt­ist þér á leið þinni hing­að. Þú átt að fá aft­ur sjón þína og fyll­ast Heil­ög­um Anda." Jafn­skjótt var sem hreist­ur félli af aug­um hans, hann fékk aft­ur sjón­ina og lét þeg­ar skír­ast. Síð­an neytti hann mat­ar og styrktist.

Ananías er álitinn hafa ver­ið for­ystu­mað­ur í hópi krist­ins fólks í Dam­ask­us í Sýr­landi, og í húsi hans hafi það safn­azt sam­an. Órof­in hefð virð­ist vera, hvaða hús það sé, og þar er kap­ella, sem með­fylgj­andi mynd frá Wiki­media Comm­ons er tek­in í. Aðra mynd og dá­litla um­fjöll­un er að finna á vefn­um Addict­ed to Travel og fleiri mynd­ir hjá Alan­hot­line á You­Tube. Sjá einn­ig Wiki­pediu á ensku, með enn einni mynd. Sögu­leg­an fróð­leik má svo lesa á vef grá­brœðra (O. F. M.).

   

Read Full Post »

Older Posts »